Hún bjó ein í risíbúð og hafði engan til þess að ræða við, annan en köttinn sinn Pandóru. Það gerðist svo dag einn að örlaganornirnar fóru í pásu og einhver púki komst í vefinn þeirra… Kannski var þetta bara heppni, hún vissi það ekki en hún var trúuð á Örlögin.
Maður nokkur kom að máli við hana í versluninni þar sem hún vann og fór að spyrja hana um hagi hennar og annað í þeim dúr. Hún kannaðist við hann, hann kom þarna nokkrum sinnum í mánuði og verslaði ætíð fyrir einn í matinn. Þetta var maður um fimmtugt og góðlegur eins og sálfræðingarnir í sjónvarpinu. Hann bauð henni vinnu. Hún sagðist skyldi hugsa málið en innst inni hafði hún tekið ákvörðun.
“Ritari lögfræðings”, sagði hún við Pandóru og gaf henni hálfa dós af kattarmat.
“Það gæti ekki verið meira spennandi, ha ?”
Hún gaf honum svar sitt daginn eftir og fékk nafnspjaldið hans. Um kvöldið ákvað hún að fara og skoða staðinn. Hún pantaði bíl og gaf upp rangt húsnúmer svo bílinn stoppaði ekki fyrir utan.
Hún þurfti að ganga smá spöl áður en hún sá húsið. Hún var móð og henni hafði hitnað á göngunni en þegar að hún leit upp eftir heimreiðinni fannst henni sem kalt vatn rinni niður eftir bakinu.
Á hæðinni blasti við henni þriggja hæða hátt hús. Grátt steinhús með vafningsjurtum sem þöktu framhliðina til hálfs. Ekkert ljós logaði í gluggunum þó að klukkan væri aðeins níu. Stórir hundar sváfu á tröppunum, hún sá ekki hvort þeir væru þrír eða fjórir. Lóðin var niðurnýdd og óviðkunnanleg, vindurinn ýlfraði í nöktum trjánum og henni fannst sem hún væri stödd í lélegri hryllingsmynd, hvernig hafði henni dottið í hug að þiggja starfið án þess að kanna eitt né neitt?
Seinna um kvöldið þegar hún lá undir hlýrri sænginni sinni og strauk malandi kettinum annarshugar fannst henni fyndið hversu þetta hús hafði haft mikil áhrif á hana. Auðvitað yrði þetta allt í lagi, hvað var hún eiginlega að ímynda sér?
En það varð bara ekkert Allt í lagi….
Í meinum var hún fegurst allra systra minna. Rebekka 2002.