Að sjá ljósið…
Þegar hann horfði í höfnina sá hann fyrir sér hvar ljósið lá undir yfirborðinu og beið eftir honum. Það er bara helvítis kjaftæði að þetta sé í einhverjum göngum, hugsaði hann með sér.
Hann dreymdi aldrei. Ekki lengur. Þegar hann var ungur þá dreymdi hann dag og nótt, um framtíðina og fortíðina og hvernig hann gat ofið framtíðina úr fortíðinni. Seinna dreymdi hann um það hvernig hann gæti ofið fortíðina úr framtíðinni þannig að framtíðin yrði eins og fortíðin. Nú dreymdi hann ekki meir. Þangað til í nótt. Í nótt dreymdi hann sig standandi í göngum, og við enda gangnanna var ljós. Hann gekk í áttina að sefandi ljósinu sem varð skært og drap augun hans með birtu en það skipti engu máli af því hann sá samt. Þá heyrði hann drunurnar í risastóru ljóseindunum sem herjuðu á sál hans og við það festi hann sig í járnbrautarteinunum.
Eftir þessa óskemmtilegu lífsreynslu ákvað hann að ljósið væri ekki í göngunum, heldur í vatninu. Nú kallaði vatnið á hann en hann gaf sig ekki því að allir aðrir kölluðu á hann.
“Pabbi, hvernig munnur er metalmunnur?”
“Ummm…”
“Árni minn, ætlarðu að skreppa út eftir kolum?”
“Ehh…”
Dóttir hans var líklegast það sem hélt honum við efnið, kannski af því hún var ekki alltaf að segja honum hver hann væri. Hún var líka bara sjö ára.
-Ojæja, hún á eftir að eldast, og hvað gerir hún þá annað en að svara þeirri spurningu hver ég er?
Hann hafði ekki fengið að vita hver hann væri, af því hann var einhver sem hann vildi ekki vera. Hann hafði reynt að gera framtíðina eins og hann hafði viljað hafa hana. Þegar hann var 18 ára hafði hann eignast yndislega konu, Jóhönnu, en því miður höfðu þau ekki farið nógu varlega, og níu mánuðum síðar eignuðust þau Önnu Hrefnu. Hann hafði þó verið bjartsýnn á framtíðina og átti líka ekki í vandræðum með að vinna með skólanum fyrstu tvö árin, en svo byrjaði háskólinn og þá vandaðist málið. Hann hafði tekið sér frí frá námi og einbeitt sér að því að afla peninga fyrir litlu fjölskylduna sína, hafði unnið dag og nótt í sex ár, á meðan konan hafði hægt og rólega tekið breytingum á verri veginn, þannig að nú var hún í besta falli dauðyfli sem hafði orðið fórnarlamb bandarískrar lágmenningar og örbylgjuofna.
Fyrir ári síðan hafði hann svo byrjað í háskólanum og notaðist við peningana sem hann hafði safnað sér yfir árin. Anna var byrjuð í skóla og þótti góður námsmaður, auk þess sem hún var í gæslu allan daginn, og því gat hann einbeitt sér að eðlisfræðinni á meðan konan lá heima. Núna var hins vegar allt að falla saman aftur. Yfirvöldin höfðu komist á snoðir um heimilisástandið, um útbelgda verkjalyfjamóðurina, saklaust barnið og föðurinn sem hafði engan tíma.
Þótti mörgum illskiljanlegt hvers vegna hann hélt ekki áfram í vinnunni. Hann hefði getað náð sér í frama, kominn í skrifstofustarf hjá DHL Hraðflutningum og á uppleið. Þetta vildi hann ekki sætta sig við, hann var að reyna að svara spurningunum sínum sjálfur án þess að aðrir væru eitthvað að rífa sig.
-Þau vita ekkert, þessir andskotar.
Félagsmálastofnun hafði sent lækna á konuna, hafði sent hana í rannsóknir af ýmsu tagi og hafði sent hana heim með blað sem á stóð “Brjóstkrabbamein, ólæknanlegt.”
Og nú átti hann að borga fyrir allt saman. Hann átti að borga með því að svara engum spurningum, með því að lifa fyrir þau og gefa sig á vald framtíð sem var ekki hans eigin.
Hann var 27 ára og orðinn gamall. Gamli maðurinn afréð að deyja, uppfullur af nostalgíu og eftirsjá.
Og hann horfði í höfnina….