Ég tók eftirfarandi námslýsingar úr Námsvísi FG (
tengill á Námsvísinn):
Námsvísir FG
FJÖ 103 Inngangur að fjölmiðlun Undanfari: FÉL 103
Áfanginn er inngangur og kynning á fjölmiðlafræði. Fjallað verður um þrjú form nútímafjölmiðlunar: blöð og tímarit, ljósvakamiðla og fjölmiðlun innan netheima. Kannað verður hvað einkennir boðskipti innan þeirra og þau borin saman, bæði í sögulegu og fræðilegu samhengi. Gerður verður samanburður á fjöldaboðskiptum og persónulegum boðskiptum, gagnvirkum og ógagnvirkum. Fjallað verður um fréttaflutning í nútímasamfélagi og hvernig fjölmiðlar og fréttastofur meðhöndla fréttir. Reifaðar eru kenningar um áhrifamátt fjölmiðla og þátt þeirra í félagsmótun einstaklinga. Fjallað verður um lög og reglugerðir um fjölmiðla. Markmið Nemandi skilji hvað mótar fjölmiðla samfélagsins og þekki þau öfl sem hafa áhrif á slíka mótun geri sér grein fyrir hvaða áhrif Netið hefur á aðgengi einstaklinga að fjöldaboðskiptum og fjölmiðlun þekki aðalatriði í sögu fjölmiðlunar á Íslandi viti hvernig fréttir berast til fjölmiðla og hvernig unnið er úr þeim upplýsingum geri sér grein fyrir áhrifamætti fjölmiðla á viðhorf og hegðun einstaklinga þekki helstu kenningar um áhrif myndmiðla á mótun barna og unglinga kunni að nýta sér fjölmiðla sem tæki til þekkingaröflunar.
FJÖ 203 Myndveruleikinn
Undanfari: FJÖ 103
Áfanginn fjallar um þróun hins myndvædda heims allt frá fyrstu hellaristum til sýndarveruleika í netheimi nútímans.Farið verður í kenningar sem leitast við að skýra áhrif myndheimsins á fólk og hvernig hann hefur mótað skoðanir manna og álit í gegnum tíðina. Fjallað verður um sameiginleg einkenni og sérkenni kyrrmynda, kvikmynda og sýndarveruleikans og tengsl þessara miðla við viðfangið. Stiklað verður á stóru í sögu myndgerðanna og reynt að meta félagsleg, menningarleg og sálfræðileg áhrif þeirra. Markmið Nemandi þekki aðalatriðin í sögulegri þróun myndarinnar frá hellaristum til nútímans þekki til upphafs ljósmyndunar og geti fjallað um hver áhrif þessi nýja tækni hafði í fjölmiðla- og listaheiminum sýni færni í að túlka ýmiskonar gröf, súlurit og táknmyndir sem notaðar eru í fjölmiðlum og á Netinu hafi tileinkað sér faglega tækni og þekkingu við að greina kvikmyndir bæði efnislega og tæknilega skilji áhrif markaðsafla við kynningu og útbreiðslu kvikmynda geti sett þróun kvikmyndagerðar á Íslandi í samhengi við þróunina erlendis fái innsýn í helstu samskiptasvæði netheima og geti greint frá mismunandi hlutverki þeirra og eðli.
FJÖ 213 Fjölmiðlaheimurinn
Undanfari: FJÖ 103
Í áfanganum er fjallað um fjölmiðla frá tilkomu fyrstu tímarita og dagblaða og fram til okkar daga. Fjallað er um félagsleg og stjórnmálaleg áhrif fjölmiðla og hvernig þau hafa breyst í gegnum tíðina. Kannað er forræði yfir fjölmiðlum, staða þeirra sem „fjórða valdsins“ og hvaða ytri og innri þættir hafa áhrif á fréttamat þeirra og umfjöllunarefni. Fjallað er um hvern fjölmiðlaflokk fyrir sig, blöð og tímarit, ljósvakamiðla og netmiðla. Gerður er samanburður á eðli þessara miðla. Áhersla verður lögð á skapandi skrif og að unnið sé eftir viðurkenndum aðferðum við fréttaskrif, greinaskrif, viðtalstækni og klippingar á fréttamyndum. Markmið Nemandi kunni skil á helstu aðferðum við frétta- og greinaskrif kunni skil á ýmsum aðferðum viðtalstækni kunni skil á ritstjórnarstefnu ólíkra prentmiðla, svo sem dagblaðs og mánaðarrits kunni skil á helstu atriðum varðandi hönnun dagblaða og tímarita og hvernig tölvur eru nýttar í því sambandi þekki sögu og hlutverk ljósvakamiðla á Íslandi kunni að gagnrýna og leggja mat á dagskrárefni íslenskra og erlendra útvarps- og sjónvarpsstöðva meti á hvern hátt margmiðlun netfjölmiðla getur sameinað hefðbundna fjölmiðla undir einum hatti skoði stöðu „fjórða valdsins“ með tilliti til tölvunetvæðingarheimsins.
FJÖ 303 Fjölmiðlun og netsamskipti, verkefnaáfangi Undanfari: FJÖ 203/213
Hér er um lokaáfanga að ræða og gerð er krafa um staðgóða undirstöðukunnáttu. Nemendur dýpka þekkingu sína í fræðilegri umfjöllun um hlutverk og gildi fjölmiðla í þjóðfélaginu með lestri, viðtölum og vettvangsferðum. Verkefnavinna ýmist einstaklings eða hópvinna er veigamesti þátturinn í áfanganum og segja má að kunnáttan komi fram í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu hvers verkefnis fyrir sig. Æskilegt er að nemendur sérhæfi sig í þessum verkefnum og velji eitt eftirtalinna: dagblöð/tímarit, ljósvakamiðil, kvikmyndir, myndmiðla, netheima eða rannsóknarvinnu. Hér reynir á beitingu sjálfstæðra vinnubragða. Markmið Nemandi þekki fræðilega undirstöðu fjölmiðlafræðinnar hafi náð tökum á faglegum vinnubrögðum sé fær um að afla sér heimilda eftir fjölbreytilegum leiðum, svo sem með viðtölum, vettvangsferðum og notkun Netsins og ýmissa gagnagrunna geti sýnt fram á sjálfstæði í vinnubrögðum við undirbúning, framkvæmd og úrvinnslu verkefna geti gert einfalda fjölmiðlarannsókn og unnið úr helstu niðurstöðum hennar sé undir það búinn að hefja nám á háskólastigi í greininni.
Fjölmiðlafræði er kjörsvið á félagsfræðibraut og er mælt með því að ljúka því af þeirri braut, þó svo einnig sé hægt að ljúka fjölmiðlafræði sem kjörsviði utan brautar á öðrum brautum. Ljúka þarf amk 9 einingum í sömu grein til að þess að hún teljist í kjörsviði (kjarnaeiningarnar í greininni teljast líka inn í fjölda lágmarkseininga til kjörsviðs).
Á félagsfræðibraut í FG er val um að hafa FJÖ 103 sem hluta af kjarna, og geturðu þá valið hvort þú vilt hafa 3 einingar í fjölmiðlafræði í kjarna og amk 6 einingar sem kjörsviðsgreinar (3+6=9), eða hvort þú vilt hafa þetta sem hreina kjörsviðsgrein, þ.e. minnst 9 einingar til kjörsviðs.
(
Tengill á félagsfræðibraut FG)
Fyrst og fremst mæli ég með því að þú talir við námsráðgjafa í FG varðandi plönin þín.