BEÐIÐ EFTIR ÞÉR

Ég leit út um gluggann á litla húsinu og horfði yfir hafið. Bátarnir voru að koma inn með afla dagsins. Ég lít eftir bátnum þínum en hann er ekki ennþá kominn. Ég fer inn í eldhús til þess að hafa matinn tilbúinn á borðinu fyrir þig þegar þú kemur heim.
Allt er tilbúið og ég bíð eftir þér. Allir bátarnir hafa lagst að bryggju, nema báturinn þinn. Ég horfi út á hafið til þess að reyna að sjá þegar þú kemur siglandi inn en ég finn ekki bátinn þinn.
Ég sest niður og held áfram útsaumnum sem ég sauma sérstaklega handa þér, þó að þú vitir það ekki ennþá. En tíminn líður og ekkert glittir í bát þinn úti á dimmu hafinu. Hvenær kemurðu? Maturinn þinn er orðinn kaldur og kertið fer að brenna út.
Ég lít aftur út á hafið en held síðan áfram saumnum. Ég heyri í vindinum hvína fyrir utan og regndroparnir dynja á rúðunni. Það er orðið seint að kveldi þegar bankað er uppá.
Ertu nú loksins komin! Ég opna, en það ert ekki þú fyrir utan, það er sjómaður, en ekki þú. Hversvegna er það ekki þú? Hvar ertu? Ég stari á sjómanninn sem er veðurbarður í blautum galla. Það er dimmt úti. Ég heyri ekki það sem hann segir, en ég veit samt hvað hann er að segja.
Ég sest við eldhúsborðið, þar sem kaldur kvöldmaturinn þinn er. Kertið brennur út og ég sit ein eftir í myrkrinu.

mks