Ég er núna í fyrsta skipti í nærri því 7 ár ekki í ensku í skólanum. Enska hefur alltaf verið svo sjálfsögð en núna sé ég hvað þetta var í rauninni tilgangslaust.
Í 5. - 6. bekk lærði maður grunnatriðin. Það var auðvitað fínt, spennandi og skemmtilegt að læra nýtt tungumál. Á þeim tíma fékk ég fullt af enskum sjónvarpsstöðvum og byrjaði að taka eftir ensku allt í kringum mig. Þannig lærði maður nærri því allt. Eftir það hef ég nærri því aldrei lært neitt í ensku og ég er alls ekki sú eina. Flestir krakkar læra ensku svona í dag.
Í 8. - 10. bekk var ég í bókum sem heita Network. Þar gerði maður allskonar verkefni og allt var þetta skítlétt. Meira að segja þeir sem voru ekkert svo sterkir í öðrum fögum í skólanum stóðu sig bara ágætlega í þessu. Í framhaldsskóla hélt ég svo áfram í þessu sama, nema þar heitir bókin annað. Þetta sem við vorum að læra þar hefðum við auðveldlega getað lært í 8. bekk.
Allan tímann sem ég hef lært ensku hef ég aldrei þurft neitt sérstaklega á því að halda að geta talað hana. Ég lærði í rauninni ekki almennilega að tala ensku fyrr en ég fór að vinna í sjoppu og þurfti að afgreiða útlendinga.
Af hverju er þetta gert svona? Þeim sem gengur vel í ensku leiðist og nenna alls ekki að læra þetta því verkefnin eru of létt. Þeim sem gengur illa gengur oftast illa í málfræði en geta flestir talað enskuna vel. Af hverju ættum við ekki að læra meira um að tala ensku?
Ég hef aldrei skilið af hverju það er svona mikilvægt að við kunnum allt í málfræði á öðrum tungumálum. Það er í lagi að læra grunninn en afgangurinn er óþarfi því fæstir þurfa mikið á því að halda að kunna skrifaða ensku vel. Það sem við þurfum að læra á öðrum tungumálum er að tala þau og lesa þau, ekki skrifa ritgerðir. Þeir sem ætla eitthvað að fara í nám á ensku, sem háskólanám er oftast, taka oft fleiri áfanga og eru þar að auki margir ágætir í ensku.
Það sem ég er að reyna að koma frá mér í þessum þræði er að ég er mjög ósátt við enskukennslu hér á landi. Sama hvernig nemandi maður er, það er bara yfirleitt farið vitlaust að þessu.