Eða kannski brennandi áhuga á persónugerfingum, myndhverfingu, viðlíkingu hliðstæðum og andstæðum, þá er þér velkomið að spreyta þig á þessum!!
41. sálmur: Það fjórða orð Kristí á krossinum
1
Um land gjörvallt varð yfrið myrkt
allt nær frá sjöttu stundu,
sólin því ljóma sinn fékk byrgt
senn til hinnar níundu.
Guð minn, Jesús svo hrópar hátt,
hvar fyrir gleymdir þú mér brátt? -
Svoddan, mín sál, vel mundu.
2
Enginn skal hugsa að herrann þá
hafi með efa og bræði
hrópað þanninn né horfið frá
heilagri þolinmæði.
Syndanna kraft og kvalanna stærð
kynnir hann oss, svo verði hrærð
hjörtun frá hrekkjaæði.
3
Sólin blygðast að skína skær,
þá skapara sinn sá líða.
Hún hafði ei skuld, það vitum vær,
þess voðameinsins stríða;
ó, hvað skyldi þá skammast sín
skepnan sem drottni jók þá pín,
með hryggð og hjartans kvíða.
4
Aví, hvað má ég, aumur þræll,
angraður niður drjúpa,
þá ég heyri, minn herra sæll,
sú harma bylgjan djúpa
gekk yfir þig þá galstu mín;
gjarnan vil ég að fótum þín
feginn fram flatur krjúpa.
5
Í ystu myrkrum um eilífð er
óp og gnístran tannanna.
Hefndarstraff það var maklegt mér
fyrir margfjöldann glæpanna.
Frá því, Jesú, þú frelstir mig.
Frekt gengu myrkrin yfir þig,
svo skyldi eg þá kvöl ei kanna.
6
Í svörtu myrkri það sama sinn
sorgarraust léstu hljóma,
þá hrópaðir þú mig, herra, inn
í himneskan dýrðarljóma.
Í því ljósi um eilíf ár
úthrópa skal mín röddin klár
lof þinna leyndardóma.
7
Synda, sorga og mótgangs með
myrkrin svo oft mig pína,
að glöggt fær ekki sálin séð
sælugeislana þína.
Jesú, réttlætissólin sæt,
syrgjandi ég það fyrir þér græt.
Harmaraust heyr þú mína.
8
Guð minn, segi ég gjarnan hér,
geyst þó mig sorgin mæði;
Jesú, ég læri nú það af þér;
þau skulu mín úrræði.
Gjörvöll þá heimsins gleðin dvín,
guð minn, ég hrópa vil til þín.
Guð minn allt böl mitt græði.
9
Yfirgefinn kvað son guðs sig,
þá særði hann kvölin megna;
yfirgefur því aldrei mig
eilífur guð hans vegna.
Fyrir þá herrans hryggðarraust
hæstur drottinn mun efalaust
grátbeiðni minni gegna.
10
Þá sólarbirtunni eg sviptur er,
sjón og heyrn tekur að dvína,
raust og málfæri minnkar mér,
myrkur dauðans sig sýna,
í minni þér, drottinn sæll, þá sé
sonar þíns hróp á krossins tré.
Leið sál til ljóssins mína.
Don't worry. Be Happy :D