Tré, logn, pollur, mannvera, og ég.
Morgun sólin skín. Hún gerði það alla nóttina, varpaði ótrúlega draumkenndum, ljóslifandi og skærum appelsínugulum lit, á alla mína tilveru.
Stór eik, og pollur fyrir neðan.
Fullnægir þörf verunnar fyrir vatn, kælir nakinn líkamann eftir heitan daginn. Ég geng að henni, sé hana nakta, sama ástand og þegar hún var borin inn í þennan heim. Hvers vegna er hún nakin?
Stór eik slútir yfir höfðum okkar, líkt og hún hafi öll heimsins vandamál flækt í greinum sínum og laufblöðum.
Hvers vegna er ég hér?
Þú vilt ef til vill kanna hið ókunna, er svarað.
Það er rétt, en einnig rangt í senn, því ég hræðist hið ókunna. Ómælanlegir hlutir fara í taugarnar á mér. Pí fer til dæmis í mínar fínustu… Og ég lít við á veruna. Var hún að segja eitthvað, við mig kannski? Hvers vegna er svona óendanlega heitt og rakt hérna, og óendanlega þægilegt. Ég tipla í laufi skreyttu grasinu, sting tá ofan í pollinn, og læt afganginn af mér síðan flakka.
Tilfinningar, tilfinningar, og ótrúlegur kuldi tekur við mér, en bara um skamma stund. Hvar er veran? Hún var hér rétt áðan. Ég staðnæmist, hætti að busla, og kyrrðin tekur við, ásamt stórkostlegri, óbrotinni þögn.
Þarna er hún þá. Ég brosi, og veran brosir við mér.
Þetta er mátulega heittkalt, fullyrði ég, og byrja svo að fikra mig upp eftir eikinni, upp úr pollinum. Lít niður og glotti, og veran hlær. Því það er svo gott.
Heit gola hvíslast í kringum mig, og ég er kominn hátt. Ég tæmi mig af öllu. Öllum áhyggjum, ótta, reiði, öllum tilfinningum varpað burt. Og ein eftir er tilfinningin. Er ég búinn að dvelja hér lengi? Eða stutt? Nokkrar sekúndur, mínútur, dagar, ár, aldir; ég veit ekki.
Ég veit ekki. Kyrrðin andvarpar aftur: Ég veit ekki. Það er eitt sem ég veit, og það er að ég veit ekki. Í þessari veröld, á þessum stað, á þessum tíma, þá er þessi sál fullkomnun, því ég þarf ekki meiri vitneskju við.
Þarna er sóla, hin aldna, sem vakað hefur yfir veröld okkar frá ómunatíð. Hún ákvað að staðnæmast, þarna á miðjum himninum snemma um morguninn, eða einhverntíma á síðustu öld, að því virðist. Þarna er hún, kyrr, og varpar geislum sínum til mín.
Niðri er veran enn, starir á mig, íbyggin á svip.
Hvað er ég búinn að vera hér lengi? Hún hugsar sig ögn um, og svarar.
Of lengi.
Af hverju segir þú það? Ekki hefur þú mælt tímann, því þú veist það eins vel og ég, að þú ert ekki með úr. Er tíminn ekki bara óendanlegur, fyrst að sólin hefur ákveðið að staldra við um stund, og brosa svolítið við okkur.
En, þú sagðir að hið ókunna hræddi þig. Þetta, segir hún og bendir á veröldina, er óendanlega djúpur óþekkjanleiki sem geymir allan veruleika og er samt það sem þú þráir? Þú ferð í hringi.
Því mér finnst gaman að snúast, svara ég að bragði, auk þess, þá læt ég ekki ótta minn móta skoðanir eða hug minn. Ég skolaði þann óþverra af mér þegar ég baðaði mig í pollinum, þú manst?
Auðvitað.
Ég stekk léttilega niður við hlið pollsins, niður í grænt grasið, með öllum laufblöðunum, sem gefa tilfinningunni súrealíska ábreiðu ofan á allt hitt.
Og horfi niður á pollinn, vatnið gárast í vindinum, það lægir aftur og veran lítur á spegilmynd mína, sína.