Hvítskeggjaði maðurinn í bjálkakofanum í skóginum.
Jól á Norðurpól
(veiðimaður skýtur mig)
(Ödipusarduld)

Á norðurpóli jarðar býr maður í bjálkakofa í stórum stórum skógi. Maðurinn er næstum því gamall, feitur og með hvítt mikið skegg. Nú fer að líða að jólum og allir eiga að vera glaðir.
Gamli maðurinn gerir lítið annað á daginn en að hanga heima hjá sér og orna sér við arineld í litla kofanum sínum. Þegar hann verður svangur fer hann út með stóra byssu og skýtur sér fugl og kartöflur í matinn. Grillar svo fuglinn og sýður kartöflurnar og leggst til svefns og reynir að dreyma skemmtilega drauma.
Að dreyma er það skemmtilegasta er gamli kallinn gerir, því í draumum er eini möguleikinn á að eitthvað skemmtilegt gerist í lífi hans. Á næturnar er hann sefur, hvín og gnístir í kofanum og það snarkar í eldstæðinu. En þrátt fyrir válynd veður er alltaf hlýtt og gott í þessu fátæklega híbýli hans.
Hann er mikill fuglaunnandi. Fuglarnir eru svo stór partur af lífi hans, að hann lítur á þá er börn er hann gat aldrey eignast. Hann gengur um pólskóginn á hverjum degi og skýtur fugla. Fuglaveiðar eru lífsvandamál hans: það er nefnilega hængur á að gagnkvæm ást geti ríkt á milli tvífætlinganna og hans. Sú staðreynd að hann gengur um með byssu og tekur fugla af lífi á hverjum degi stendur í vegi fyrir því að hann og fuglarnir geti bundist vináttuböndum. Hann vill gjarnan vera vinur fuglanna, honum finnst þeir fallegir og skemmtilegir. En hann vill líka fá að skjóta þá. Þetta gengur alsekki upp, því menn geta ei verið vinir þeirra er menn skjóta. Að staðaldri eru það þeir er fyrir skotum verða er laðast ei að skyttum frekar en skytturnar er skjóta er laðast ei að bráðinni.
Svo ástin er skilyrðislaus í aðra áttina.
En svona er lífið hugsar hann, ég get ekki hætt að skjóta fuglana, mennirnir hafa skotið fugla frá örófi alda og eigi má raska fæðukeðjunni. Hann er búinn að sætta sig við staðreyndir lífs síns.
Þannig gengur líf hans í sátt við sjálft sig.
Í litlum kofa á norðurpólnum.
Dag einn sat maðurinn við glugga skreyttan frostrósum. Norðurpóllinn skartaði sínu fegursta og mikil kyrrð ríkti í pólskóginum. Sólin var nýkomin upp og manninum var óhætt að taka því rólega við gluggann og horfa á náttúrufegurðina.

Þá kom lítið héraskinn
er vildi komast inn.

…Þetta var sjaldgæft…

“Jólasveinn, ég treysti á þig,
veiðimaður skýtur mig!”

…að héraskinn kæmi til gamla kallsins og bæði um húsaskjól. Sérstaklega í ljósi þess að enga veiðimenn væri að finna í skóginum. Hérinn og hinn meinti jólasveinn horfðust í augu gegnum rúðuna eitt augnablik.
Gamli kallinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð því nú voru góð ráð dýr en hann fátækur af ráðum. Eitt var þó víst, að þessi héri var kvöldmaturinn hans.
Enn horfðust þeir í augu og jólasveinninn velti fyrir sér hvernig hann gæti myrt hérann á er hreinlegastan hátt, án þess að skjóta hann innandyra og eyðileggja innanstokksmuni.
Hérinn lét flóttalega og virtist vera að missa vonina um felustað fyrir veiðimanni sínum.

“komdu litla héraskinn,
því ég er vinur þinn”.

Kallaði kallinn í gegnum rúðuna. Hérinn hoppaði frá glugganum.
Hugsanirnar flugu gegnum huga kallsins; að nú gæti hann komist hjá því að skjóta einhvern af sínum ástsælu fuglum í kvöldmatinn og e.t.v. aukið á traust milli hans og fuglanna.
Hérinn stóð fyrir utan að krafsa í hurðina þegar gamli kallinn opnaði kofann. Hann stökk inn við fyrsta tækifæri og hljóp undir rúm gamla kallsins. Gamli kallinn stakk hausnum út fyrir dyragættina og gætti að því hvort nokkur veiðimaður væri á leiðinni að stela af honum héranum. En það var einsog hann bjóst við, enginn veiðimaður á ferð á þessum slóðum.
Hann reyndi að hugsa, en annaðhvort flugu hugsanirnar svo hratt framhjá að hann náði ekki að grípa þær eða þær svifu svo hægt framhjá að hann gerði sér ekki grein fyrir þeim. Engin hugsun spratt upp úr hugarfylgsnum hans á eðlilegum hraða. Að endingu fangaði hann eina, ekki þá bestu, en það var þó hugmynd…
‘Ef til vill gæti ég drepið hérann’ muldraði hann svo enginn heyrði.
En það var víst svo augljóst að hann gerði sér alsekki grein fyrir því.
‘Jólasveinn ég treysti á þig, veiðimaður skýtur mig’ heyrðist undan rúminu. Hérinn endurtók orðin aftur og aftur því þetta var það eina er hann gat sagt. Hérinn sagði þetta með mjóróma rödd, svo titrandi og saklaust að gamli kallinn nánast skynjaði svart, tindrand og biðjandi augnaráð hérans alla leið undan rúminu. Að sjálfsögðu vildi jólasveinninn vera vinur hérans, en hann vildi samt drepa hann.
‘Komdu litla héraskinn, því ég er vinur þinn!’. Sagði gamli kallinn hlýlega. Hann vildi útbúa seinustu máltið hérans og vera þannig vinur hans og morðingi um leið.
Litla héraskinnið kom og settist upp á eldstó kallsins og leit út um glugga að gá til veiðimanna. Það var þá er hann sá byssuræksni kallsins og gerði sér grein fyrir því að jólasveinninn var ekkert annað en fretkarl.
‘komdu litla héraskinn, komdu því ég er vinur þinn’ sagði kallinn brosandi og benti héranum með hægum hnitmiðuðum handahreyfingum að koma til sín.
Hérinn sá enga útgönguleið og gerði sér grein fyrir því að hann var lentur í gildru. Hérinn átti í engum vandræðum með að grípa hugsanir sínar og ákvað að höfða inn á sektarkennd og samvisku kallsins með látbrögðum.
‘Jólasveinn ég treysti á þig, veiðimaður skýtur mig’ endurtók hann aftur og aftur og var að endingu byrjaður að hvísla með grátstafinn í kverkunum, horfandi á gamla kallinn.
‘Jólasveinn. Ég treysti á þig! Veiðimaður SKÝTUR mig !’.
Hérinn horfði beint framan í hvítskeggjaða manninn; Veðurbarið andlitið, grófar hrukkurnar er teygðu sig eins og jökulsprungur undan hvítu skegginu og upp undir augnkrókana, gráu hörðu augun er sukku inn undir augnbrýrnar er féllu aftur fram yfir og festust í augnhárunum, og úfna lubbana efst á þessu öllusaman.
Því oftar er hann sagði þetta og horfði stíft á andlit mannsins, tók hann eftir krampakenndum geiflum í munnvikum hans og að undarlegu vökvakenndu bliki í augunum.
‘Jólasveinn ég treyst…’.
Þá kiknaði kallinn, féll á kné og kveinaði…
‘Komdu litla héraskinn, því ég ER vinur þinn’. Nú var hann farinn að skæla og grét yfir öllum þeim fuglum er hann hafði skotið, öllum þeim vinum sínum er hann hafði myrt og fellt í valinn.
Áralöng bæld sektarkennd braust út þarna í þessum hljóðláta bjálkakofa á norðurhjara alheimsins og fyllti andrúmsloftið af vælandi hljómum. Hann gerði sér grein fyrir því að öll þessi ár er hann hafði eytt í smávinamorð voru aðeins afleiðingar af ödipusarduld hans, hann vildi bara líkjast föður sínum og vera einsog hann og eignast konu einsog móður sína og sækja björg í bú í skóginn.
Hann breyddi út faðminn eins mikið og hann gat í átt að héranum, og barði þrisvarsinnum hart í bringuna á sér til að undirstrika hversu mikil sannindi voru að koma í ljós á nákvæmlega þessu augnabliki.
Nú yrði hann að flytjast til borgarinnar og taka upp nútímalegri lifnaðarhætti.
Hérinn og gamli karlinn féllust í faðmlög og struku hvorum öðrum til huggunar.
Hérinn strauk gamla kallinum blíðlega um lendar og læri hans, en gamli kallinn færði sig upp að rót rófu hérans og nuddaði þéttingsfast, rólega og með jafnri tíðni. Þeim var báðum farið að hlýna töluvert. Hérinn var byrjaður að klípa gamla kallinn í síðuna, til huggunar, en gamli kallinn færði aðra höndina ofar klappaði héranum á hnakkann, til huggunar, og erti rót rófu hérans, til huggunar. Að endingu tók gamli kallinn um kverkar hérans með annari lúkunni og kreppti svo skyndilega, færði hina höndina upp sömuleiðis og herti takið, til huggunar. Hérinn, er var byrjaður að fikra loppunum meðfram innlærum gamla karlsins hætti í flýti og byrjaði að krafsa örvæntingafullt í vöðvastælta upphandleggi gamla kallsins í von um að sleppa, en krafsið hafði engin áhrif. Gamli karlinn herti bara takið um kok og kverkar hérans og fylgdist með örvæntingafullu svörtu, tindrandi og biðjandi augum hérans þrýstast út úr höfði hans.
Það seinasta er hérinn sá var andstæðukennt rautt og hvítt andlit gamla kallsins, mattar gular tennur er gægðust undan geðveikislegu hláturbrosi og myrkvuð augu í skugga samanherptra andlitsvöðva.
Þegar hérinn var loks dauður, henti jólasveinninn líflausum líkama hans í eldstónna og tautaði fyrir sjálfum sér…
‘Svona er lífið, það er ekki mitt hlutverk að raska gangi fæðukeðjunnar. Þetta eru bara staðreyndir lífsins’
Og þannig gengur líf gamla kallsins, í sátt við sjálft sig í litlum kofa á norðurpólnum.