Rigningin, sem í morgun féll á húsþök og rann niður strætin eftir stutta ferð eftir þakrennum, er enn sýnileg í svörtum gljáandi götum borgarinnar. Hátt fyrir ofan strætin, rétt fyrir neðan kólgugrá ský hangir már nokkurn veginn hreyfingarlaus. Einstaka vængtak gefur til kynna lífsmark.

Í götunum speglast götuvitar og umferðarljós. Appelsínugul, rauð, gul og græn. Birta svífur upp til skýjanna litar þau. Þessi birta, gulrauð og hvít, umvefur allt, borgina, götunar, skýin og mig.

Ég horfi út á þessa haustmynd. Ég strýk létt með fingurgómunum niður kalda rúðuna, svona rétt eins og ég snerti þessa stöðnuðu mynd af borginni. Síminn hefur enn ekki hringt.

Grábröndóttur köttur læðist inn á milli nakinna trjáa. Gular glyrnurnar undarlega bjartar þarna í skuggunum. Nokkrir snjótittlingar fljúga undan rétt nógu snemma, áður en hvassar klær sökkva djúpt inn á milli viðkvæmra fjaðra þeirra og læsast um þá. Lítil klukka bjargaði þeim.

Ég sný mér undan. Sest við skrifborð. Næ mér í penna og blað. Teikna hringi, tilgangslaust og bara til að láta tímann líða hraðar, en einhverra hluta vegna virðist það hægja á tímanum.

Þegar ég var yngri lék ég mér oft við að þykkjast gleyma tímanum og fyrir vikið fannst mér eins og ég hlyti að vera tímalaus. Ég sveif um, eins og gervihnöttur, í algeru þyngdarleysi tímans, upplifið algera andstæðu þess er lætur tímann líða, ótími. Ég gat legið í grasi og horft á ský líða hjá fyrir ofan mig, en samt fannst mér eins og innan þessa ótíma væri ég ósnertanlegur.

Fyrir utan gluggann hefur mávurinn tyllt sér niður efst á ljósastaur og bíður færis að geta flogið niður á götuna og gætt sér á pylsubrauði. Bílar þjóta fram og aftur með líf borgarinnar í farþegarýminu.

Ég stend upp og færi mig aftur að glugganum. Horfi út. Kannski að ég sé staddur í ótíma núna. Hér inni, en tíminn líður fyrir utan. Enn hefur síminn ekki hringt.

Ég sný mér aftur inn að herbergi. Geng fram í eldhús. Tíkin liggur enn undir rúmi, róleg og sefur vært. Ég blístra til hennar. Hún opnar stóru brúnu augun og horfir á mig um stund, en snýr síðan svörtum kolli sínum inn að vegg og heldur áfram að sofa.

Ég fer að ísskápnum og opna hann. Inni í honum er álíka tómt og í maganum á mér. Gömul léttmjólkurhyrna stendur einmana innan um kokkteilsósu, smjördollu og hart oststykki. Kannski ég ætti að fara út og versla. Síminn gæti hringt á meðan.

Ég loka ísskápnum. Teygi mig eftir glasi og skrúfa frá vatnskrananum. Læt kalda vatnið renna um stund. Læt glasið undir ískalda bununa og teyga vatnið svo að mér verður kalt fyrir ofan augun. Ég gretti mig en læt glasið aftur undir og fylli það á ný. Skrúfa síðan fyrir vatnið.

Tíkin stendur í eldhúsdyrunum þegar ég sný mér við. Horfir á mig, eflaust haldið að ég væri að fara elda. Hún trítlar fram í stofu og stekkur upp í sófa. Hún kemur sér makindalega fyrir og bíður þess að ég komi og kveiki á sjónvarpinu fyrir hana.

Ég elti hana. Sest í hægindastólinn minn og kveiki á sjónvarpinu með fjarstýringunni. Tíkin liggur og glápir á fréttirnar. Svona eins og hún skilji eitthvað er fram fer. Stundum, þegar hún sér annan hund á skjánum, þá sperrir hún eyrun og reisir höfuðið, starir um stund, rétt eins og hún reyni að sjá hvort hún þekki hundinn, sem er svo frægur að hafa birst í sjónvarpinu. Ég held að innst inni dreymi hana um að komast í fréttirnar.

Enn hefur síminn ekki hringt. Ég stend aftur á fætur og geng að símanum. Athuga hvort að hann sé ekki alveg örugglega lagður á almennilega. Síðan gái ég hvort að tengillinn sé ekki í nógu vel í veggnum. Allt í lagi þar.

Ég geng aftur inn í stofu. Tíkin lítur á mig, svona rétt með öðru auganu. Hún kippir sér ekkert upp við þetta. Enda engin furða.
Það er aftur farið að rigna úti. Regnið fellur í stórum, þungum dropum sem skella á þökunum. Pollarnir frá því í morgun hringast og marghringast. Regnið þvær stofugluggann og streymir niður hann. Ég horfi út, svona eins og ég sé að horfa á þessa borgarmynd á kafi í vatni. Kannski hefur sjórinn loksins gengið á land, ímynda ég mér.

Ég horfi á stóru veggklukkuna. Amma gaf mér hana, hún komst yfir hana einhvers staðar í Sviss eða Austurríki. Útskorin og með gylltum tölum og vísum, sýnir hún að klukkan er langt gengin í níu.

Ég sest aftur niður fyrir framan sjónvarpið. Flakka á milli stöðva. Tíkin urrar til mín. Enda á ríkisrásinni. Einhver umræðuþáttur um polítík. Ég lækka alveg niður og horfi á feitt andlit þáttastjórnandans bylgjast og hristast.

Ég sný mér við og lít á klukkuna. Korter í níu. Tíminn virðist ekkert líða, getur verið að ég hafi loks fundið ótímann minn? Þáttastjórnandinn reynir að brosa framan í myndavélina.

Ég stend á fætur og kíki aftur út um gluggann. En bíður borgin róleg eftir nóttinni. Ég geng inn í eldhús og læt kalt vatn renna. Man eftir glasinu mínu inn í stofu og skýst eftir því. Tíkin lítur upp en sér að ég er bara að sækja glasið.

Ég læt vatnið renna í glasið. Sest við eldhúsborðið og næ í spilastokk úr hnífaparaskúfunni. Legg kapal. Síminn hefur enn ekki rofið kyrrðina.

Eftir nokkra stund legg ég spilin frá mér. Þau eru öll komin í eitthvað rugl. Ég stend aftur á fætur og fer fram í stofu. Sest í hægindastólinn. Flakka aftur á milli stöðva, þar til að tíkin urrar aftur á mig. Hún hatar það þegar ég geri þetta, hún vill bara horfa á eina stöð. Lætur mig heyra það.

Ég geng fram að símanum, athuga aftur hvort að hann sé alveg örugglega á. Athuga tengillinn aftur. Tek tólið upp og hlusta á sóninn.

Allt í einu, akkúrat þegar ég stend yfir símanum, hringir hann. Hringingin fyllir upp í þögn íbúðarinnar. Skellur á hlustum mínum og ég hrekk við. En samt bjóst ég við þessu, en hrökk samt við. Ég læt hann hringja tvisvar, svona til að láta líta þannig út eins og ég hafi ekki setið og beðið eftir að hann hringdi.
Tek síðan rautt tólið upp. Varlega, svona rétt til að slíta ekki samtalinu.

-Halló.
-Er Karl heima?
-Nei, það býr enginn Karl hérna.
-Nú, hvað er þetta, þá hlýt ég að hafa hringt í skakkt númer.
-Já.
-Nú, afsakaðu þá.
-Ekkert mál.
-Vertu sæll.
-Já, bless.

Síðan er lagt á hinum megin. Ég horfi um stund á símann fyrir neðan mig á símaborðinu. Rauður, eins og indverska mottan í stofunni. Ég lem síðan tólinu eins fast og ég get í símann. Skakkt númer.

Þegar ég hef lokið mér af, horfi ég á símann í molum á gólfinu. Uppgvota að nú muni síminn ekki hringja oftar í kvöld. Andskotans.