Fyrir mér er það eitt af erfiðari verkum dagsins að vakna á morgnanna. Þetta byrjar náttúrulega allt á því að vekjaraklukkan hringir. Um leið og það gerist ýti ég á “blund” takkann [10 mínútna töf] eins fljótt og ég get, og nýt svefnsins aðeins lengur. En eftir tíu mínútur þarf ég að rífa mig framúr og þá er mér skítkalt. Ég skelli mér þá í sturtu og hef hana eins heita og ég þoli, en það virðist ekki duga, því mér verður strax kalt aftur þegar ég stíg úr sturtunni. Þegar ég er kominn í fötin batnar þetta, en versnar svo aftur þegar ég hef lokið morgunverðinum, sem er í formi morgunkorns með mjólk. Ég er alltaf í tímaþröng þar sem ég tek svefninn fram yfir allan rólegheitatíma og ríf mig oft framúr nokkrum mínútum á eftir áætlun.
Það sem ég þarf er einhver lausn á þessum vandmálum og ég efast um að ég sé einn um það. Mér hefur reynst ágætlega að kveikja á ljósi í herberginu mínu og horfa í það á meðan “blundurinn” er að renna út, þá er ekki eins erfitt að rífa sig framúr. Mig vantar fleiri svipuð góðráð, endilega deilið ykkar aðferðum!