Maður eða mús, kona eða rotta
Er heimurinn eins og ég sé hann? Er manneskjan mælikvarði allra hluta? Upplifum við sömu sorgina? Erum við við, þú, ég eða ekkert?
Ég vaknaði með stingandi höfuðverk, ég leyfi hausnum að leggjast of mikið undir feld. Öllum liði betur ef við þyrftum ekki að hugsa svona mikið. Vinnumaurar hafa ekki tíma til að bleyta höfuðleðrið. Vinnum án þess að brjóta heilann, það eitt gerir lífið bærilegt.
Mikilvægasta máltíð dagsins lá fyrir framan mig og gerði gys að mér. Ég át hana. Ég ákvað að þeyta þræðihjólið í vaxtaræktinni. Það fær mig stundum til að láta hugann hætta að reika. Það verkaði ekki þann daginn.
Ég man það eins og það hafi gerst í fyrradag. Þá var blóðið í bróður mínum ennþá heitt. Við vorum saman í sveitinni hjá afa, hann útbjó nesti og tvíeykið fór á tveimu jafn skjótum uppá tún. Himininn var himinblár og aðeins einn lítinn skýhnoðra að eygja. Sólin var undarlega lík appelsínu sem himinhvolfið var að afhýða. Grænu jarðtengdu þræðirnir náðu mér að nafla og kitluðu fingurgómana. Við lögðum okkur á jörðina, átum döðlubrauð og drukkum rotvarnarefnafría og júgurheita mjólk. En skyndilega varð mér jökulkalt, það var eins og kuldinn kæmi innan frá. Einhver var að þvo innviði mín uppúr köldu vatni.
Myrkur át ljós og appelsínan skoppaði hlæjandi á brott.
Mér varð litið á bróðir minn, augun voru glóandi og lýstu eins og bíll á lágu ljósunum. Hann sagði mér að hafa engar áhyggjur og hvarf svo að eilífu.
Ég hrökk við, sturtan var orðin ísköld og puttarnir orðnir að vatnssósa rúsínum.
Garnirnar gauluðu líkt og beljurnar bauluðu. Þær kölluðu, borðaðu borðaðu. Ég fyllti brennsluforðann þangað til að þær sofnuðu. Ég lokaði augunum og fór sjálf að sofa.
Hún vaknaði sem karlmaður. Áður en hann fór á fætur gerði hún smá tilraun… Og leyfði svo barnaefninu að bleyta svitugt sængurverið.
Hann stóð fyrir framan spegilmynd sína og hnykklaði kjötið. Vá.
Menn eru líka konur.
Hann mundi það, hann heitir Mundi og vinnur á leikskóla. Hann er að verða of sein(n) til vinnu. Mundi var vel liðinn af hinum ómenguðu heilum barnana. Hann var einn af þeim. En þegar Mundi var með þeim er vaxnir voru uppúr grasi átti hann mjög erfitt með að gefa hjartanu tungu. Og var talinn alvarlega brenglaður.
Í vinnunni lék Mundi sér í playmó, legó, bíló, mömmó og síðast en ekki síst dúkkó. Svo fór hann heim.
„Hver er tilgangur lífsins”? Spyr Mundi móður sína þegar hann kemur stökkvandi úr forstofunni.
„Haveitché’ekki”.
Mundi og móðir hans bjuggu ein í illa upplýstri stúdíóíbúð. Teppið var ýmist pissugult eða hægðabrúnt en ekki í neinni skipulagðri röð… veggirnir, ómálaðir steypuhaugar. Mamma Munda matbjó moðsoðinn steypireið í saltaðri grillsósu. Hún setti óheimabakaða rúgbrauðið í ristavél og hrásalatið steikti hún á pönnu. Ilmurinn eða fnykurinn réttara sagt hefði geta drepið alnæmisveiruna.
En Mundi og múttan tóku hennar stað.
Þegar til himna var komið hitti ég bróðir minn. Það voru svo sannarlega miklir fagnaðarfundir. Svo var ég boðuð á fund guðs. Ég spurði hann hver tilgangur lífsins væri. Hann svarað með sinni yfirþyrmilegu rödd.
„Það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli heldur ferðalagið”.
EkztaC