Ríkið lét kennurum það ekki eftir að fá 160.000 króna uppbóta eitthvað og 5% hækkun á launum samstundis þannig að mikil mótmæli fóru fram um land allt.
Það var Kennarasamband Íslands sem lét taka út klausuna um 5,5% hækkun strax. Sveitarfélögin voru tilbúin að ganga að því, ásamt 130.000 kr. eingreiðslu, en að vísu að því tilskildu að kjarasamningur myndi nást fyrir 20. nóvember.
Það er hálf fyndið að horfa upp á það að kennarar eru núna að biðja um nákvæmlega það sem miðlunartillaga sáttasemjara fól í sér, en bæði þessi atriði voru þar, og kennarar höfnuðu henni eins og allir vita.
En ef við spáum aðeins í ríkisstjórninni, er ekki svolítið sérkennilegt að í staðin fyrir að gefa meiri pening í sveitafélögin svo að kennarar fái hækkun sína setja þeir bara lög á allt? Þetta gerðu þeir með sjómenn einnig og flugfreyjur. Á fólk að láta bjóða sér þetta? Taka burtu þeirra eina vopn til að berjast fyrir bærilegum launum?
Það VARÐ að setja þessi lög, það var ekkert að gerast í málinu, og samninganefndir höfðu fjarlægst hvor aðra ef eitthvað var. Átti bara að láta þetta dankast og hafa verkfall fram að jólum? Fram á vor kannski?
Ég spyr, hvað með stjórnarskrárbundinn rétt barna til náms? Er verkfallsréttur kennara sterkari en hann? Og nota bene, það voru sett lög á sjómenn og hafa verið sett lög á flugfreyjur, og það fólk fer eftir þeim lögum og mætir til vinnu. Þetta fólk fær ekki að vera nema 1 dag í verkfalli, jafnvel ekki það. Kennarar eru búnir að vera í verkfalli síðan 20. sept. mínus ein vika í byrjun nóvember.
Það er ósköp einfalt að segja að ríkisstjórnin eigi að “láta meiri pening til sveitarfélaganna”, en hvar endar það ef ríkið á alltaf að koma með meira fjármagn til að leysa kjaradeilur? Það eru nefnilega fleiri stéttir í startholunum að fara í verkfall, til dæmis leikskólakennarar, sem munu krefjast sömu launa og grunnskólakennarar. Á ríkið að koma með meira fjármagn í það líka? Og athugaðu eitt, hvað er ríkið? Það erum við, þú og ég. (eða líklega foreldrar þínir og ég) Skattpeningar okkar. Ríkið er ekki eitthvað fyrirtæki úti í bæ sem á einhverja allsnægtasjóði til að ganga í.
Ennfremur munu kjarasamningar annarra stétta losna ef kennarar fá launahækkun langt umfram aðra í þjóðfélaginu.
Kjarasamningar ganga ekki út á að annar aðilinn fái allar sínar kröfur uppfylltar en hinn engar. Að ganga til samninga með margar ófrávíkjanlegar kröfur gengur ekki upp, eins og hefur sést glögglega á undanförnum vikum. Báðir aðilar verða að slá af. Þessu virðast kennarar ekki hafa áttað sig á og rembast enn eins og rjúpan við staurinn með ófrávíkjanlegu kröfurnar sínar.
Eitt sem mér þótti sérstaklega ógeðfellt við atburði dagsins í dag, var að í einhverjum skólum mættu kennarar til vinnu, létu börnin setjast inn í skólastofur og gengu svo út. Það er eitt að tilkynna sig veikan og mæta ekki, en þessi framkoma finnst mér óafsakanleg og hreint út sagt viðbjóðsleg vanvirðing við börnin, sem til engra saka hafa unnið.
Það getur vel verið að unglingum finnist bara fínt að vera í verkfalli og fá frí, en mörgum finnst það ekki, og þessi önn hefur gjörsamlega verið eyðilögð fyrir öllum nemendum grunnskólans.
Annað sem er beinlínis fyndið, er að horfa upp á stjórnarandstöðuna á Alþingi tala hátt og mikið um skömm ríkisstjórnarinnar í þessu máli, en tala sem minnst um það að það eru þeirra eigin flokkar hér í Reykjavík, þ.e. R listinn sem eru viðsemjendur kennara í þessari deilu, ekki ríkisstjórnin. Össur Skarphéðinsson er í þvílíkum atkvæðaveiðum að annað eins hefur varla sést.