Hæhæ. Ég á að skila inn ritgerð úr bók að eigin vali sem mun gilda 30% af lokaeinkunninni minni í íslensku. Þess vegna verður hún að vera alveg tipp topp! Endilega komið með uppbyggilega gagnrýni ef þið nennið :)
Englar Alheimsins.
Eftir Einar Má Guðmundsson.
Einar Már Guðmundsson fæddist í Reykjavík þann 18. september árið 1954. Hann lauk stúdentsprófi við menntaskólann við Tjörnina 1975 og B.A. prófi í bókmenntum og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Einar bjó í Kaupmannahöfn í sex ár og stundaði framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Í dag er Einar kvæntur, fimm barna faðir og býr Reykjavík. Hann hefur sent frá sér þrettán skáldsögur og fimm ljóðabækur, hann gaf Engla alheimsins út árið 1993 til minningar um bróður sinn, Pálma Örn og hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995.
Þessi saga fjallar um Pál Ólafsson. Páll var geðsjúklingur, og í þessarri sögu kynnumst við honum og lífi hans. Páll fæddist þann 30. mars 1949, sama dag og Ísland gekk í NATO. Í bókinni segir Páll frá því að fæðingardegi hans hafi verið fagnað með grjótkasti og táragasi. Í byrjun sögunnar dreymir móður Páls draum. Í draumnum er móðir hans tíu ára, hún er í sporvagni og stór svartur hundur birtist fyrir framan hana. Hann er ágengur og reynir að klóra og glefsa í hana. Hundurinn gerist það ágengur að hún stekkur út úr vagninum og hleypur í burt. Þá sér hún fjóra hesta. Þeir standa allir á beit, spölkorn frá hver frá öðrum. Hún hafði ekki séð þessa hesta áður, þetta voru ekki hestar afa hennar. Þeir voru vel skapaðir, hnarreistir og fallegir. Einn var rauður, annar var brúnn, þriðji var jarpur og sá fjórði var skjóttur. Móður hans þótti hún eiga þessa hesta, henni fannst þeir vera í hættu og að hún yrði að bjarga þeim. Hestarnir hlupu af stað, en sá skjótti dróst aftur úr, hann hljóp í hringi og hegðaði sér afar undarlega. Svo ætlaði hann einnig að taka á rás eins og hinir hestarnir, en þá hrasaði hann og datt. Þegar hún kom að honum lá hann dauður á jörðinni. Hún horfði í augu hans í stutta stund en vaknaði svo upp frá draumi sínum þar sem Páll var að koma í heiminn. Hann segir frá því að eftir að hann, Páll, yfirgaf þennan heim að henni hafi þótt þessi draumur fyrirboði alls og að hann hafi búið innra með henni allt hennar líf. Þarna gefur Einar Már tóninn sem ríkir í allri bókinni. Hann leikur sér frjálslega með tíma og flakkar fram og aftur í nútið og framtíð, sem gerir það að verkum að bókin er einstaklega frumleg. Í bókinni er sagt frá foreldrum Páls, faðir hans er leigubílastjóri hjá Hreyfli og það var ekki nógu fínt fyrir foreldra Dagnýar, stúlkuna sem Páll elskaði. Hún var sérstök, gekk í öðruvísi fötum, reykti pípu og var á mótþróaskeiði. Hún var í uppreisn við forpokaða og snobbaða foreldra sína. Rögnvaldur, besti vinur Páls sem hann kynntist fyrsta daginn í Menntaskóla Reykjavíkur, spáði því alltaf að hún myndi á endanum fara aftur til foreldranna og giftast vel stæðum manni með eftirnafn. Sá spádómur rættist. Rögnvaldur og Páll hittust fyrst í strætóskýli á leiðinni í skólann. Þeir hittust svo aftur þegar Páll varð að setjast við hliðina á honum inn í bekk vegna þess að hann af einhverjum ástæðum tafðist þegar allir völdu sín sæti, hvort sem það voru snýtingar eða klósettferð. Rögnvaldur segir þá við Pál að þeim sé greinilega ætlað að fylgjast að. Sem þeir svo gera þangað til Rögnvaldur fremur sjálfsmorð. Hann var vel stæður, menntaður tannlæknir með góða konu og gáfuð börn. Fyrir sjálfsmorðið segir hann við Pál, þar sem þeir sitja í bíl Rögnvalds eftir að hann sækir hann á Klepp og horfa út á hafið, að þetta væri ekkert mál, bara að stíga á bensíngjöfina og búið. Páll áttar sig ekki á orðum Rögnvalds þá, enda langaði hann ekkert að deyja á þeim tímapunkti. Áður en Rögnvaldur lætur þessi orð falla segir hann við Pál að Kleppur sé alls staðar, og það gefur tóninn fyrir fyrirætlanir Rögnvalds.
Í bókinni er birt skýr mynd af aðstæðum geðsjúkra í landinu. Sérstaklega þegar foreldrar Páls koma í heimsókn til hans um páskana. Hann er svo uppdópaður að hann getur vart talað vegna lyfavímu. Móðir hans hneykslast á því en nærstödd hjúkrunarkona svarar því með þeim orðum að það sé páskafrí og flestir starfsmenn séu í fríi. Þetta sé eina leiðin til að halda þeim í skefjum þegar starfsfólkið sé í fríi. Svar hjúkrunarkonunnar sýnir að geðsjúkir voru ekki í neinum forgangi og greinilega ekki taldir jafn mikilvægir og annað fólk. Þessi bók átti mikinn þátt í að upplýsa almenning um geðsjúka og sjúkdóm þeirra. Fólk var kannski ekki nógu upplýst um geðsjúkdóma og áttaði sig ekki á því að um raunverulega sjúkdóma er að ræða, rétt einsog krabbamein og astma. Ekki eitthvað sem fólk velur sér, og fólki ber að vera umburðarlynt. Lúðvík. geðlæknir á Klepp, er gott dæmi um rangt viðhorf til sjúklinga. Hann er andstyggilegur, stuttur í spuna og vanhæfur læknir. Villi vörður á Klepp er einnig andstyggilegur, stuttur í spuna og vanhæfur í starfi. Þeir hafa enga þolinmæði fyrir sjúklingunum og finnst þeir eigi að haga sér eins og eðilegar manneskjur, sem þeir eru náttúrulega ekki. En hægt er að velta vöngum yfir því hvað telst eðlilegt? Þótt að þeir lifi í öðrum heimi í við þarf ekki að vera að þeirra heimur sé rangur. Geðveiki Páls byrjar fremur snemma. Hún byrjar á höfuðverkjum og ofsjónum. Með aldrinum ágerist höfuðverkurinn og hann verður geðveikur. Inn á Klepp eignast Páll nokkra vini. Pétur, sem tók sýru, hoppaði af þriðju hæð og trúir því að hann hafi skrifað ritgerð um Schiller og er hugfanginn af Kína, Óla Bítil sem trúir því að hann hafi samið öll bítlalögin og sent þeim þau með hugskeyti og Viktor sem kallar Hitler Dolla og gerði tilraun til þess að breyta sér í kvaðratrótina af tveimur. Þeir lentu í nokkrum ævintýrum, eins og þegar Óli og Páll löbbðu á Bessastaði og Óli fór í heimsókn til forsetans. Óli sat og spjallaði við hann og spurði hvort hann gæti ekki bara verið næsti forseti. Forsetinn sá ekkert að því og Óli spurði hann hvort hann mætti nú ekki bara fá bílinn núna fyrst hann tæki hvort eð er við embættinu og forsetinn játaði því. Þegar þeir félagar yfirgáfu Bessastaði gengu þeir rakleiðist að forsetabílnum og ætluðu sér að keyra burt á honum. Svo var það líka þegar þeir félagarnir fengu bæjarleyfi til að sækja jarðarför Péturs sem hafði framið sjálfsmorð, vegna þess að hann mátti ekki hitta dóttur sína og foreldrarnir höfðu lokað á hann, en fóru í stað þess á Hótel Sögu og fengu sér dýrindis rétti, vindla og vín, eftirrétt og koníak. Viktor sagði við þjóninn að hann væri fasteingasali og Óli og Páll væru landeigendur norðan heiða. Þeir fengu góð sæti og Viktor lét sem hann gerði þetta oft og pantaði með glæsibrag. Þegar þeir fengu reikninginn skrifaði Viktor á hann að þeir væri geðsjúklingar og vistmenn á Klepp. Svo bað hann þjóninn um að hafa vinsamlegast samband við lögregluna. Frásagnir eins og þessi færa húmor og hnyttni í söguna auk ádeilu. Sagan segir okkur að geðveiki sést ekki endilega á yfirborðinu og að geðveiki er ekki merki um skerta greind, síður en svo. Það eru allmargar frásagnir í sögunni sem gefa til kynna að samfélagið var ekki nógu opið fyrir geðsjúkum. Sagan einkennist af lævísum húmor og boðskap sem drýpur af hverju orði hetnnar. Höfundur notar ljóðrænar tilvísanir sem gefa okkur innsýn í huga Páls og hvernig þankagangur hans var. Páll var listamaður og trommari. Hann hafði brennandi áhuga á listmálun og bæði tjáði sig og fékk útrás með málverkum sínum. Hann var snillingur á sinn hátt. Í seinni hluta bókarinnar finnur lesandinn sterklega fyrir sívaxandi þunglyndi Páls, vonleysinu og depurðinni. Í æsku Páls átti hann nokkra góða vini. Gulli, rauðhærðu bræðurnir Daníel og Skúli, dökkhærðu bræðurnir Jói og Siggi. Hann, Jói og Skúli voru allir jafngamlir en þeir Siggi og Daníel voru tveimur árum eldri. Svo var Gulli, sonur Bergsteins málara, Gulli var tíu ára, dökkhærður með stór innhverf augu og langa handleggi og langa fætur sem hlupu það hratt að hann virtist ætla að hefja sig til flugs. Bergsteinn málari, faðir Gulla, hafði Klepp ávallt á myndum sínum. Myndirnar hans seldust ekki vegna þess að Kleppur var á þeim. Jói og Siggi eru dökkhærðir og brúneygðir eins og Benni, faðir þeirra. Benni er pípulagningarmaður og þykir afskaplega myndarlegur. Aftur á móti er móðir þeirra bræðranna, Þórey, ljós yfirlitum og bláeyg eins og litlu börnin tvö, Þröstur og Jóna. Þeir bræður Jói og Sigga virðast búa við verri aðstæður en vinir þeirra. Höfundur segir frá því í bókinni að í kjallaranum sem þau fjölskyldan bjuggu í hafi verið minni og myrkri en kjallara Páls og fjölskyldu. Hann greinir einnig frá því að þar hafi verið raki í loftinu og einkennileg lykt af fötum þeirra bræðra. Þórey móðir þeirra er líka oft þreytuleg og gugginn, “eins og fölt loftleysið hafi sest að í andliti hennar.” Daníel og Skúli er báðir stórir og þreknir, báðir eldrauðhærðir og freknóttir. Þór faðir þeirra er einnig þannig. Hann er rauðhærður, freknóttur, stór og þrekinn. Þór er sjóari og er togarajaxl. Þeir Benni og Þór eru haldnir veiðidellu og stjórnast vinátta þeirra aðallega af því. Drengirnir, þeir Siggi og Jói hafa fengið að fara með þeim í veiðiferðir og Siggi hrífst af veiðirifflunum. Páll segir frá því að þegar þeir léku sér í kjallaranu heima hjá Sigga og Jóa hafi Siggi oft tekið riffilinn niður af veggnum og handleikið hann. Einn daginn kemur Benni, faðir Sigga og Jóa, að þeim félögunum með riffilinn. Hann ítrekar fyrir honum að það sé harðbannað að leika sér með riffilinn. Næst segir höfundur að rifflinum hefði kannski verið betur varið í höndum drengjanna. Þessi smáa setning skapar spennu og er dæmigerð fyrir rithátt höfundar. Lesandinn veit samstundis að eitthvað miður gerðist, en ekki hvað. Þegar maður les svo um atburðinn að enda áttar maður sig á því að, rifillinn hefði betur verið í höndum drengjanna þennan dag. Atburðurinn er á þessa leið; þeir félagar Benni og Þór fara upp á fjall að skjóta. Riffillinn stendur aðeins á sér og Þór ákveður að gægjast ofan í byssuhlaupið. Þá ríður skot af og hæfir Þór beint í augað. Gulli varð listmálari, rétt einsog Bergsteinn faðir hans. Þeir bræður Daníel og Skúli lögðu fyrir sig bílaviðskipti. Jói fór í gæslustörf en Siggi varð sjómaður. Höfundur greinir lítillega frá sögu Klepps. Þar er tekið fram að á fyrstu árum spítalans hafi Kleppur verið stórbýli, þar hafi verið kúabú, fjárbú, svínabú og alifuglabú. Vistmenn spítalans sem voru vinnuhæfir sinntu því einnig bústörfum. Fyrsti yfirlæknir spítalans var stórbóndi og andatrúarmaður sem féll öðru hverju í dá og birtist á miðilsfundum í fjarlægum löndum. Vistmenn spítalans gengu um eins og hvert annað fólk. Drengirnir kynntust þeim og þekktu þá. Sem dæmi má nefna Grétu sem hljóp svo hratt að strákarnir náðu henni ekki. Hún gekk tvisvar á ári til Þingvalla og einu sinni á ári til Akureyrar. Og Baldvin Bretakonung, mann sem fór allt í einu er virist að rita nafn sitt með tvöföldu vaffi. Hann trúði því statt og stöðugt að hann væri konungur Breta. Einn daginn þegar móðir Páls sat með hann úti á engi, og hann var enn þá í vöggu. Kom Baldvin Bretakonungur til þeirra. Hann bað um að fá að sjá drenginn. Hann horfði hugfanginn í vögguna og lék við barnið. Reis svo upp og sagði við móður Páls að yfir honum vöktu englar. Seinna þegar Páll var orðinn geðveikur og gekk um götur Reykjavíkurborgar mætti hann Baldvini Bretakonungi sem var þá orðinn gamall maður. Er hann gekk framhjá honum leit Baldvin Bretakonungur upp og sagði við hann að hann hafi ekki gætt englanna sinna. Þetta sýnir það að geðveiki er ekki það sama og heimska. Baldvin hefur greinilega skynjað ástand Páls, en hvernig vitum við ekki. Við lestur þessarar bókar kemst lesandi að því í fyrstu setningu bókar að Páll er geðveikur. Bókin byrjar á minningu sem hann minntist inn á Klepp. Hann segir frá því er hann var lítill drengur og sá mann ganga með son sinn að Kleppi. Hann hleypur á eftir þeim feðgum og spyr hvert faðirinn sé að fara með son sinn. Faðirinn sneri sér við og sagði stuttur í spuna að þeir væru á leið á Klepp. Páll lýsir því að bakvið augu hans hafi logað eldar.
Mér þykir þessi bók frábær í alla staði. Hún er þjóðfélagsleg ádeila á viðhorf almennings til geðsjúkra á Íslandi. Hárfínn og beinskeyttur húmor drýpur af blaðsíðum bókarinnar sem fær mig til þess að finnast ég verða að lesa meira. Eftir að ég komst yfir ruglinginn sem ég varð fyrir svona fyrst vegna sífellds tímaflakks höfundar þá elskaði ég þessa bók gjörsamlega. Uppbygging persónanna í bókinni finnst mér frábær. Þessi saga er grátlega fyndin að því leyti til að hún er vissulega sorgleg en alveg gríðarlega fyndin líka. Einar Már hefur náð að skapa ódauðlegar persónur og ég veit það að þessa bók mun ég eignast og lesa mun oftar.