Jæja.
Leiðrétting mín fólst ekki í því hverjar forsendur aðildaskólana fyrir höfnun á dómblaðsbreytingum væru, heldur í því að mun fleiri en ég styðja, hafa stutt og studdu þessar breytingar á fundinum.
Að ýja að því að ég sé einn á báti í aðgerðum mínum fyrir hönd Morfís, einhvers konar sérvitur kjáni, er rógburður sem ég líð ekki.
Hvað breytingatillögurnar sjálfar varðar er það verðug og svolítið flókin umræða sem ég hafði ekki hugsað mér að taka upp hér. En fyrst þú hefur greinilega áhuga á efninu:
Rökin fyrir breytingum blasa eins og áður sagði ekki við og er það ekki áfellisdómur á þig eða þína Morfísþekkingu að óttast þær. Einnig er rétt að mótrök og eðlilegur ótti er til staðar og dettur mér ekki í hug að gera lítið úr því, eins og þú gefur í skyn.
Ég get hins vegar leiðrétt þann þráláta misskilning að breytingarnar séu gerðar með þeim hug að draga úr skemmtanagildi eða fæla áhorfendur frá keppnum. Rétt er að bestu liðin blanda saman innihaldi og skemmtun og er það fegurðin við Morfís.
Breytingartillögurnar eru einmitt til þess fallnar að koma skoðunum dómara á nákvæmlega þessu skýrar á framfæri og hafa úrslitin þannig meira í samræmi við þessi gildi áhorfenda; að sigurliðið hafi bestu blöndu rökræðu og skemmtunar í sínum fórum.
Í gamla daga voru rökfesta, uppbygging ræðu og rétt íslenskt mál þeir þættir sem dómblaðið taldi mikilvægasta. Því var síðan breytt og mat dómblaðið þá ræðu og málflutning mikilvægustu þættina. Í dag tel ég að þeir þættir sem þú talar um séu einmitt mikilvægastir og mest metnir í Morfís en það eru einmitt ræða, rök og mælska.
Skemmtanagildið varð áberandi nokkru eftir upphaflegu breytingarnar og tel ég að laga þurfi dómblaðið að því, þar sem keppnin er í stöðugri þróun. Hins vegar er ég auðvitað líka á þeirri skoðun að það sé slæmt að lið geti komist upp með nær gersamlega innihaldslausan málflutning vegna tæknilegra vankanta á dómblaðinu. Það þarf að hafa jafnvægi milli þessara þátta á dómblaðinu.
Ég tel að eltingaleikur Morfís við tveggja dómara reglur, þrotlausar dómaraerjur og kærur eigi mun meira skylt við þetta misræmi sem er milli dómblaðsins annars vegar og dómara og almennings hins vegar en flestir gera sér grein fyrir.
Enda er þetta misvægi ekki sérstaklega áberandi á dómblaðinu og oftar hafa bestu liðin sigur þrátt fyrir það, núverandi dómblað er nefnilega ekki alslæmt. Breytingatillögurnar miðuðust hins vegar að því að gera það enn betra, einfaldara og nútímalegra.
Það hefði einfaldað útreikninga og tilfinningu dómara fyrir dómgæslu með því að jafna stuðla, aukið vægi umræðunnar í stigagjöf en þó haldið skemmtanagildi til haga og jafnað vægi frummælanda í úrslitum keppna.
Liðurinn afstaða er líklega ekki fullkominn en hann er töluvert skárri en meðalstig framsöguræðu, sem eru klunnalega útfærð og breyta því ekki að frummælandinn hefur minni áhrif á stigafjölda síns liðs en aðrir ræðumenn, að stigagjöf lengstu ræðu keppninnar byggir í raun aðeins á tveimur tölum og að hún hefur auk þess minna vægi en aðrar ræður í úrslitum.
Mér þykir leiðinlegt þegar menn standa í vegi fyrir framförum og umbótum vegna þess að tillögurnar eru ekki nákvæmlega fullkomnar, frekar mundi ég vilja móttillögur en aðgerðarlausa íhaldssemi.
Þú þarft síðan ekkert að óttast kústinn minn, en ef þú vilt ræða dómblaðið við mig þætti mér vænt um að vera laus við ágiskunarleiki og að þú segðir mér einfaldlega við hvern ég er að ræða.
Viktor.