Ég var að klára fyrsta árið í MR og ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Mjög gott félagslíf í bland við mjög góða menntun og þá meina ég mjög góða!
Félagslífið: Það fyrsta sem margir nefna er það að við erum með tvö skólafélög. Það þýðir m.a. tvær árshátíðir, tvö skólablöð, tvær árbækur og samkeppni milli félaganna. Bæði félögin hafa mörg, spennandi undirfélög. Eitt stærsta undirfélagið, svo ég viti til, er Herranótt en það er elsta leikfélag Norðurlandanna og gerir mjög metnaðarfullar leiksýningar á hverju ári sem eru lausar við allar klisjur og yfirborðshætti.
MR vann átta keppnir í ár en hlýtur það að vera einhverskonar met. Það er því engin furða að til sé fyrirbæri sem kallist MR stolt en er það víðfrægt og vilja sumir jafnvel kalla það hroka. En hvernig er hægt að vera annað en stoltur þegar maður labbar upp tröppurnar að Lærða skólanum þar sem helstu menn skólans lærðu.
MR er skóli hefðanna og er því tollerað á busadeginum, gangaslagur um vorið, fiðluball í 6.bekk og sérstakur hringjari sem hringir þegar tími byrjar eða er búinn.Skólafélögin tvö; Framtíðin og skólafélagið eru bæði yfir hundrað ára gömul. Gamall, persónulegru andi svífur því yfri skólann.
Menntun: Stökkið á milli grunnskóla og MR er gífurlegt. Lílegast muntu vera í losti yfir stærðfræði og stafsetningarprófum fyrstu vikurnar og stundum gætir þú jafnvel séð eftir því að hafa ekki valið léttari skóla. EN á móti kemur að enginn skóli undirbýr þig jafnvel yfir háskólanám. Ég þekki strák sem var í MR og er núna á fyrsta ári í verkfræði. Fyrir honum er verkfræðin miklu léttari en fyrir aðra einfaldlega vegna þess að hann hefur gert þetta allt…í MR.
Stærðfræðikennslan á náttúrufræðibraut er frábær. Ómannúðleg en frábær. Strax á jólaprófinu þarftu að læra flóð af sönnunum, skilgreiningum og flóknum aðferðum. Íslenskan er líka mjög ströng og eru stafsetningarprófin þannig að hægt er að fá mínus eitthvað í einkunn. Mér finnst saga mjög spennandi en á fyrsta ári lærir þú sögu Forn-Grikkja og Forn-Rómverja auk þess sem þú byrjar að læra um miðaldir. Í því prófi ásamt jarðfræði á náttúrufræðibraut eru krossaspurningar þar sem dregið er niður fyrir röng svör.
Á fornmálabraut getur þú lært latínu eða forngrísku sem mér finnst mjög spennandi en öll tungumálakennsla í MR er nokkuð góð. Mæli ég sérstaklega með Þýsku.
Ég er örugglega að gleyma alveg fullt af hlutum en ég vona að þetta svari nokkrum spurningum um Menntaskólann.