Sálfræðingar eru búnir með 3ja ára BS nám og 2ja ára MS nám = 5 ára nám. Flestir hafa þó meira nám að baki. Ef þeir uppfylla viss skilyrði eftir það fá þeir starfsleyfi sem sálfræðingar og eftir að hafa uppfyllt enn strangari skilyrði geta þeir fengið viðurkenningu sem sérfræðingar.
Sálfræðingar læra um starfsemi hugar og heila, þroska, hegðun, nám, minni, tilfinningar og fleira í þessum hugræna dúr. Meðferð þeirra byggir oftast á því að vinna hugrænt með vandamálin - samtalsmeðferð o.þ.h.
Sálfræðingar geta ekki skrifað upp á lyf og þurfa því að vísa sjúklingum á geðlækna ef þeir telja lyf nauðsynlegan part af meðferð. Oftast er það svo.
Ágætt er að taka félagsfræðibraut í framhaldsskóla með mikilli sálfræði, einhverri félagsfræði og tengdum greinum auk ensku ef þörf er á þar sem námsefni er á ensku í HÍ. Líffræði og efnafræði er einnig nauðsynleg að einhverju leyti þar sem lífeðlisfræðileg sálfræði og taugasálfræði eru kenndar. Einnig er fínt að taka tölfræði (Stæ 313 og 413).
———————–
Geðlæknir er búinn með læknisfræðinám og kandidatsár og sérnám í geðlækningum eftir það. Það tekur semsagt yfir 10 ár að verða geðlæknir ef stefnt er markvisst að því.
Geðlæknar eru læknar (eins og nafnið gefur til kynna…) og þess vegna eru þeir vel að sér um líkamlegu hlið geðsjúkdóma, þ.e. orsakir og afleiðingar þeirra. Þeir geta skrifað uppá lyf og hafa sérþekkingu á áhrifum lyfja á sjúkdómana.
Lyf eru oft nauðsynleg í upphafi hugrænnar meðferðar hjá sálfræðingi og sem stuðningur í gegnum meðferðina. Flestir eru sammála um að lyfin ein og sér eru oft meira eins og hækjur. Þau eru stuðningur í annars konar meðferð (t.d. samtalsmeðferð) og ef maður hættir á þeim koma einkennin oftast upp aftur ef ekkert hefur verið unnið í vandamálinu að öðru leyti.
Þar sem maður þarf að byrja á læknisfræðinni t.a. verða geðlæknir er best að taka náttúrufræðibraut með sem mest af efnafræði (upp í 303 auk 313 og helst 413 líka) og töluvert af líffræði (103 og 203 a.m.k.), stærðfræði (upp í 503 auk tölfræði), eðlisfræði (103 og 203) og sálfræðin (t.d. 103 og 203) sakar ekki. Auk þess er námsefnið að miklu eða öllu leyti á ensku. Auk þess er á inntökuprófinu prófað úr sálfræði, sögu, félagsfræði o.fl. Einhversstaðar á netinu er síða sem gefur upp áfangana sem prófað er úr.
————————
Ég held að það sé hægt að taka þetta saman í að ef maður ætlar í sálfræði sé fínt að taka félagsfræðibraut með sem mestu vali í þeim greinum og auk þess vali af náttúrufræðibraut. Náttúrufræðibraut er einnig góður undirbúningur (með val af félagsfræðibraut). Ef maður ætlar að verða (geð)læknir er hinsvegar pottþétt betra að taka náttúrufræðibrautina með auka vali á henni auk vals af félagsfræðibraut.
– Athugasemdir velkomnar :)