Fer eftir því hvað þú ert að læra, ef þú ert í framhaldsskólaáfanga dugir þér líklegast að læra hana kerfisbundið, þ.e. með því að athuga fyrst hvaða skilyrði fylkin þurfa að uppfylla til þess að vera margfaldanleg. Fyrir fylkin A og B getur verið að margfeldið AxB sé skilgreint en margfeldið BxA ekki. Skilyrðið er að dálkfjöldi fylkisins vinstra meginn sé jafn línufjölda fylkisins hægra meginn. Svo ef A er mXr fylki (m línur, r dálkar) og B er rXn fylki er fylkið AxB með m línur og n dálka. Hins vegar er margföldunin óskilgreind fyrir BxA ef m er ekki jöfn n. Nú fæst stak C_i_j þar sem i táknar línunúmer í fylkinu AxB=C og j táknar dálknúmer með eftirfarandi hætti: C_i_j= a_i_1*b_1_j + a_i_2*b_2_j + o.s.frv. + a_i_r*b_r_j. Besta leiðinn til þess að ná færni í þessu er að reikna sem flest dæmi.
Ef þú vilt útskýringu á því hvernig þessi skilgreining á margföldum fylkja er þægilegast að hafa góðan grunn í línulegri algebru og átta sig á því að fylki eru línulegar varpanir og að samantekt línulegra varpana samsvarar margfeldi tveggja fylkja. Þá verður til dæmis ljóst hvers vegna dálkfjöldi A þarf að vera jafn línufjölda B. Ef við látum til dæmis f vera línulega vörpun úr V yfir í W og g vera línulega vörpun úr W yfir í Z, hvaða skilyrði þurfa varpanirnar f og g að uppfylla svo við getum myndað samantekt þeirra?