Í kjölfar mikils fjaðrafoks um nýlega grein sem setti út á málfræðivillur, þá langar mig til þess að gera nýja grein um sama efni, án nokkurra stafsetninga, innsláttar eða málfræðivillna. Greinin missti nokkuð marks vegna þess hversu illa hún var skrifuð.
—
Það er óþolandi hversu illa skrifandi hugarar eru. Helmingur notenda virðist ekki geta gert stuttan texta eða könnun án þess að hún innihaldi a.m.k. 2-3 villur af einhverju tagi. Mér finnst þetta döpur þróun, sérstaklega í ljósi þess hversu dýrmætt og mikilvægt tungumálið okkar er. Það er misskilningur að ungt fólk tapi getu til að skrifa og tala með því að hanga á irkinu. Þvert á móti þá þjálfast það til að tjá sig þótt aðferðin sé ekki alltaf fögur. Við verðum þó að líta á þetta spjallrásatungumál sem sérgrein út af fyrir sig, enda er það eðlilegur hlutur, rétt eins og skrifað mál er töluvert frábrugðið töluðu.
Hugi.is er stórkostleg síða að því leyti að hérna fá allir tækifæri til að tjá sig á einfaldasta máta. Mörg þúsund unglingar og ungt fólk þjálfast í skrifuðu máli, þó það sé ekki nema að hreyta skít í aðra notendur. Mér finnst þó sem að villum í textum fjölgi sífellt eftir að ég byrjaði á huga fyrir um tveimur árum. Er það vegna þess að meðalaldur notenda fer lækkandi eða að niðurbrotið á málinu fari svona gífurlega vaxandi?
Síðustu árin hef ég gert mér grein fyrir því hversu ótrúlega einföld erlend tungumál eru miðað við íslenskuna. Samt sem áður er engin ástæða til að ganga illa um það vegna þess hversu óþarfa flókið það er. “Æ mar 'etta skiftir eingu máli á meðsn þteta skilzzt!” sér maður á mörgum stöðun á þessari heimasíðu. Þeir sem skrifa svona dæma sig vonandi sjálfir. Ekki nenni ég með nokkru móti að lesa texta eftir illa skrifandi notendur og ég er viss um að meirihluti hugara gerir það líka.
Skólarnir spila líka stórt hlutverk. Það þyrfti að stórefla lestur hjá börnum og unglingum og leggja mun meiri áherslu á það að börn lesi meira sér til skemmtunar. Það stórbætir málkennd og tryggir það að tungumálið okkar drabbist ekki niður. Það er vita tilgangslaust að fjölga íslensku- eða stafsetningartímum þegar hægt er að læra þetta ómeðvitað á mun skemmtilegri vegu.
Útdráttur:Til þess að fólk taki mark á manni verður maður að geta tjáð sig eins og maður, ekki eins og letiblóð sem einblínir á það eitt að það skiljist. Það er líka ömurlegt ef þessi umræða fer einnig út í það hver getur fundið flestar villur, líkt og gerðist með hina greinina.
Ég vil ekki hafa þetta lengra til að eiga á hættu á að fólk nenni ekki að lesa þessa grein, heldur set lokapunktinn núna.
Takk fyrir mig.