Jæja. Mikið um spurningar í einum pósti en ég skal reyna að gefa svar af viti.
Ég kom í MH án þess að þekkja einn né neinn, og einmitt vegna þess fór ég þangað, ég vildi ekki fylgja öllum úr grunnskólanum mínum heldur kynnast nýju fólki. Það hefur gengið frábærlega og ég á fleiri vini en ég átti nokkurn tímann í grunnskólanum. Fyrstu önnina tala allir við alla. Þú ert mest með þínum árgangi í tímum og farið er í busaferð og nokkrar fleiri uppákomur haldnar fyrir busana. Allir eru frekar opnir og vilja kynnast nýju fólki, þó að vissulega haldi fólk í gömlu vinina. En ég mundi segja að á öðru ári sé grunnskólaskiptingin að mestu horfin.
Það sem helst tengist klíkuskap í MH er leikfélagið og kórinn. Þau halda sín lokuðu partý og almennt er mikil virkni í kringum þessi tvö félög sem utanaðkomandi hafa engan aðgang að. Einhvern veginn hef ég samt aldrei séð eftir því að vera í hvorugu.
Annað sem gæti útskýrt þetta klíkuorð sem MH hefur á sér er borðaskiptingin. Í frímínútum og hléum situr fólk alltaf á sama stað, á borði með 10-25 manneskjum á. Þetta eru oftast nánustu vinir manns í skólanum, fólkið sem maður hittir eftir skóla, fer með í partý og hengur með á skólasamkomum. Það er örugglega mjög erfitt að hafa engan fastan stað í skólanum, ég held að það sé ekkert mikilvægara þarna. En flestir finna sér stað til að sitja á tiltölulega fljótlega og þá verða frímínúturnar skemmtilegar (spjall, spil), oftast svo skemmtilegar að maður nennir engan veginn í tíma ;)
Og þar komum við að náminu. Það þarf að fá 80% mætingu og 10 minnst 10 einingar til að ná önninni. Í sumum áföngum er fall mjög hátt, t.d. í STÆ203 eða ÍSL303. Fólk sem nennir ekki að gera neitt fellur oft á fyrsta eða öðru ári, en almennt þarf fólk ekki að vera neinir snillingar til að klára þennan skóla. Auk þess verð ég að nefna að í MH ertu upp á sjálfan þig komin, skólastjórnendum og kennurum er oftast sama um þig og þín vandamál, þú þarft sjálfur að bera ábyrgð á náminu.
En svona almennt er MH frábær staður og ég myndi ekki vilja vera neinsstaðar annarsstaðar :=