Við vorum búin að búa saman í nokkra mánuði og jólin, okkar fyrstu jól saman voru farin að nálgast. Þegar fyrsti snjór vetrarins féll niður úr hvítum skýjum og lagði mjúka sæng yfir sjúskaða jörðina fylltist ég þessum nett-geðveika jólafílingi sem keyrir mann fram úr sjálfum sér á hverju ári. Ég tók til við að baka og þrífa og allt annað sem verður að gera svo jólin geti verið viss um að þau hafi ekki farið húsavillt.
Kvöld eitt sátum við dóttir mín og teiknuðum jólakort þegar kærastinn kom heim, hann var að koma af sjónum og þar sem það var föstudagskvöld átti hann sennilega von á að við værum á leiðinni út á lífið. Hann horfði í forundran í kringum sig, á kertaljósin og andaði að sér ilmi af greni og smákökum. Ég leit upp til hans og bjóst við að sjá andlitið ljóma eins og alltaf þegar hann kom heim.
Hann fussaði og hvæsti til okkar að það væri hans skoðun að smákrakkar ættu að vera í bælinu klukkan ellefu á kvöldin. Ljósið í augum dóttur minnar dó og ég tók hana og fór með hana í rúmið sitt.
Þegar ég hafði komið henni niður, klæddi ég mig í gömlu sexý silkináttfötin mín og setti á mig ilmvatn. Þegar að ég læddist inn í stofu og ætlaði að bjóða hann velkomin heim, var enginn þar. Mér var brugðið og ég gekk frá eftir kortagerðina og beið svo eftir að hann kæmi heim.
Ég sat og reykti og fékk mér bjór og beið. Hann kom ekki heim þessa nótt.
Daginn eftir fór ég með dóttur mína á snjóþotu og við söfnuðum könglum og greni í skóginum. Þegar við komum heim hlæjandi og ískaldar sat hann inni í eldhúsi og drakk svart kaffi. Hann angaði eins og gamall bjór og svipurinn á honum lýsti fyrirlitningu. Hann benti á jólagardínurnar og hreytti í mig að eitthvað hefði þetta nú kostað. Ég bisaði við að koma stelpunni úr gallanum og fór með hana inní stofu og setti spólu í tækið.
Þegar ég kom inní eldhús reyndi ég að láta sem ekkert væri og spurði hvort hann langaði að smakka smákökur. Hann sagði að allar smákökur væru ógeðslegar og tímasóun að búa þær til.
Ég sagði honum að láta ekki eins og fífl, mamma hefði gefið mér gardínurnar og við hefðum borðað stafasúpu og grjónagraut til skiptis til þess að spara fyrir jólunum, hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að ég setti hann á hausinn.
Hann brjálaðist gersamlega og sagði að það væri skemmtilegt eða hitt þó heldur að koma heim þegar ég gæti ekki hugsað eða gert neitt sem ekki tengdist þessum fáránlegu jólum. Svo rauk hann út.
Ég sat og starði fram fyrir mig og reyndi að tengja þetta við elskulega manninn sem ég bjó með en fann enga samsvörun. Ég hringdi í vinkonu mína og hellti yfir hana bræði minni og sorg, hún þagði um stund og sagðist svo skilja þetta vel. Hann hefði aldrei upplifað jól eins og við. Mamma hans og pabbi hefðu alltaf verið full og slegist á jólunum þegar hann var lítill og stundum gleymdist að kaupa jólagjafir handa þeim systkinum.
Ég lagði símann niður og velti því fyrir mér hvernig ég gæti haldið honum jól eins og staðan var. Um kvöldið kom hann heim og ég settist niður hjá honum og sagðist vilja ræða aðeins við hann. Ég sagði honum að ég gerði mér grein fyrir að hann vildi ekkert vita af jólunum en hann yrði að haga sér eins og maður þar sem það væri barn á heimilinu sem ég ætlaði að gefa yndisleg jól eins og mamma mín hefði gefið mér. Ef hann gæti ekki þóst hafa gaman að þessu gæti hann allavega látið það vera að eyðileggja allt með geðvonsku og illindum. Hann horfði á mig og dæsti.
Tíminn fram að jólum var dularfullur og skrítinn og ég lék hlutverk mitt af stakri prýði sem huggandi kærasta og fullkomin móðir. Hann tók ekki þátt í neinu en fylgdist með og stundum sá ég örla á brosi eins og þegar dóttir mín át allt spesíudegið úr ísskápnum og þegar hún setti alla skó fjölskyldunnar í stofugluggann. Á aðfangadag varð ég að beita öllum fortöluhæfileikum mínum til þess að fá hann til þess að fara í jakkaföt og þegar klukkan sló sex var allt tilbúið og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir bauð landsmönnum öllum blessunar. Ég bað hann að lesa á pakkana og sagði að það væri alltaf verk húsbóndans. Hann var upp með sér og jólin liðu í þessari hæglátu sælu sem þau gera alltaf.
Í miðjum október ári seinna þegar við vorum leið heim af barnum, blindfull og vitlaus og ofsalega ástfangin tóku hvít skýin á himninum að breiða sængina sína yfir sjúskaða jörðina og þar sem við stóðum og horfðum upp til ljósastauranna, hallaði hann sér að mér og hvíslaði í eyrað á mér:
“Gerðu það ástin mín, hafðu allt eins og í fyrra á jólunum”
Og síðan þá hefur hann verið mesta jólabarn allra tíma og ef við værum ekki löngu skilin og ég hataði hann ekki út af lífinu, ættum við ábyggilega ætíð bestu jólin.
Í meinum var hún fegurst allra systra minna. Rebekka 2002.