Hópur á vegum Íslensku menntasamtakanna hefur starfað í sumar við að setja upp nýjar kennsluaðferðir í stærðfræðikennslu fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og stendur til að bjóða skólum að nota kennsluefnið í vetur.
Hinar nýju aðferðir felast í því að kennsluefnið verður í formi stuttra bæklinga sem taka ákveðna þætti stærðfræðinnar fyrir í stað þess að hafa allt efnið í einni bók eins og verið hefur.

Yfirferð í náminu er líka með öðrum hætti, nemendur fara ekki allir yfir námsefnið á sama hraða heldur fer hver nemandi yfir efnið á þeim hraða sem honum hentar og klárar jafnmarga bæklinga og hann ræður við. Þannig fara slakari nemendur yfir færri bæklinga en betri nemendur yfir fleiri auk þess sem þeir fá erfiðari dæmi sem hugsuð eru til þess að ögra þeim og koma í veg fyrir að þeim leiðist. Hlutverk kennarans breytist nokkuð fyrir vikið, í stað hinnar klassísku yfirferðar yfir námið aðstoðar kennarinn hvern og einn nemanda og hjálpar honum að gera námsáætlanir.

Dr. Sunita Gandhi, framkvæmdastjóri Íslensku menntasamtakanna, leiðir hópinn en tíu manns vinna að verkefninu og lögð var áhersla á að fá ungt fólk til að koma að verkinu. Hópurinn samanstendur af stærðfræði-, verkfræði- og eðlisfræðinemendum og nemendum í kennslufræði á aldrinum 20–27 ára.

Ingvar Sigurjónsson, stærðfræðinemi við Háskóla Íslands, er einn þeirra sem vinna að gerð kennsluefnisins fyrir grunnskólana. Hann segir að lögð sé áhersla á að kennsluefnið nái til nemenda. „Í bæklingunum verður lögð áhersla á að setja námsefnið fram bæði í texta og með myndrænum hætti. Í leiðbeiningum fyrir kennara er að finna hugmyndir um fleiri leiðir sem kennarinn getur notað við að útskýra námsefnið fyrir nemendum en þær eru í samræmi við hugmyndir dr. Howards Gardners," segir Ingvar en Gardner er upphafsmaður kenninga um fjölgreind og ólík greindarsvið.

Tilhögun prófa breytt

Ingvar segir prófatilhögun samkvæmt hinni nýju aðferð vera með nokkuð öðrum hætti en tíðkast hefur, prófað er bæði fyrir og eftir yfirferð námsefnisins og einkunnir sundurliðaðar þannig að í stað þess að fá eina einkunn fyrir stærðfræði fá nemendur nokkrar einkunnir, t.d fyrir tölfræði, rúmfræði og algebru. Ingvar segir að nemendur geti þannig séð á hvaða sviðum þeir þurfa að bæta sig.

Bæklingarnir eru unnir upp úr því námsefni sem námsskráin kveður á um að kenna eigi í grunnskólum, þannig að breytingin felst einkum í nýjum aðferðum en ekki nýju námsefni. -mbl.is 2003


Vonandi á þetta eftir að koma í staðinn fyrir Almenn stærðfræði 1 og 2. Mér finnst þetta sniðugt vegna þess að það er ekkert eins leiðinlegt og að vera gera einhver hundlétt dæmi á aukablaði eins og stærðfræðikennarar láta alltaf þá sem eru betri gera. Það er líka gott að þá er hægt að fara yfir efnið á sínum hraða. Sumir fara hratt yfir efnið en aðrir hægt og maður verður að taka tillit til þeirra sem fara hægt yfir efnið og líka til þeirra sem fara hratt yfirir efnið, eins og sagt er þá fá þeir nemendur sem eru betri að fara áfram og engin takmörk. Ekkert er eins leiðinlegt og vera búinn með það sem á að gera og svo þurfa að stara út í loftið og gera ekki neitt. ÉG vona virkilega að þetta eigi eftir að breyta einhverju í stærðfræðinni í grunnskólum.

Takk fyrir!