Mig langar að taka það fram að ég er að reyna að vera mjög hreinskilin í þessarri grein svo engin skítköst takk.
Allir kannast við þessar týpur; nördinn sem er alltaf búinn með allt fyrst og fær hár einkunnir, og hinsvegar tossann sem er alltaf lengi að öllu og skilur ekki neitt. Það er bara þannig að það eru flestir annaðhvort “nörd”, “tossar” eða “venjulegir”
Ég hef alltaf fengið háar einkunnir. Ég kippi mér ekkert upp við að fá tíu en hinsvegar finnst mér undir átta slæmt. Sumir hugsa kannski núna hvað ég er heppin og hvað líf mitt hlýtur að vera auðvelt. Þannig er það samt ekki. Þrátt fyrir að vera mjög fljót að læra hluti hef ég lengi átt við það vandamál að stríða að vera lengi að öllu. Vinir mínir segja að ég geri allt hægt, hlusta, borða, tala, hugsa, allt geri ég hægt. Nema læra nýja hluti. En um leið og ég er búin að skilja eitthvað, hef ég engann áhuga á því. Í venjulegum skóla lendi ég auðvitað í því að þurfa að gera verkefni um það sem ég var að læra. Ég tek sem dæmi stærðfræði, um leið og ég er búin að fatta hvað lograr eru þarf ég að gera milljón dæmi um það sem eru öll eins! Þetta er fínt fyrir flesta en hentar mér mjög illa þar sem þetta er sóun á tíma.
Ég hef venjulega bara látið mig hafa það og starað út í loftið í tímum meðan kennarinn er enn einu sinni að útskýra hvað kennimyndir sagna eru (í tuttugasta skiptið!). En svo byrjaði ég í framhaldsskóla og fór að taka hraðferðaráfanga. Það var auðvitað miklu betra að læra eitthvað nýtt, en samt eru svo margir áfangar sem eru endalaus upprifjun. Vandamálið er eins og áður að ég er mjög hæg og þarf þess vegna að hafa mikið fyrir því að gera öll verkefnin sem fylgja.
Ég er með svipaðan lestrarhraða og flestir 7. bekkingar. Ég ákvað loksins þegar ég hafði aðgang að námsráðgjafa (það var enginn í grunnskólanum mínum) að fara og tala aðeins við hana. Ég lét tékka hvort ég væri með athyglisbrest, sem ég var bara með í litlum mæli, og ætlaði að reyna að komast að því af hverju ég les svona hægt. Það er engin önnur sjáanleg ástæða fyrir því, þótt vinur minn hafi komið með þá hugmynd að ég væri með ríkjandi hægra heilahvel. Reyndar gæti smá einbeitningarerfiðleikar (samt ekki athyglisbrestur) átt smá sök á þessu.
Þessi hægi lestrarhraði minn hefur lítið truflað mig, þangað til ég kom í framhaldsskóla og hef verið að taka hraðferðaráfanga í dönsku, ensku og íslensku með öllum sínum löngu bókum. Auðvitað þurfti ég að lesa öll tungumálin í einu, sem er jafnvel enn erfiðara en bara það að lesa yfirleitt. Ég er sem betur fer vön að lesa (reyndar ekki hratt) svo ég hef náð þessu nokkurnveginn. Ég prófaði að fá lánaða hljóðbók frá blindrabókasafninu til að hlusta með einni bókinni, en það var ekkert betra.
Í stuttu máli passa ég alls ekki inn í skóla. Það þarf alltaf annað hvort að vera nördinn sem er búinn með allt strax eða þá tossinn sem er lengi að öllu. Það er ekki hægt að vera blanda. Kennararnir kunna ekki að kenna fólki eins og mér, einfaldlega af því það er ekki eins algengt og hitt. Ég hef allavega aldrei heyrt um neinn sem er með háar einkunnir en á erfitt með að einbeita sér.
Hvað er ég þá?
Svo er spurningin, hvað á ég að gera? Ég er algjörlega að missa áhugann á skóla útaf þessu. Ég hef alltaf verið mikill námsmaður og hef gaman að skóla (já, sumum finnst það gaman)
Annað vandamál sem tengist þessu en á kannski ekki heima hér.
Mér er ekki búið að líða vel nýlega. Ég er oft niðurdregin á kvöldin og stundum verð ég andvaka því ég hugsa of mikið. Ég hef reyndar oft verið svona á þessum tíma, þegar maður er búinn að fá nóg af skóla og ég fæ líka nóg af vetrinum og kuldanum á þessum tíma.
Mér hefur verið bent á að ég gæti verið þunglynd. Mér finnst það alls ekki því mér líður oftast vel. Þunglyndi er samt frekar algengt í ættinni minni og frændi minn varð þunglyndur af því hann var of gáfaður fyrir skólann, fékk aldrei neitt sem reyndi á hann. Ég er pínulítið hrædd við að það sé að koma fyrir mig. Núna síðasta mánuðinn hef ég haft svo lítinn áhuga á skóla og læri aldrei en líður alltaf illa útaf því. Ég er samt með góðar einkunnir og það er kannski þess vegna sem ég læri ekki, það skiptir engu máli því þetta er allt svo létt …
Þótt ég sé að missa áhugann á skólanum núna get ég ekki beðið eftir næstu önn, þar sem ég fæ að læra eitthvað nýtt. En það er alltaf þannig að mér finnst námið of létt og missi áhugann …
Getur einhver hjálpað mér? Hvað mynduð þið gera?