Er það bara ég, eða er hegðun fólks í grunnskólum Íslands almennt ekki til fyrirmyndar? Sérstaklega í eldri bekkjunum. Á eftir fylgir lýsing á mjög týpískum íslenskutíma hjá mínum bekk, við erum á lokaári grunnskólans.
Athugið að vegna nafnleyndar sem ég kýs að hafa í sögunni munið þið rekast á nokkur fáranleg nöfn eins og t.d. Mótmælandinn en ég kalla hann það út af því að hann rífst og skammast yfir öllu sem fellur ekki í hans hag. Púðurdrósin er kölluð svo vegna þreirra ófáu skipta sem hún sést bregða púðurdósinni á loft, bæði í tímum og á göngunum. Gimparinn, af því að ég spurði hana einfaldlega hvað hún vildi að ég kallaði hana í frásögninni og hún er mjög dugleg við að kalla fólk gimp.
“Það er semsagt farið í röð fyrir framan stofuna. Sögumaður heyrir Púðurdrósina hvísla með hæðnisröddu að vinkonu sinni, ”Af hverju er hún í þessu?“ og líta fagurgræna og helst til of stóra peysu Gimarans hornauga.
Hálfur bekkurinn er sestur áður en að þeim er boðið sæti og síðan hefst kennslan. Við yfirfærslu á verkefnum kemur í ljós að fjórir nemendur hafa lokið við heimanámið sitt og að fæstir hinna eru að reyna að fylgjast með til þess að getað bætt sér það upp heima. Púðurdrósinni er orðið helst til of heitt og kallar hún því á Gimparann, ”Kveiktu á viftunni!“ Gimparinn kann því miður ekki að kveikja á viftunni þar sem sessunautur hennar, er nú er fjarverandi vegna veikinda, sér venjulega um það.
Í stað þess að standa bara upp og kveikja á viftunni sjálf, kallar Púðurdrósin á kennarann sem er í miðri útskýringu á muninum á auka- og aðalsetningum, ” “Sumir” eru ekki hæfir til að kveikja á viftunni,“ og lítur fyrirlitslega á Gimparann.
Eftir að kennarinn hefur farið og sýnt Gimparanum hvernig virkja skuli viftuna, snýr hún sér aftur að kennslunni og allt gengur klakklaust um sinn. Gimparanum finnst þetta hinsvegar alveg drepleiðinlegur tími og ákveður því að klæða sig í úlpuna, setja á sig húfuna og trefilinn, leggjast fram á borðið eins og hún ein kann lagið á og fá sér smá blund. Nokkrum mínútum síðar er blundur hennar þó truflaður með því að húfunni er kippt af hausnum á henni. Er þetta bekkjarbróðir hennar sem situr fyrir framan hana. ”Láttu mig vera gimpið þitt!" hreytir hún í hann, rífur húfuna af honum og leggst aftur fram á borðið.
Fara nú fleiri að taka eftir blundi Gimparans og kemur að því að Mótmælandinn nær augnsambandi við kennarann og bendir á sofandi Gimparann. Kennarinn segir fátt við því, leyfir henni bara að sofa og heldur áfram að kenna. Ýmsir í bekknum fara þá að gera grín af snilldarlegri svefnstöðu Gimparans og það heyrist í Púðurdrósinni tíst eins og henni einni er megnugt að framkalla. Fer Púðurdrósin svo að smella af sér myndum á stafræna myndavél, virðist hafa komist að því að vinstri hliðin á sér sé betri en sú hægri. Takið eftir að á meðan þetta allt gerist er kennarinn að greina málsgreinar í aðal- og aukasetningar uppi á töflu.
Tekst nú Mótmælandanum að leiða talið að menntaskólum og virðist hann vera með almennan móral gegn kynningu á verklegu námi í hraðferðarbekk, þar eigi nemendur að vera svo góðir námsmenn að þeir fari allir í bóklegt framhaldsnám (hvað voru aftur margir búnir með heimavinnuna?) og eigi frekar að kynna verklegt nám í svokölluðum miðferðar- og hægferðarbekkjum.
“Þetta eru nú bara fordómar,” segir hæstvirtur kennari við því.
“Þetta eru ekkert fordómar!” mótmælir Mótmælandi.
Púðurdrósinni er farinn að leiðast tíminn og tekur því upp púðurdrósina og lagar blett á enninu á sér, réttir síðan vinkonu sinni dósina sem speglar sig.“
Þá er frásögninni lokið. Þetta er bara brot af því hvað gerist í tímum hjá okkur. Og hvað er málið með að það þurfi alltaf að vera svona he***tis t*kur í öllum bekkjum sem gera ekkert nema gera lítið úr fólki sem fellur ekki alveg inn í mynd þeirra af hinum “venjulega” unglingi, eins og að í frásögninni er fórnarlambið t.d. ekki alltaf klætt eftir nýjustu tísku og Púðurdrósinni virðist vera eitthvað illa við hana út af því.
Og af hverju þurfa nemendur í sífellu að gera lítið úr kennurum og íslensku skólakerfi (kom ekki mikið fram í sögunni) ef þeir reyna ekki einusinni að vera undirbúnir fyrir tímana sem þeim eru boðnir? Mér finnst að nemendur ættu að hugsa um hvað þeir geta gert til þess að bæta skólakerfið, t.d. eins og að læra heima og hafa hljótt í tímum, áður en að þeir fara að krefjast þess að kennarar standi sig betur.
Þetta er auðvitað bara ástandið í mínum bekk og er alls ekki víst að það líkist að nokkru leiti andrúmsloftinu einhverstaðar annarsstaðar. Vildi bara fá smá útrás fyrir pirring mínum á ”Púðurdrósinni" sem og öðru sem viðkemur skólagöngu minni.