FRK. Margrét Skotsborg
Komndu nú ævinlega sæl og blessuð heillin mín og
hafðu mínar bestu þakkir fyrir jólakveðjurnar fra því
í decimbre á síðasta ári.
Ég er nú frekar pennalatur svo ekkert hefur orðið af
svari fyrr en nú, en betur seint en aldrei eins og
kerlingin sagði hérna á næsta bæ þegar hún fékk karl
sinn loks í klof eftir þriggja ára hlé á þeirra samförum
sökum andstyggilegrar nárahimnubólgu sem Hannes (en svo heitir
bóndinn) fékk hér um árið eftir áflog við tuddann hans Hjálmars
í Kasthvammi þegar tuddafjandinn ættlaði upp á hálf stálpada kvígu
Hannesarlaust fyrir þorra.
Svona var nú það rýjan mín,annars er nú allt meinlaust að frétta
héðan úr dalnum,nema hvað það var heldur minna um hagalagða þetta
sumarið svo lítið reyndar að ég náði ekki að fylla nema rétt neðan
í einn mélpoka svo jólaölið verður að láta sig vanta þetta árið.
Það er nú svosöm alltílagi rabbabarauppskeran var nefnilega með
eindæmum góð í haust og fékk ég eina 7 pela út úr uppskerunni af
afbragðs rabbabaravíni,það ætti nú að duga okkur heimilisfólkinu
fram á vormánuði ekki lepjum við svo mikið núorðið, þó gaman sé
að fá sér í tappa svona annaðslagið með venum þegar þeir detta hingað
suður á bæi.
Nú, nú, núna er þessi tími ársins sem blessaðar rollurnar eru
hvað ákafastar í að eiga gleðistund með gjörfilegum hrút eða
jafnvel hrútum, svo nóg er við að stússast og mikill handagangur
upp á hvern dag bæði í Lambhúsinu og Garkofanum, heldur er það
rólegra í Miðhúsinu enda flestar skjátur orðnar miðaldra sem
við hýsum þar, þó vilja þær fá sitt ganga samt hægara til verks
og ekki eins fjöllyndar og þær yngri hugsa frekar um gæðin og gleðina
heldur en magnið.Það hebbði nú verið saga til næsta bæjar hér um árið
ef Magnúsi hefði gengið eins vel að komast í brók þína og Rarí og Ödda
en svo heita hrútarnir mínir,bera sig að við skjáturnar. Þar er sko
ekkert hik og fum góan mín hemm hemmm.
Það er mikið um að vera í félagslífinu hér hjá okkur eins og að vanda
í mesta skammdeginu. Fyrst skal telja, að um aðra helgi ættlum við
að koma saman nokkur héðan úr dalnum og skera og tólg steikja laufa-
brauð að gömlum þingeyskum sið. Meiningin er að fólkið safnist saman
hérna í suðurbaðstofunni hjá okkur á Þverá og ættli verði nú ekki heldur
gaman þá,ég er nú hræddur um það skorið og sungið fram á rauða nótt.
Mamma gamla er meira að segja búinn að prjóna á mig hnellþykka mórauða
háleista svo ég geti nú hoppað og skoppað í fjörugum polkum og rælum
með þeim Hólasystrum. Hún er nú alltaf að reyna að koma mér inn
að kvennmannskinni blessunin.Þetta eru nú náfrænkur mínar og heldur
holdmiklar og síðbrjósta fyrir minn smekk,en dansa kunna þær sei sei já.
Ættli ég bíði ekki frekar ein 30 ár og sjái til með hana Margréti.
Bestu jólakveðjur Magnús