Katrín Jónsdóttir meinafræðingur er myndarleg kona. Hvítur sloppur fer henni vel, jafnvel yfir úlpunni. Hún er ljóshærð, bláeygð, falleg. Bara ekki alveg nógu stór. Hún getur ekki, með álfkonulíkama sínum, komið í veg fyrir að ég sjái meira en ég vil sjá af innviðum þessarar byggingar, þessa steinkumbalda með moldargólf, þessa sláturhúss.
Katrín horfir í augun á mér, ég stari á móti og geri mér ekki grein fyrir að ég er að stara, ég er að reyna að horfa hvergi annars staðar en beint í augun á henni.
“Þetta er ljótt,” segir hún.
Ég veit það. Ég neyði mig til að horfa. Fyrir utan Katrínu eru tveir aðrir hvítsloppar með vasaljós að fikra sig með veggjunum sitt hvoru megin. Í miðju rýminu er borð, rauninni lítið annað en tveir búkkar og nokkrir plankar.
Á borðinu liggur líkami. Það hlýtur að vera líkami. Þarna eru útlimir, handleggir, fætur. Brjóstkassinn er opinn, tómur, magaholið sömuleiðis. Höfuðið er kannski hálft eftir, sneitt ofan af því eins og vatnsmelónu og andlitið virðist líka vera horfið.
Gólfið er þakið innyflum, líkamspörtum. Ekkert sem hægt er að þekkja, bara rauðar flyksur, eins og einhver hafi hellt úr gríðarstórri krukku af jarðaberjamauki yfir gólfið.
Skyndilega sortnar mér fyrir augum, ég fell aftur og rek axlirnar og hnakkann í vegginn bakvið mig. Kata er hjá mér í tveimur skrefum, tekur um olnbogann og reisir mig upp.
“Það er ekki mikið sem við getum gert núna,” segir hún. “Við verðum að ljósmynda allt og tína þetta upp einn fermetra í einu.”
Ég kinka kolli. Ég verð að segja eitthvað.
“Hversu lengi?”
“Stutt. Kannski ekki nema klukkutími. Finnurðu, það er ennþá heitt hérna inni. Einn mannslíkami inniheldur mikinn hita.”
Palli og Gummi hjálpuðu mér upp aftur. Pétur var enn að reykja, kannski var það sama sígarettan, kannski sú tuttugasta frá því ég sá hann síðast. Ég gerði mér enga grein fyrir hversu lengi ég var búinn að vera niðri í vatnstankinum.
“Þetta er nýtt,” sagði Pétur.
“Ég veit. Þetta er eins og í bíómynd, svona lagað gerist ekki á Íslandi!”
“En nú hefur það gerst,” sagði Pétur.
Ég gat engu svarað. Þetta var rétt hjá honum. Við erum vanir að sjá skítinn í samfélaginu, sorann og óhugnaðinn sem flestir láta eins og sé ekki til, en við höfðum aldrei séð neitt þessu líkt.
“Hvernig uppgötvaðist þetta?” spurði ég.
“Það voru tveir strákar úr Árbænum, þeir hjóla víst oft hingað uppeftir og leika sér í tankinum,” sagði Pétur. “Foreldrar annars þeirra hringdi eftir að hann kom heim, frávita af hræðslu.”
Ég horfði niður um opið. “Leika sér? Hvernig komast þeir upp aftur?”
“Það eru spýtur niðri sem má nota sem stiga,” sagði Gummi. “Ég lék mér hérna stundum sem strákur. Það eru alla vega þrír svona tankar á svæðinu, og ég hef farið niður í þá alla.”
“Þeir fóru niður. Báðir? Fóru síðan heim í Árbæinn, foreldrar annars hringja. En foreldrar hins?”
“Voru ekki heima. Ég fékk símanúmerið hjá foreldrum vinarins og hringdi og hann var einn heima, mjög æstur. Ég sendi bíl heim til þeirra beggja,” sagði Pétur.
Fyrir neðan hólinn lá gamall malarvegur, gamli suðurlandsvegurinn, uppsparkaður af hestamönnum og núna þakinn bílum. Of seint að leita að grunsamlegum bílförum þar. Í hina áttina féll landslagið niður í átt að dálitlu dalverpi og handan þess sáust ljós í glugga.
“Hvaða hús er þarna?” spurði ég Gumma, sem greinilega var kunnugur svæðinu.
“Þetta er gamalt sumarhús, ég veit ekki hver býr þarna. Það er fullt af svona húsum hérna, sum eru ennþá notuð sem sumarhús en í sumum býr fólk allt árið,” sagði Gummi.
“Pétur, ég vil að þú og Gummi farið og talið við fólkið í þessu húsi þarna,” sagði ég. “Finnið kort af svæðinu, finnið öll hús sem liggja að öllum aðkomuleiðum og kannið hvort fólk hefur verið í þeim síðustu sex klukkutímana og yfirheyrið alla sem það á við. Við Palli förum og tölum við strákana tvo.”