Mig langar að byrja á að segja að ég hef alls ekki neitt á móti strákum, þetta er ekki kvennöldur, þetta er ástandið í skólanum mínum, ég veit að ég má búast við vondum svörum en reynið bara að segja ykkar álit.

Ég er í 9. bekk í grunnskóla og hef tekið eftir dálítið sérstökum hlut síðan úr miðjum áttunda bekk. Það er að stelpurnar segja nánast ekki neitt en strákarnir láta gamminn geysa, þetta sést sérstaklega í samfélagsfræðitímunum. Þegar við höfum þá verið að tala um stjórnmál, stríðsmál o.fl en ekki síst jafnréttismál. Þetta byrjaði í áttunda bekk þegar við vorum að læra um jafnréttismál og stríð. Við máttum alltaf segja okkar skoðanir og urðu langar samræður um alls konar mál. En oft var einhver stelpa ósammála stráki sem sagði hvað honum fyndist og hún sagði sína skoðun. Þá var henni bara einfaldlega sagt að þegja eins og hún vissi ekkert í sinn haus um þetta mál, ætti bara að halda kjafti og láta þá sem hafa rétt á að tala tala. Þetta gekk í svona 3 mánuði þar til við að stelpurnar hreinlega sögðum ekki neitt. Við vissum að annars mætti búast við því að fá skítkast frá strákum, þetta voru langoftast sömu 5-6 strákarnir, hinir voru ekkert að skipta sér af og sögðu ekki neitt. Nú eru það alltaf sömu strákarnir sem tala og jafnvel hækka róminn einum of þegar við erum frædd um jafnréttismál, þetta sé allt búið og gert, við fengum okkar kosningarétt og allt það og nú á að hætta að kenna þetta. Ég gerði einu sinni litla tilraun til að segja eitthvað á móti og trúðu mér ég ætla ekki að gera það aftur.

Jæja, núna er ég loksins búin að segja hvað mér finnst um allt þetta og segið ykkar skoðanir. Kannski er þetta ekki svona í ykkar bekk heldur tala bæði kynin jafnt án ásakana, kannski er þetta akkurat öfugt, þ.e stelpurnar tala allan tímann. Eins og ég hef sagt áður er ég ekki með einhverja ofurfemínistastæla, mér finnst það bara rangt af þessum ákveðnu einstaklingum að gera þetta.

Takk fyrir mig og kær kveðja,
sweetbaby