Ég er búin að vera styttra en þú í frönsku en ég verð bara að segja að mér finnst þetta asnalega útskýrt fyrir ykkur ef þetta er aðeins útskýrt með “ég hef gert e-ð” og “ég var að gera e-ð”.
Við fengum ítarlegan lista, þar kemur t.d. fram að imparfait á alltaf við um veðrið, lýsingar á tilfinningum og líkamsástandi (t.d. ef þú varst veik eða þér var illt í höfðinu) og einkum notað um atburð þar sem ekki er vitað um upphaf eða endi. Eins og þú veist líklega sjálf þá er imparfait einnig ALLTAF þegar setja má “var að gera e-ð” í staðinn. Þá er er alltaf talað um Passé Composé sem einn atburð en Imparfait endurtekinn atburð og í P.C. er vitað um upphaf og endi.
Því voru okkur gefin nokkur orð sem hjálparorð með Imparfait: Á hverjum degi, á hverjum morgni, á sunnudögum.
Og einnig f. Passé Composé: Í gær, á mánudagsmorguninn, í gærkvöldi o.s.frv.
Hvað varðar skóladæmið þá er það vissulega rétt að þú ferð aftur og aftur í skólann, þú veist það með sjálfri þér en það er samt ekki innifalið í setningunni. Ef það væri “Chaque jour, j'allais à l'école” þá væri rétt að nota imparfait því það felst í setningunni að þú ferð þangað á hverjum degi. Af því þetta er þessi eini atburður hins vegar, þú ert bara að spá í þessu eina skipti sem þú ert að fara en ekki að tala um öll skiptin sem þú ferð í skólann, einfaldlega “ég fór í skólann(í gær, í fyrradag, á mánudaginn)”, þá er það P.C.
Þú verður að hugsa imparfait sem meira svona “flæðandi” tíð.
T.d. ef það væri texti sem segði eftirfarandi:
Sólin skein og fuglarnir sungu. Við sátum í kennslustofunni og vorum að læra stærðfræði. Þá kom skólastjórinn inn.
Þetta er allt í imparfait, nema síðasta klausan. Það er verið að lýsa aðstæðum í fyrstu setningunum, hvort sem það felur í sér ástand sólarinnar eða beinar gjörðir nemenda (það að læra stærðfræði) en “þá kom skólastjórinn inn” er hreinn og klár atburður, einn og sér og hann skeður allt í einu.
Dæmigert upphaf á kafla í bók eða sögu gæti verið:
“Klukkan var 8. Það rigndi úti og ég var að hjóla heim. Mér var illt í höndum og fótum eftir langa sundæfingu og ég var að flýta mér. Þá keyrði bíll í veg fyrir mig.”
Þú sérð að þetta er eins dæmi. Það er verið að lýsa aðstæðum, líkamsástandi, veðri o.s.frv. Ef þetta væri þýtt yfir á frönsku yrði þetta allt imparfait NEMA síðasta setningin, bíllinn keyrir þarna óvænt og ætli það megi ekki segja að þú vitir um upphafið að þessu öllu saman þarna, þú ert búin að lýsa öllu sem er að gerast á undan. Þegar þú þekkir ekki upphaf eða enda, eða aðstæður fyrirfram almennt, eins og einkennir imparfait, þá er “var að” hvort eð er oft innifalið í málsgreinunum. T.d. “Ég kom inn í herbergið og þar sat kona mín, hún var að prjóna”. Þetta er dæmigert fyrir imparfait en ég þori ekki alveg að fara með fyrstu klausuna þó ég sé nokkuð viss um að hún væri inni í P.C. Enda mætti segja að þú vissir lokin á þessu, þú komst inn og hvað gerðist? Þú sást konu þína sitja og prjóna.
Ég ítreka að ég hef ekki verið að læra frönsku lengi, eða í hartnær tvo skólavetur, og ég tek því ekki ábyrgð á því ef ég hef slysast til að segja eitthvað vitlaust. Ég hef faktískt aðeins farið í einn tíma þar sem Imparfait var tekið fyrir en þar sem enginn hafði svarað þér langaði mig að láta á það reyna. Tel mig hins vegar vera að lýsa þessu nokkuð rétt og þér er frjálst að reyna að spyrja mig ef það er eitthvað annað sérstakt. :)