LEIKFÖNG

Ég sit við gluggann, hnipruð saman eins og lítið barn. Þessa stundina er ég lítið barn. Lítið barn sem grætur. Búin að kynnast ástinni og sársaukanum. Lítið barn sem leitar til foreldra sinna að öryggi. En ég get hvergi fundið öryggi, ekki lengur. Þú varst eina öryggið sem ég átti, ég var örugg hjá þér. Núna er ég alein, við erum alein. En þér er alveg sama, þú vilt okkur ekki. Hvað verður um þetta litla barn? Hvert á það að leita til að fá öryggi? Ekki getur lítið barn leitað að öryggi hjá öryggislausri móður. En þér er víst sama um það. Þú fórst. Þú lokaðir hurðinni á okkur eins og að við værum einhverjir hlutir sem þú gætir bara læst inní skáp og þyrftir ekki að hafa áhyggjur af þeim. En það er líka þitt, ekki aðeins mitt. Þetta er þitt verk alveg eins og mitt verk. Þú berð sömu ábyrgð og ég. Þú getur ekki bara gengið í burtu frá ábyrgðinni, skilið mig eftir eina, eins og öll ábyrgðin hvíli á mér einni. Það er ekki rétt og ég veit að þú veist það. Þú vilt bara ekki viðurkenna það. Þú vilt ekki taka á þig þessa ábyrgð. Þú ert ekki einusinni nógu þroskaður til þess. Þú ert bara barn og vilt bara vera barn, fullorðið barn. Fullorðinn maður með barns hug og hjarta. Barn sem leikur sér að öllu, barn sem veit ekki hvað tillfinningar eru. Barn sem leikur sér að leikföngunum sínum og fleygir þeim síðan í burtu þegar það hefur fengið nóg af leiknum. Börn hafa enga ábyrgðartilfinningu. Þetta á vel við þig. En börn þroskast, það vilt þú hinsvegar ekki. Þú vilt bara leika þér. En lífið er enginn leikur. Ef til vill er ég aðeins barn líka. Við erum bæði börn. Ég er barn með barni. Ég er ekki tilbúin til þess að taka þessa ábyrgð á mig, og hvað þá alein. Börn geta ekki séð um börn. En þó er það oft svoleiðis. Ekki aðeins hjá okkur. Eða hjá mér því að nú ert þú farinn. Hvernig verður lítið barn sem elst upp hjá öðru barni? Ég verð að reyna að vera ekki barn, en í raun þá er ég það. Við erum bæði ung. Ung og nánast óreynd. Við eigum svo margt eftir. Ég mun missa af svo mörgu en þú munt upplifa það einungis vegna þess að þú gekkst burt frá ábyrgðinni. Þú vildir hana ekki. Barnið og leikföngin. Ábyrgðarleysi þitt eyðilagði allt fyrir mér. Mínir draumar voru ekki svona, ekki svona draumar strax. Nú upplifi ég þá aldrei. En ég mun aftur á mótið upplifa aðra drauma. Drauma sem áttu ekki að koma strax. Þann draum upplifir þú ekki og ef til vill aldrei. Þú gekkst frá honum, þú vildir hann ekki.
Ég horfi á regnið steypast niður og regndroparnir splundrast hver af öðrum ofaní pollana. Ég mynnist þess að hafa horft á eftir þér, fyrr í kvöld, hlaupa út í regnið, út úr lífi okkar, hverfa út í buskann og skilja okkur eftir eins og barn skilur leikföngin sín eftir. En stundum snúa sum börn sér aftur að leikföngunum en sum skilja þau eftir að eilífu.

mks