Var þetta sem sagt ekkert annað en vinsamleg ábending um að viðkomandi mætti vanda mál sitt betur? Eða var þetta kaldhæðið svar sem átti í senn að niðurlægja meib og upphefja þig?
Vísunin til „Trailor trash“-svarsins þíns var einungis til að minna þig á að þú ert ekki skotheldur hvað varðar stafsetningu. Hugsanlega hefði þó verið réttara að benda þér einfaldlega á hvernig ætti að stafsetja orðið „trailer“.
Þar sem skilaboð fyrri pósts míns komust ekki til skila ætla ég að reyna aftur. Ég kíkti á síðuna þína og fann skemmtilegan texta undir „Gagnrýni“ sem ég ákvað að gagnrýna aðeins. (Athugaðu samt að þessum ábendingum mínum er ætlað að vera uppbyggileg gagnrýni. Kannski lærirðu af þessu og skrifar t.d. „út af“ í tveimur orðum héðan í frá.)
„Ég hef fengið aðgöngu í hið virta félag ‘Online Film Critics Society’. Núna munu greinarnar sem ég skrifa koma einnig fram á síðuni rottentomatoes.com“
- Er ekki eðlilegra að tala um inngöngu í þessu tilviki? Hér er síðan, um síðuna, frá síðunni, til síðunnar.
„Núna áðan sast ég uppí rúm og ætlaði mér að skrifa grein um kvikmyndina Ali G in Da House. Ég leit á skjáinn á ferðatölvunni og sá eitthvað, ég hélt það væri fluga en það var ekki fluga. Það var stór og ógeðsleg könguló sem hafði spunnið vef í ljósinu fyrir ofan rúmið mitt. Ég hata köngulær, þær eru einu lifandi verurnar sem ég get drepið án þess að fá samviskubit. Ég greip auðvitað næstu ryksugu og sogaði kvikindið ofaní, ég veit að þær drepast strax í pokunum en ég setti fyrir opið á rananum, bara svona til öryggis.“
- Þátíðin af sögninni „að setjast“ er „settist“. „Ofan í“ skal skrifa í tveimur orðum.
„Útaf þessu er ég í engu stuði til þess að skrifa grein um Ali G, en ég veit að ég mun aldrei nenna að skrifa um þessa mynd ef ég geri það ekki núna svo hér kemur ein stutt gagnrýni um þessa hræðilegu mynd.“
- „Út af“ ber einnig að rita í tveimur orðum.
„Ali G er vinsæl persóna í bretlandi og að mér skilst hérna á íslandi líka. Ég get svo sem skilið af hverju sumir geta hlegið af þáttunum þar sem hann fær þekkta einstaklinga og spyr þá fáránlegra spurninga … Sacha Baron Cohen er án efa gáfaður einstaklingur en ég mundi frekar vilja sá hann gera eitthvað annað en að tala slæma, oft óskiljanlega ensku um ‘bitches’ og ‘hos, svo ekki sé gleymt tveggja orða setninguna ‘keep it real’ og ‘respect’.“
- Bretland og Ísland ber að skrifa með stórum upphafsstaf. Fólk hlær að þáttunum, ekki af þeim. Maður gleymir ekki setningunni. Er „keep it real“ ekki þriggja orða setning?
„Ali G (Sacha Baron Cohen), ‘west side’ hip hop aðdáandi sem gengur í gulum fötum, er fenginn af þingmanninum David Carlton (Charles Dance) að bjóða sig fram á þing … Hann verður fljótt hægri hönd forsætisráðherrans (Michael Gambon) útaf gífurlegum vinsældum sem Ali G fær …“
- Mér sýnist fyrstu setninguna skorta orðið „til“. „Út af“ fetti ég fingurna út í hér að ofan. Hann nýtur vinsælda.
„Sagan er léleg og hefur verið gerð áður, sama má segja um brandaranna … Myndin er um 90 mínútur sem er 60 mínútur of langt. Sjaldan hef ég beðið með jafn mikilli eftirvæntingu að mynd yrði búin …“
- Hér eru brandararnir, um brandarana, frá bröndurunum, til brandaranna. 60 mínútum (þgf.) of langt. Jafn- er áfast forskeyti og ber því að rita „jafnmikilli“ í einu orði.
Þrír punktar gefa til kynna að ég hafi klippt eitthvað burt. Vilji fólk lesa meira vísa ég á
http://www.sbs.is/