Mér finnst að það ætti að gera námið og skólalífið hentugra fyrir nemendur sem eiga við örðugleika að stríða en eru ekki fatlaðir. Sjálf er ég með Asperger's, og jafnvel eftir að ég hafði fengið greiningu var ekki tekið tillit til þess sem ég á erfitt með, þ.e félagslega þáttarins. Hópíþróttir og -verkefni á ég rosalega erfitt með, sérstaklega þar sem ég var lögð í mikið einelti áður en ég skipti um skóla vegna hluta sem ég hafði, og hef, enga stjórn á, hluta sem fylgja því að vera með Asperger's. Jafnvel í skólanum sem ég útskrifaðist úr átti ég mjög erfitt með að taka þátt í þessum tveimur hlutum, sérstaklega ef um var að ræða hópverkefni þar sem mikilla umræða á milli nemenda var þörf.
Ég missti mikið úr í stærðfræði, sem ég var ekki mjög sterk í fyrir, í 8. bekk vegna kvíða og þunglyndis sem var bein afleiðing af eineltinu, og þar með Asperger's, og ég fékk mikla aðstoð við að koma mér á réttan kjöl í því í seinni skólanum, þó það tækist ekki alveg að bæta það upp. En ég fékk litla aðstoð með félagslegu hliðina, og hún var ekki aðlöguð til að henta mínum þörfum, sem einstaklings með Asperger's.
Félagslega hliðin er mér mjög erfið, ég get eiginlega ekkert tekið þátt í íþróttum vegna þess að íþróttakennarinn minn í fyrri skólanum var sá sem byrjaði eineltið, og jafnvel í framhaldsskóla finnst mér ég ekki mæta nógu miklum skilningi þegar kemur að þeim. Ég hef fengið undantekningu, á að ganga einhverja ákveðna leið í tímanum, en ég þarf að sýna fram á að ég hafi gert það með því annað hvort að fara inn í stofnanir og fá undirskrift á miða eða með því að mæta í tímann áður en ég held af stað og eftir að ég er búin. Bæði fyrir og eftir áramót skrópaði ég í 90% tímanna, vegna þess að það fylgir því einfaldlega svo mikill kvíði, stress og vanlíðan að mæta í tímana þó ekki sé nema kannski 5 mínútur eða fara inn í stofnanir, sem er enn verra, að ég get einfaldlega ekki höndlað það.
Þetta finnst mér að verði að laga, það hefur mikið verið gert fyrir fatlaða nemendur og þá sem eru með námsörðugleika, sem er gott og blessað, ekki misskilja mig, en við sem erum á mörkum þess að vera fötluð og 'eðlileg' þurfum svolítinn stuðning og skilning líka.