Ég bý í sveit og er í pínulitlum 45 manna skóla. Og ég hef tekið eftir því að það er alveg ótrúlegur munur á því hvernig krakkar í sveitum haga sér og krakkar úr þéttbýli, þótt það sé ekki nema Borgarnes. Ég var í skólabúðum (fór að vísu heim á öðrum degi útaf flensu sem ég hafði fengið) og sumir krakkarnir voru alveg stórklikkaðir, þó aðallega strákarnir úr Borgarnesi. Ég hef oftast verið frekar róleg manneskja og er ekki mikið fyrir það að hlaupa um ganga og banka á dyr… og þarna voru allir að því! Svo þekki ég konu sem var að vinna þarna í fyrra og hún sagði að krakkarnir úr Borgarnesi hefðu verið alveg brjáluð og að einhver vandræðagemlingur úr öðrum skóla hefði beðið hana um að passa gemsann sinn því hann treysti ekki þeim úr Borgarnesi. Það er líka mikill munur á klæðaburði og hvernig stelpur mála sig. Mér finnst t.d. stelpurnar í skólanum mínum klæða sig fáránlega og mála sig óóótrúlega mikið en svo nú í haust kom ein ný stelpa í tíunda bekk sem málar sig mun meira og klæðir sig bara allt öðruvísi heldur en ég hef séð í krummaskuðinu hérna.
Frænka mín sér svo um það að hafa ‘óþekktargemlinga’ í sveit hjá sér. Það eru tveir strákar í skólanum sem hafa verið hjá henni og þeir eru hérna enn til að róa þá niður eða eitthvað, held ég. Mér finnst svolítið fyndið, á kaldhæðnislegan hátt, að það þurfi að senda borgarbörn til okkur sveitalubbanna. Það var einhver strákur sem hélt að fólk sem byggi í sveit kynni ekki að lesa eða skrifa! Hann skrifaði ‘mandarína’ á blað og spurði dóttur frænku minnar hvort hún gæti lesið þetta!
Svo á bekkjarsystir mín vinkonu í Hafnafirðinum sem kemur stundum hingað í heimsókn því hún var hérna í skóla í svona tvö ár og hún segir að það sé svo mikil PRESSA á hvernig fólk klæðir sig í skólanum hennar. Svo hérna hinsvegar geti hún klætt sig alveg eins og hún vill og öllum er sama. Ég hef aldrei skilið af hverju fólk má ekki klæðast því sem það vill heldur verði að fylgja fjöldanum.
En já… allavega finnst mér undarlegt hvað það er mikill munur á krökkum úr sveit og krökkum úr þéttbýlum. Sérstaklega þegar það er haldið eitthvað fáránlegt um sveitafólkið! Og ég tek fram að ég hef ekkert á móti Borgarnesi svona almennt!