Í skólareglum Hraðbrautar segir að ef nemandi fer yfir hámarksfjölda fjarvista megi skikka hann í læknisskoðun hjá trúnaðarlækni. Nemendur samþykkja væntanlega reglurnar með því að hefja nám í skólanum þannig að þá er væntanlega lítið hægt að gera. Ef það stendur ekkert meira í reglunum er óvíst hvort þeir geti neytt þig til að skipta við þennan lækni til að fá vottorð almennt. Biddu starfsfólk skólans að vísa í eitthvað á prenti sem gerir þeim kleift að krefjast þessa. Þá er væntanlega ástæða meðfylgjandi.
Í læknalögum er fjallað um útgáfu læknisvottorða og um það gilda skýrar reglur. Þinn heimilislæknir eða heilsugæslulæknir hefur yfirlit yfir þína sjúkrasögu og þjónustar þig almennt og þú vilt væntanlega leita til hans eftir vottorði. Það vottorð er alveg jafngilt og önnur og stjórnendur skólans geta ekki véfengt það vegna þess að þeim hentar það eða að það er ekki frá uppáhálds lækninum þeirra. Þeir hafa held ég enga lagalega heimild til að hunsa gilt og löglegt læknisvottorð frá löggiltum lækni, hvort sem þeir hafa gert samning við einhvern lækni út í bæ eða ekki (þeir geta ekki samið þinn rétt af þér).
Þó er það með þetta eins og margt annað að fólkið segir bara nei þó að það geti það ekki og tekur ekki mark á þér. Það er spurning hvað þú vilt vera með mikið vesen. Þú getur prófað að hringja á heilsugæsluna þína, fólkið þar ætti að geta svarað þér.