Um páskaleytið var bekknum mínum skipt í fyrsta skipti í hraðferð og “hægferð” eða almennaferð, eins og það er kallað. Þegar okkur var tilkynnt að það ætti að skipta bekknum þannig þá voru allir mjög á móti því. Okkur var sagt að A bekkurinn eða almennferð myndi ekki fara hægar í námi en áður. H bekkurinn eða hraðferðin myndi hinsvegar fara hraðar yfir námsefnið og taka strax í níunda bekk námsefni fyrir tíunda bekk og þá gætum við verið búin með framhaldsskólanámsefni í tínudabekk.
En strax eftir skiptinguna þá festist “tossabekkurinn” eða “lúðarnir” við A bekkinn. Sumum fannst bekkjarskiptingin betri svona en öðrum fannst hún vera mikið verri. En þá held ég að sumir nemendurnir hafi bara verið að hugsa um vini sína sem lentu ekki í sama bekk og þeir, en ekki um hvorum megin þeim þætti betra eða verra að vera námslega séð.
T.d. kom upp sú umræða að kennararnir kæmi öðruvísi fram við A bekkinn og myndi gefa þeim óbeint í skyn um að þeir væru heimskingjar og tossar. Ekki get ég sagt hvort það sé satt með vissu en ef kennararnir koma þannig fram við A bekkingana þá er það alveg óviðunandi og mjög alvarlegt mál.
En á öllum málum eru tvær hliðar; ég held að kennari sem er búinn að kenna sömu nemendunum lengi og veit hverjir eru að fá hæstu einkannirnar og hverjum gengur ekki eins vel, komi ósjálfrátt öðruvísi fram við “proffana” en við hina.
Ég held meira að segja að það gæti verið betra fyrir sjálfa nemendurna svo framarlega sem kennarinn er ekki að gefa það í skyn að þeir síðarnefndu séu tossar og heimskingjar.
Finnst ykkur gott að bekkjum á grunnskólarstigi sé skipt í svona ferðir? Persónulega finnst mér það ekki gott; þá fara krakkarnir t.d. að velta því fyrir sér hver sé munurinn á sér og einhverjum öðrum sem lenti í hraðferðinni, foreldrarnir verð e.t.v. óánægðir með námsárangur barna sinna, en líklega er það alvarlegasta, að það verður alltaf munað eftir því í hvaða bekk hver var. Þannig að það má segja að þessi “tossastimpill” sé ennþá fastur við krakkana, þótt að viðkomandi sé fyrir löngu búinn að bæta sig og gangi nú vel í námi!
Mér finnst að þetta mætti bíða þar til maður kemur í framhaldsskólann og taka þá mið af samræmduprófunum í hvaða bekk maður lendir í.