Lýðveldið Indland er annað fjölmennasta land jarðarinnar og það sjöunda stærsta að flatarmáli. Þar býr rétt yfir einn milljarður manns. Á síðustu 20 árum hefur Indland vaxið mikið bæði hvað varðar fólksfjölda og áhrif á svæðinu. Í dag er indverska hagkerfið það fjórða stærsta í heiminum, ef verg þjóðarframleiðsla er mæld út frá kaupmáttarjafnvægi, hagvöxtur þar var sá annar hæsti í heiminum árið 2003. Indland er langfjölmennasta lýðræðisríki heimsins og vaxandi hernaðarveldi, það hefur yfir að ráða kjarnorkuvopnum og einum stærsta herafla heimsins.
Landið er í Suður-Asíu með 7000 km langa strandlengju við Indlandshaf. Indland á landamæri að Pakistan, Kína, Míanmar (áður Búrma), Bangladess, Nepal, Bútan og Afganistan. Srí Lanka, Maldíveyjar og Indónesía eru nærliggjandi eyríki í Indlandshafi. Indland hefur verið heimili margra elstu siðmenninga veraldar og hefur fætt af sér fern af stærstu trúarbrögðum nútímans: hindúisma, búddhisma, jainisma og sikhisma. Landið var hluti af Breska heimsveldinu fram til 1947, þegar það hlaut sjálfstæði.
http://is.wikipedia.org/wiki/Indland