Eyðimörk. Ekkert dafnar hér. Nema myrkrið. Eyðimörk. Svartur sandur og gráir steinar. Allt um kring há svört fjöll og fyrir ofan blár himinn. Einstaka fjöll skreytt hvítri jökulkrónu, sem virðist snerta bláan skjáinn og renna saman við hann. Eyðimörk.
Allir steinarnir eru þríhyrndir. Mótaðir af hvössum vindi sem hrífur með sér svartan, þurran sandinn. En í dag er logn. Og allt er hljótt. Alger þögn, sem ekkert virðist geta rofið.
Einhvers staðar langt í burtu hlykkjast rykmökkur letilega upp í heiðan himininn.
Inn á milli steinsteyptra og gráleitra húsa liðast bílar. Allir að flýta sér en mjakast aðeins fetið. Eins og dráttarklárar upp brekku. En bílstjórarnir sitja sem fastast, rauðir í framan, bölsótast út í bílinn fyrir framan.
Á litlu torgi stendur einmana grænleit stytta af manni í sjóliðabúning. Dúfur hafa notað hana sem almenningsklósett.
Rykið stígur upp og merkir leiðina sem blá og hvít rúta hossast stútfull af myndaglöðum ferðamönnum. Frammi við hurð situr ung kona, í stuttermabol og khaki-stuttbuxum. Brún enda sólin verið óvenjugjafmild þetta sumar. Heiðríkjan verið reglan, í stað undantekningarinnar eins og síðastliðin sumur.
Ferðamennirnir eru flestir í eldri kantinum. Kappklæddir Ameríkanar sem kunna lítt að meta tólf stiga hita og logn. Kvarta undan kulda en unga konan bendir þeim á að þeir séu að ferðalagi milli tveggja jökla, hátt uppi yfir sjávarmáli og þar af leiðir, ættu þeir að prísa sig sæla yfir öllum tólf stigunum. Þeir skilja ekki þennan rökstuðning.
Inni í rútunni er samt heitt. Sólin hitar upp loftið þar inni og ekki er hættandi á að opna glugga, því að þá fyllist rútan af ryki af veginum og það vill enginn.
Styttan horfir á mig og ég horfi tilbaka á hana. Ég er að velta því fyrir mér hvort að fyrirmynd þessarar styttu hafi vitað það, þegar verið var að gera styttuna, að hún myndi seinna meir standa á þessu torgi og verða öll útskitin. Dúfur hafa nefnilega lag á að merkja sér hluti. Eins og hundar.
Ég hristi þessar hugsanir af mér og held áfram. Hinum megin við torgið er kaffihús og fataverslun. Ferð minni er ekki heitið þangað heldur aðeins lengra. Handan við húsaröðina sem verslunin stendur í er gata sem liggur að kirkjugarðinum.
Þangað er ég að fara.
Unga konan stígur út úr rútunni þegar hún hefur numið staðar. Hún stendur síðan brosandi við hana og bendir ferðamönnunum á jöklana. Hún segir þeim að bíða efst á kampi, sem rútunni er lagt við, eftir henni.
Þegar allir eru komnir út gengur hún af stað í humátt á eftir hópnum. Flestir standa og taka myndir allt hvað af tekur, furðu slegnir yfir því að svona norðarlega á hnettinum skuli finnast eyðimerkur. Ekki gular og heitar, heldur svartar og kuldalegar.
Ryðgað járnhlið, sem einhvern tímann hefur verið svart, er lokað. Læst aftur með nýlegum gulum hengilás. Ég gríp í efstu járnstangirnar og toga mig upp. Klifra yfir hliðið.
Mér líður eins og að ég sé að svindla mér inn í garðinn. Kannski eiga lifandi ekkert erindi hingað, en hvað veit ég svo sem um það. Mörk lífs og dauða eru jú umdeilanleg. Einu sinni sagði frægur rithöfundur að allt frá því að við fæddumst höfum við verið að deyja. Því væri fæðingin hámark lífsins en allt eftir það niður í móti. Þetta sagði hann ekki bara, heldur skrifaði líka í bók.
Fyrir innan hliðið er allt hljótt. Undarlega hljótt, eins og að borgarhljóðin nái ekki að grafa sig undir steinvegginn, né fljúga yfir hann. En veggurinn er hvorki víður né hár, rétt aðeins upp að öxlum á mér.
Ég horfi yfir garðinn. Litlar mosavaxnar steinhellur, merktar nafni þess er undir liggur. Við einstaka leiði hefur verið reistar styttur, flestar af saklausum en sorgmæddum börnum.
Unga konan horfir upp, þangað sem jökullinn mætir himninum. Skildi fegurðin virkilega búa þar, hugsar hún. Varla getur verið að þessi undarlegi samruni lands og himins búi yfir dularmagni öflugra en tengls lands og hafs.
Hún segir ferðamönnunum að hafa sig hæga, setjast helst niður á einhvern þríhyrndan stein og hlusta.
Ég rölti rólega um garðinn, ekki stefnulaust, heldur veit ég hvert ég er að fara. Mér liggur bara ekki á. Ég skoða leiðin og legg nöfnin á minnið.
Þegar ég kem að leiðinu hennar undrar mig að sjá hve gróðurinn hefur tekið við sér í sumar. Arfi og sóleyjar hylja nú að mestu litlu steinplötuna. Ég sest niður og hreinsa í burtu gróðurinn. Horfi á nafnið um stund.
Ragna Ásgeirsdóttir. Móðir mín. Mamma.
Ég sit bara þarna og horfi á nafnið.
Ferðamennirnir setjast niður hver af öðrum og smám saman kemst ró á hópinn. Unga konan situr með lokuð augun og hlustar. Ferðamennirnir hlusta.
Ég leggst niður við hlið leiðisins og horfi upp í bláan himinninn. Hvítar maríutásur svífa hægt yfir borginni og halda í átt til fjalla, til jöklanna. Þar sem fegurðin býr, eins og mamma sagði alltaf.
Ég lygni aftir augum og hlusta.
<i>Hlusta á þögnina.</i>
Ungan konan stendur upp eftir um hálftíma og brosir. Amerísku ferðamennirnir eru dolfallnir yfir kyrrðinni. Þessari endalausu hljóðleysu sem aðeins einu sinni var rofin, af fugli einhvers staðar langt í burtu. Þeir taka nokkrar myndir í viðbót, til þess að vera vissir um að eiga nóg af þeim til að sýna barnabörnum og barnabarnabörnum.
Eftir smá stund eru allir komnir upp í rútuna nema unga konan. Hún bíður um stund og horfir í kringum sig. Á sandinn og steinana, fjöllin og jöklana. Hér er friður, hugsar hún.
Ég stend upp og smelli fingurkossi á steinplötuna. Síðan fer ég sömu leið tilbaka og klifra yfir járnhliðið. Á móti mér tekur undarlegur seiður borgarhljóðanna, göldróttur í meira lagi, svo að ég gleymi honum oftast og tek ekki eftir honum. Finnst hann jafnvel róandi.
Ég lít aftur fyrir mig, inn á milli rimlanna í hliðinu og inn í garðinn. Allt er kyrrt.
Um leið og rútan heldur af stað hlykkist rykmökkurinn á ný letilega upp í himininn. Eftir sitja steinarnir og sandurinn í algerri þögn.
Rykið leitar upp, -hærra og hærra og ber við þar sem jökullinn mætir himninum.