Í dag fékk ég inn um lúguna ritið “Framtíðarborgin Reykjavík”. Ef þið hafið ekki fengið það mun það sennilega kom bráðlega. Í því stóð svo sem allt ágætt, en tillögur um skólana voru hræðilegar.
Meðal þess sem ég las var:
Skólaskyldan mun lengjast, fyrst í tilraunaskyni, trúlega fyrst um eitt ár upp í framhaldsskólann, síðar eitt ár niður í leikskólann.
Skóladagurinn mun senn lengjast, einkum hjá yngri börnum.
Vinna á gegn aukinni stéttaskiptingu með því að lengja skóladaginn og að “heimanám” sé allt unnið innan veggja skólans.
Ekki á að setja skóla í næsta nágreni við verslunarmiðstöðvar. Setja á reglur sem banna verslanir og sérstaklega sjoppur í nágreni skóla. Aðeins á að selja hollan mat í skólum og skólasjoppum. Engar undantekningar eiga að vera frá þessum reglum.
Ég mótmæli!!! Ef mér hefði verið sagt að vera enn eitt árið í þessu víti sem kallast grunnskóli myndi ég fremja sjálfsmorð! Einstaklingur á rétt á vali. Ég vil fá að velja hvað ég læri og það er ekki mikið val í öllum grunnskólum. Og þótt langflestir fari hvort sem er í framhaldsskóla, þá er alltaf þetta val að vera eina önn lengur eða skemur (á við um áfangakerfi), og langoftast má nokkurn veginn velja hvað maður lærir og ef manni líður illa í skólanum getur maður hætt eða farið í annan. Þetta val er ekki í grunnskóla! Það má ekki loka fólk inn í einni stofnun í 12 ár!
Ég hef heyrt að nú séu litlu börnin til 3 á daginn í skólanum, og þá séu þau búin með allt heimanám og eigi bara eftir að lesa heima. Ég spyr, hvaða heimanám?! Ég man ekki eftir neinu heimanámi í 1. bekk, og ef eitthvað þá var það bara að lita einhvern ís eða lás og skrifa þessa þrjá stafi við! Ef börnin eru búin kl. 3 á veturna er orðið dimmt þegar þau koma heim. Fá þau meira að segja engan frítíma?!
Og ég spyr, er ekki hægt að kaupa sér hollan mat í Bónus eða 10-11?
Er allt í einu orðið stranglega bannað að éta snúða? Þarf skólinn að blanda sér inn í allt líf okkar?! Megum við ekki fá að lifa þessi blessuðu skólaár í friði og hafa nógan tíma fyrir að sinna áhugamálum og vera með vinum okkar? Og af hverju er alltaf verið að lengja skólaárið en bækurnar eru þær sömu?
Lífið snýst ekki um skóla, það á að undirbúa okkur undir hann. Skóli má ekki banna okkur neitt, við erum frjálsar manneskjur og ég vel sjálf hvað ég borða, og ég ætla auðvitað að halda áfram í skóla allavegana til tvítugs, en í guðanna bænum ég vil líka gera eitthvað annað á meðan…