Menntun Í áratugþúsundir hefur það þótt vera merki um aristókratíu og fyrirmennsku að vera vel menntaður. Geta sveiflað um sig orðum sem sverðum, kunna málfræðina og stærðfræðina sem forfeður okkar börðust svo mjög við að æla inn í þennan heim.
Menntamaður fortíðarinnar var ekki aðeins ofmenntaður uppskafningur með hærri status en hinn ómenntaði pöpull heldur einnig stríðsmaður, ötull talsmaður skoðanna sinna og þess sem hann taldi rétt, burt séð frá því hvað lýðnum þótti. Stúdentar bárust á banaspjótum í stúdentaóeirðum Frakklands. Í Kína fannst þeim ekkert tiltökumál að kasta sér sisvona undir skriðdreka fyrir skoðanir sínar, sitt réttlæti.
Ætli það sé enn betri menntun að kenna að fólk étur skoðanir sínar í morgunmat umhugsunarlaust? Með betri menntun síðastliðinna ára hefur ,,menntalegri stéttaskiptingu” verið að mestu leyti útrýmt. Íslendingurinn þykist vera víðsýnn, hann hefur skoðanir allra á hreinu, burtséð frá sínum eigin. Gamli stúdentinn, innblásinn af orðum fornra meistara veifaði sverðinu og hjó sig í gegnum óréttlætið fyrir komandi kynslóðir (að því er hann hélt), meðan nýi stúdentinn er mestmegnis að hugsa um húsbíl, íbúð og sjúss á Naustinu. Á öllum málum eru tvær hliðar, nútímastúdentinn hefur báðar á hreinu. Ef við hugsum okkur hinn gamla nemanda lærða skólans, veri það prestsonur að vestan eða læknissonur með framtíð í vöggugjöf, þá þýddi menntun fleira en bara málfræði, stærðfræði og stafsetníngur. Sjóndeildarhringur nemandans var fleginn upp með lærdómsljá svo hann gæti lært hve gríðarstór og merkilegur heimurinn var (og er). Hve margir merkilegir menn hafa verið til og hve margt merkilegt þeir hafa áorkað. Mætti segja að það hafi verið menntun menntunarinnar vegna? Kannski. Ég hallast vissulega að því. Nemandinn lærði, drakk í sig kenningar og kennisetningar enda einstök forréttindi að sitja í skóla. Allir Íslendingar, sér í lagi þeir ungu, bera með sér lítinn loga að innan sem aðeins menntun getur kynnt upp í logandi bál. En á fyrri tímum voru það fyrirmenn sem fengu að læra. Og þeir höfðu hvort sem er ekkert betra að gera en að flagga menntun sinni fyrir ómerkilegum almúganum, hlaupandi upp um alla veggi með “við mótmælum allir” og “pereatandi” allt og alla. Menntunarbálið logandi í brjóstum þeirra og unglingsárin í lendum þeirra, framtíðin hvort sem er ráðin í ættarnafninu svo slíkar áhyggjur voru engin byrði.
Nú er öldin önnur! Krakkar skulu skólaðir, hvort sem þeir vilja það eður ei. Það skal gert með námsskrá hannaðri á skrifstofu af uppgjafarfólki sem ætlaði líklega að verða löggumenn eða keyra brunabíl en sitja þess í stað bitrir út í lífið og tilveruna á skrifstofu í menntamálaráðuneytinu og hefna sín með námsskrám sem helst eru út í hött, en í það minnsta kjánalegar. Krakkarnir sem dröslast í gegnum grunnskólann skríða inn í menntaskóla með fátt til að kynda menntabálið og færra með hverjum deginum. Kennarar með skoðanir eru litnir hornauga og eiga helst að geyma þær fyrir sjálfa sig vegna þeirrar stórhættu að einhver krakkinn fái flugu í kollinn og brjóti sig frá norminu. Öðruvísi námsbrautir þykja of öðruvísi og eru því staðlaðar svo allir verði eins og menntist eins. Litli lærdómsloginn fær örlitlar bensíngusur endrum og eins en slokknar fljótt aftur þegar ,,alvara lífsins” fer hægt og hægt að ota sínu loðna höfði að nemandanum og mígur á ómerkilegan logann. Lærdómsloginn víkur fyrir lendarloganum og flestir nemendur eyða meiri tíma í að spá í hitt kynið en þá menntun sem verið er að reyna að fæða þá með í gegnum stólpípu íslenska menntakerfisins. Úr verður steingeldur nemi með áhuga á engu nema kellingum, húsbíl, íbúð og góðu starfi á skrifstofu. Hann myndi mótmæla óréttlæti heimsins en a) hann hefur ekki tíma enda í skóla allan daginn svo hann fái góða vinnu í framtíðinni, b) í vinnu svo hann geti verið í skóla svo hann fái góða vinnu í framtíðinni og c) reyna að redda kellingu (eða kalli) svo hann verði ekki aleinn, aumur og yfirgefinn þegar hann er kominn með góða vinnu, húsbíl og íbúð. Svo hann sjússi nú ekki einn á Naustinu.


Ef þú last þetta ekki allt, slepptu því að svara greininni. Það væri algerlega tilgangslaust.