Tiijavi tók saman draslið og gekk út. Kvefaður gekk hann meðfram húsaröðunum þar sem gamla bakaríið stóð. Hann stoppaði fyrir framan gluggann. Hann horfði á alla snúðana, vínarbrauðin og kökurnar. Sumar voru með súkkulaði og sumar með glassúri. Bara ef hann ætti pening fyrir einum snúð. Þeir voru svo girnilegir. Mamma hans myndi aldrei gefa honum pening. Hún hefur aldrei gert það og mun aldrei gera það. Gaf alltaf bara Magga og Sigga, dekruðu tvíburunum. Hann var örugglega skírður Tiijavi út af því mamma hans þoldi hann ekki og refsaði honum með því að skíra hann ljótu nafni. Afhverju Tiijavi? Hún gat valið Ljótur þess vegna, það var flottara en Tiijavi.
Hann gekk og gekk. Settist á bekk í almenningsgarðinum og tók upp náttúrufræðibækurnar sem hann var með í skólatöskunni. Byrjaði að læra. Hann fékk ekki neinn annan stað til að læra. Hann átti ekki sitt eigið herbergi heldur svaf á gólfinu í stofunni. Ef hann var heppinn leyfði pabbi hans honum að sofa í sófanum. Ef hann myndi fara heim þá myndi mamma hans skipa honum að laga til í eldhúsinu eða einhverstaðar sem Maggi og Siggi höfðu ruslað til.
Katrín bekkjarsystir hans gekk til hans. Hún var þreytt, nýbúin í löngum körfuboltaleik handan garðsins. Hún var í flottum bláum íþróttabuxum og blárri íþróttapeysu. Hún var svolítið sæt. Með ljóst stutt hár og ljósa húð. Hún settist hjá honum og spurði hann afhverju hann sæti þarna og lærði, afhverju var hann ekki heima hjá sér. Hann svaraði því að honum fyndist betra að læra undir berum himni. Það var svo gott veður, sólskin og logn. Það gat í rauninni ekki verið betra.
„Afhverju kemurðu svona oft seint í skólann?“ spurði hún hann. „Ég veit ekki, stundum vakna ég bara svo seint,“ svaraði hann. Mamma hans vakti alltaf bræður hans fyrst og hirti ekki um að vekja hann. Einu sinni bað hann pabba sinn um vekjaraklukku en hann sagði þvert nei. Mamma hans myndi finna hana og henda henni. Einu sinni þegar hann var með hlaupabóluna lét hún hann hlaupa tíu hringi í kringum blokkina sem þau bjuggu í og þegar hann féll í jörðina af þreytu hirti hún ekki um að hjálpa honum. Lét hann liggja þar. Hann var liggjandi fyrir utan blokkina í örugglega klukkutíma þar til Maggi kom og spurði hann hvort allt væri ekki í lagi. Hann sagði að hann hefði dottið og var að jafna sig, en samt vissi hann að Maggi vissi hvernig hún meðhöndlaði hann. Hvernig hún hugsaði ekki um hann, hvernig hún reif fötin hans og fékk aldrei ný. Henni var algjörlega sama um hann. Hvernig maður hann yrði, nú orðinn fimmtán ára. Hann lét sig dreyma um að verða frægur stjörnufræðingur. Hann hafði alltaf haft mikinn áhuga á stjörnum og öllu sem tengdist þeim. Þær voru ótrúlega fallegar, svo skærar og vel gerðar. Það er eins og þær voru teiknaðar af frægum listmálurum, eins og Picasso. Hann langaði að verða eins og hann, bara stjörnufræðingur. Hann hafði alltaf verið góður í náttúrufræði þótt hann fengi ekki mikinn tíma til þess að læra.
Katrín sat ennþá þarna, horfði á hann læra. Hann sá á henni að hún var forvitin og vildi vita meira um hann. Hann hélt samt áfram að læra. Hún stóð upp, tók körfuboltann sem hún var með í höndunum og byrjaði að drippla honum. Hann leit upp og hún spurði hann hvort hann vildi koma í körfubolta en hann neitaði. Hann þurfti að læra og svo fara heim að hjálpa pabba að elda matinn. Hún horfði á hann, sagði svo bless og gekk í burtu. Hann kvaddi hana ekki. Hann hafði aldrei lært að kveðja. Mamma hans sagði aldrei neitt við hann, nema þegar hún var að skamma hann og skipa honum fyrir. Pabbi hans talaði lítið við hann. Hann þorði því aldrei því hann var svo viss um að mamma hans myndi segja honum að koma og vinna eitthvað.
Hann horfði á eftir henni ganga. Hún gekk hægt og horfði niður. Hann kallaði á hana. Hún leit við og gekk til hans. „Kannski ég komi bara í körfubolta með þér,“ sagði hann furðulostinn yfir hugrekki sínu. „Allt í lagi,“ sagði hún og dripplaði boltanum tvisvar og kastaði honum svo til hans. Hann kunni ekkert í körfubolta. Hann hafði bara einu sinni farið í hann í íþróttum í skólanum. Hann dripplaði boltanum klaufalega og skaut honum í körfuna. Hitti ekki. Hann átti ekki von á því en brosti samt. Hún brosti líka. Hún hljóp og reyndi að komast undan honum þar sem hann reyndi að ná boltanum. Hún hló og skaut. Skoraði. Þau brostu.
Hálftími leið, svo klukkutími. Hann sagðist þurfa að fara heim að borða, klukkan var orðin rétt rúmlega sex. Hann skammaðist sín dálítið því núna væri hann venjulega hálfnaður með að elda matinn með pabba sínum. Hann tók saman bækurnar sínar og lét þær í töskuna. „Má ég ganga með þér heim?“ spurði hún. Hann beið svolítið og hugsaði hvað mömmu hans fyndist um það. Hann vildi hefna sín svolítið á henni og svaraði játandi. Þau gengu meðfram húsunum og sögðu lítið. „Þú átt ekki marga vini, er það?“ spurði hún. Hann var orðinn þreyttur á forvitni hennar þar sem hann þurfti að segja mikið ósatt. Hann ákvað samt að vera hreinskilinn í eitt skipti. „Nei.“
Þau komu loks að útidyrunum fyrir framan blokkina hans. Mamma hans kom í dyrnar og sagði: „Hvar hefurðu verið? Þú átt eftir að elda matinn, auminginn þi…“ Hún stoppaði. Fylltist reiði þar sem hann hafði komið heim með stelpu sem hann þekkti lítið sem ekkert. Katrín kvaddi hann, þakkaði fyrir leikinn og hljóp í burtu. Mamma hans stóð enn í dyrunum og sagði honum að hunskast inn. Hann sýndi engin viðbrigði en brosti innra með sér. Hann fann að hann hafði eignast vin, sinn fyrsta vin.