Það er rigning úti núna. Regndroparnir falla í stríðum straumi niður af himninum og lenda með miklum látum. Samt er hvorki kalt né vindsamt þannig að rigningin fellur nokkuð beint niður.
Ég hef alltaf kunnað vel að meta rigningu. Ég get ekki alveg útskýrt það, rigning lætur mér líða vel af einhverjum ástæðum. Ég elska að fara út þegar rignir og fá mér náttúrulega sturtu. Það skiptir mig engu máli þó það sé kalt og það hefur stundum komið mér í koll. Stundum hef ég orðið veikur af því að eyða of miklum tíma í rigningunni. En ég læt það ekkert á mig fá.
Þetta hefur alltaf verið svona, alveg frá því ég man eftir mér fyrst. Ég man að þegar ég var lítill þá sat ég oft í pollagalla í sandkassanum við blokkina mína og lék mér einn löngu eftir að allir aðrir voru farnir inn til sín. Stundum sat ég bara í einhverjum drullupolli og horfði á þar sem droparnir lentu á pollinum og mynduðu hvern hringinn á eftir öðrum og gáruðu pollinn. Svo snéri ég andlitinu upp í himininn og lét rigna á andlit mitt og upp í mig.
Svo þegar ég fór að æfa íþróttir þá æfði ég mest megnis útiíþróttir, fótboltinn var fyrirferðamestur en ég prufaði einnig frjálsar íþróttir. Eins og þú reyndar veist, ég er búinn að segja þér þetta allt saman áður.
Ég kunni alltaf vel við mig þegar við þurftum að spila leiki í rigningunni, hún var svo frískandi og góð. Líka í útihlaupum þegar allir voru að bölva því að þurfa að hlaupa í rigningu þá tók ég aukasprett, mér fannst ég geta hlaupið endalaust, rigningin hressti mig bara við.
Og þegar ég kynntist þér. Ég man að það var rigning úti þegar ég sá þig fyrst. Ég hafði tekið aukasprett í rigningunni og var að koma inn í íþróttahúsið þegar ég mætti þér. Þú varst að koma úr einhverjum innitíma með vinkonum þínum, blaki eða handbolta eða einhverju af því sem þú varst að æfa á þeim tíma. Ég man að ég stoppaði til að klæða mig úr skónum og allt í einu stóðst þú fyrir framan mig. Þú leist á mig og skoðaðir mig frá toppi til táar, eflaust að furða þig á því hversu rennandi blautur ég var. Ég sá bros færast yfir andlit þitt um leið og þú leist í augun á mér. Og á þeirri stundu þá vissi ég að eitthvað stórkostlegt hafði gerst. Það var algjör ást við fyrstu sýn, allavega hvað mig varðar. Ég þurfti reyndar að eltast aðeins við þig en það var bara gaman og ég var alveg handviss um að ég myndi ná þér á endanum. Sem ég líka gerði.
Ég er búinn að vera að reyna að smita þig af rigningarást minni alveg síðan ég kynntist þér en með frekar misjöfnum árangri. Þú hefur enn ekki tekið íslensku rigninguna í sátt, enda meira fyrir hitann. Ég man eftir því þegar við vorum í fríi á Flórída. Þá kom heit rigning og ég dró þig út með mér. Við fórum út í bakgarðinn á gistiheimilinu sem við gistum á. Það var komið kvöld og myrkur og við fundum okkur stað sem var í skjóli bak við trén. Ekki samt í skjóli fyrir rigningunni. Við kysstumst og fundum fyrir líkama hvors annars og rigningunni. Það var ein besta stund lífs míns.
Og nú rignir á mig. Það rignir alveg heil ósköp. Ég finn ekki lengur fyrir dropunum en ég finn hvernig rigningin umlykur mig og gleypir mig algjörlega.
Þú hefur alltaf verið mikil Pollýanna í þér. Alveg frá því þú last bókina um Pollýönnu og sást kvikmynd um hana þegar þú varst lítil stelpa. Og alveg eins og ég hef verið að reyna að fá þig til að elska rigningu þá hefur þú verið að innræta með mér Pollýönnuboðskapinn. Alltaf að reyna að sjá eitthvað jákvætt út úr öllu. Ekkert er alslæmt. Það ert þú vön að segja.
Það er það sem ég er að gera núna, elskan. Ég er að leika Pollýönnuleikinn fyrir þig. Ég heyri ekki lengur nein hljóð úr bílnum þannig að ég beini orðum mínum til himins, þaðan sem rigningin streymir.
Mér hefur alltaf líkað vel við rigninguna.