Grænjaxlar í FVA Leiklistarklúbbur NFFA er um þessar mundir, eins og venja er á vorönn, að setja upp leikritið GRÆNJAXLAR eftir Pétur Gunnarsson. Þar segir frá þeim Kára, Dóra, Láru og Grétu og þeirra lífi, allt frá því að þau voru á leikskóla og uppúr. Með aðalhlutverk fara þau Sindri Birgisson, Tryggvi Dór Gíslason, Hrafnhildur Ýr Árnadóttir og Vera Knútsdóttir. Formaður Leiklistarklúbbs er Guðmundína Arndís Haraldsdóttir og segir þetta vera mjög skemmtilegt og fyndið leikrit. Leikritið er sýnt í Bíóhöllinni á Akranes og verður frumsýnt laugardaginn 9. mars 2002, kl. 20:00. Berglind Ingólfsdóttir teiknaði auglýsingaspjaldið.

Leikstjóri er Sigríður Árnadóttir en hún er gamall nemandi úr FVA. Sigríður hefur starfað í leikhúsi um árabil og öðlast mikla, alhliða reynslu á þeim vettvangi. Á árunum 1988 – 1995 kom hún að ótal uppfærslum Skagaleikflokksins; ýmist sem leikari, söngkona, framkvæmdastjóri, leikmyndahönnuður eða hljóðmaður. Þá var hún mjög virk í leiklistarlífi innan FVA og lék m.a. eitt af aðalhlutverkum í Litlu hryllingsbúðinni árið 1995. Í námi sínu erlendis kom Sigríður einnig að ótal uppfærslum og í Svíþjóð starfaði hún með leikhópnum Lilla teatern sem ferðaðist um Svíþjóð með verk F.G. Lorca, Yerma. Þá var Sigríður ein af höfundum leikritsins Slik en hamster, sem frumsýnt var í Árósum 2001.
Sigríður hefur á undanförnum mánuðum starfað í Borgaleikhúsinu, þar sem hún starfaði m.a. í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur á Kristnihaldi undir jökli.

Tónlistarstjóri er Orri Harðarson, en tónlistinn í leikritinu er eftir Spilverk Þjóðanna og Orra. Orri kom fyrst fram opinberlega árið 1984 og hefur verið atvinnumaður í faginu um árabil. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 1993 og var kjörinn Bjartasta Vonin á Íslensku tónlistarverðlaunum í kjölfarið. Tveimur árum síðar fylgdi önnur sólóplata sem hreppti annað sætið í uppgjöri tónlistargagnrýnenda yfir bestu plötur þess árs. Síðustu árin hefur Orri meira komið að tónlist annarra, ýmist sem útsetjari, upptökustjóri, hljóðmaður og gítarleikari. Sem slíkur hefur hann m.a. annars starfað fyrir Bubba Morthens, Mínus, Hilmar Örn Hilmarsson og dönsku harðkjarnasveitina Vildensky. Geislaplöturnar sem Orri hefur unnið að eru um 20 talsins og tónleikarnir skipta hundruðum.
Orri hefur samið tónlist fyrir tvö leikrit, Alltaf má fá annað skip og Lifðu - Yfir dauðans haf, auk þess sem hann sá um tónlistarstjórn í uppfærslu FVA á Láttu ekki deigan síga Guðmundur, árið 1993.

Hljómsveitin er þannig skipuð:
Hrefna Dögg Gunnarsdóttir: Söngur, þverflauta, slagverk.
Karl Hallgrímsson: Söngur, munnharpa, mandolín, slagverk, gítar.
Gunnar Sturla Hervarsson: Söngur og gítar.
Guðmundur Claxton: Trommur og slagverk.
Ingþór B. Þórhallsson: Bassi
Orri Harðarson: Söngur, gítar og tréspil.

Sýningar verða eins og hér segir:
Frumsýning: 9. mars kl. 20:00
2. sýning: 12. mars kl. 20:00
3. sýning: 13. mars kl. 20:00
4. sýning: 15. mars kl. 20:00
5. sýning: 15. mars kl. 23:30
6. sýning: 16. mars kl. 20:00

Verðskrá:
NFFA og 7-14 ára: 1200 kr.
Aðrir: 1600 kr.
Frítt fyrir 6 ára og yngri


Miðapantanir í síma 431 2808 (2 tímum fyrir sýningu)

Leikritið Grænjaxlar sem Leiklistarklúbbur NFFA sýnir um þessar mundir. Berglind Ingólfsdóttir teiknaði.