Græni liturinn á veggjunum virðist lifna við eins og hafið í flöktandi birtunni frá kertunum. Þrír litlir skuggar leggja sig samsíða hvor öðrum frá dökkrauðum trérömmum. Í þeim öllum eru myndir sem vekja sterkar minningar. Það er orðið þægilega heitt þarna inni. Út um gluggann sjást ógrynnin öll af myrkri sem virðist hylja alla jörðina þetta kvöldið. Ekkert ljós gæti sloppið í gegn.
Hann lítur aftur á vegginn. Gömul kona á svarthvítri mynd horfir sviplaus til baka, í gegnum sextíu ár aftur úr tímanum. Konan er langamma hans, settleg og sjálstæð alíslensk sveitakona undan Eyjafjöllunum með að því er virðist margfalda ævi af svita, puði og langri röð afkomenda. Í kjöltu hennar situr kornabarn. Myrkrið andvarpar fyrir utan.

“Andri viltu mjólk í kaffið þitt” heyrist innan úr eldhúsinu, stutt þögn.
“Andri?” Og hann hrekkur við, lítur snöggt á hendurnar á sér.
“Ha, já, bara smávegis mamma” skvamphljóð og klingur í bollastelli bergmálar fram í stofu.
Nokkur andartök líða áður en kona klædd í dökkgrænan náttslopp gengur mjúklega með tvo bolla í sitthvorri hendinni. Grátt hár bundið í hnút virðist eins og silfur í birtunni sem stafar frá eldhúsinu. Andri lítur aftur á langömmu sína á myndinni og svo á móður sína. Tíminn fer sjálfsagt í endalausa hringi, hringirnir eru bara aldrei á sama stað, eins og skopparakringla á leið um rúmið.
“Ef þú hefðir nú bara gert boð á undan þér þá hefði ég nú getað haft mig betur til elsku gullið mitt.”
“Þetta er allt í lagi mamma, ég vil ekki þú ómakir þig neitt af óþörfu. Fyrirgefðu hvað ég kem svona seint”
“Jæja.” svarar móðir hans. “Gott nú að sjá þig hérna endrum og sinnum, líka seint um kvöld. Þú veist þú getur komið hingað hvenær sem þú vilt gæskur, og bara oftar en sjaldnar.” Andri lítur í eigin barm.
“Ég veit, ég kem allt of sjaldan að kíkja á þig.” Of sjaldan áminnir hann sjálfan sig í huganum, og hirðulaus.
“Svona nú, þú ert hér núna. Þú hefur þá ekki gleymt mér alveg.” svarar móðir hans og brosir kankvís. Andri brosir á móti. Mæður, skilja allt og átta sig á öllu, amk þegar þú ert lítill. Jafnvel þegar maður vex upp og innvígist í fullorðna manna tölu.
Móðir hans leggur bollana varlega á lítið borðið. “Viltu ekki eitthvað með þessu? Tekex?” Spyr hún um leið og hún fer aftur inn í eldhús, Andri sleppir því að afþakka þó hann langi ekki neitt.
Meira glamur úr elhúsinu og Andri lítur í kringum sig. Augun skima stuttlega um og staðnæmast á ljósbrúnum leðurstól sem virðist hafa lifað fleiri ár en langamman. Snjáð leðrið eins og veðraður hnakkur, slitið á sumum stöðum, laus festing undir annari armhvílunni. Faðir hans sat alltaf í þessum stól, lesandi blöðin eða bók. hlustandi á fréttir, eða bara til að fá sér kríu.
Fyrir þrjátíu árum voru húsgögnin í stofunni nákvæmlega þau sömu, aðeins öðruvísi röðuð, líka leðurstóllinn sem lítur mun betur út núna, engir skallablettir, ekkert slitið. Kóngablár veggur sem seinna fengi þennan mjúka græna lit, umkringir stofuna ásamt hvítu munstri um veggina miðja.


Andri litur í átt að eldhúsinu og heyrir hlátrasköll móður sinnar, og í fleira fólki. Þykkur lykt af hamborgarahrygg, brúnuðum kartöflum og piparsósu fylla vit Andra svo hann fær vatn í munninn.
Jólaölið er örugglega líka tilbúið hugsar hann og sér glitta í móður sína standandi fyrir framan eldavélina með stóran bakka. Gráu hárin sjást ekki lengur heldur þetta rauðbrúna fallega síða hár sem rennur niður með andliti hennar eins og foss. Hún er í bláa sparikjólnum sem pabbi keypti handa henni í þýskalandstúrnum, og með gula svuntu um sig. Lítið bros læðist undan vörum hennar og hún segir eitthvað við einhvern rétt hjá. Andri brosir breitt og lítur í kringum sig.
Það eru að koma jól og matarboð í gangi. Heimatilbúnir músastigar í bland við glitrandi skraut sem pabbi keypti í túrnum til þýskalands, liggja meðfram veggjunum og í gluggum. Mannhæðarhátt jólatré, líka frá þýskalandi, stendur alskreytt út í horni með ótal pakka undir sér eins og fugl með eggin sín, vonandi fæ ég margar pakka hugsar Andri með sér og fyllist tilhlökkun.
Stofuborðið sem hefur verið dregið út og dúklagt, er þakið diskum, fínum vínglösum og skínandi hnífapörum. Tvö stór og hvít kerti standa hlið við hlið á borðinu miðju. Andri tekur upp skeið og horfir á bjagaða spegilmynd af tíu ára dreng með stutt rautt hár, nokkrar einmana freknur, nýklipptur sko, hugsar hann og brosir framan í sjálfan sig áður en hann potar í spegilmyndina með vísifingri.
Ung kona klædd brúnum síðum kjól kemur askvaðandi úr eldhúsinu með tvær sósukönnur og leggur þær varlega á borðið, Anna frænka, hún kemur auga á Andra sem leggur skeiðina skömmustulega frá sér.
“Hæ Andri, hérna viltu ekki kíkja upp og athuga með pabba þinn hvort hann sé ekki búinn að hafa sig til?” Segir hún og fer aftur inn í eldhús.
Andri lítur í átt að stiganum. Pabbi er örugglega ennþá að lesa jólaútgáfuna af mogganum eða eitthvað. Hugsar Andri með sér. Hann missir auðvitað af svo mörgu þegar hann er á sjónum, hann er eiginlega alltaf út á sjó, mætti alveg vera oftar heima. Hann verður sem betur fer heima núna öll jólin, sannfærir Andri sjálfan sig.

“Andri minn?” Hann hrekkur við og sér móðir hans standa við autt stofuborðið, horfandi á hann spurnaraugum um leið og hún rennir fingrunum um grátt hárið.
“Er ekki allt í lagi með þig elskan?” Spyr hún með óttatón í röddinni.
Andri lítur snöggt aftur á stólinn sem hefur bætt á sig árum enn á ný.

“Ha ég? Jújú, bara annar hugar, þreyttur bara. Ég hef voða lítið sofið undanfarið.” stamar hann út úr sér. Svipur móður hans breytist og umhyggjusama móðirin sem skammaði hann þegar hann var lítill birtist.
“Andri minn þú verður að fá nægan svefn og hugsa betur um þig, ég hef alltaf sagt þér það og þú veist það nú vel sjálfur.” Andri kinkar kolli, sekur. Hann ætti að taka sér taka og hugsa betur um þennan auma líkama.
“Ég veit, ég fer að breyta þessu, það er mikið að gera núna í vinnunni en það verður rólegra bráðum”. Lygari.
Móðir hans fær sér sæti og leggur litla hvíta skál með tekexi í á mitt borðið. “Svona fáðu þér kex vinur”. Andri tekur eina kexköku og brýtur í tvennt.

“Hvað er svo að frétta af þér”. Spyr hún og fær sér sopa af rjúkandi kaffinu. Andri hikar nógu lengi til að fá sér sopa sjálfur. Hvað ætti hann að segja? Það hafði ekkert gerst í hans lífi undanfarið, líf hans hafði verið eins fast á stopptakkanum í heila eilífð. Ekkert virtist geta komið hreyfingu á það eða fært einhvern lit í tilveruna, nema… Og hann finnur eitruð svört ský hrannast upp í dimmu skoti hugans.

“Tja, lítið bara, maður vinnur og sofar”. Svarar Andri loksins
—–