Í þessarri grein ætla ég að fjalla um framhaldsskólann minn, Menntaskólann á Egilsstöðum (ME).

Fyrst ætla ég að fjalla um skólann sjálfan í fáum orðum.
————————————-

Mennta skólinn á Egilsstöðum er stærsti skóli Austurlands.
ME er byggður upp á áfangakerfi og brautirnar sem í boði eru við skólann: almenn braut (3 gerðir), félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut, málabraut, grunnbraut upplýsinga- og fjölmiðlagreina, listnámsbraut, sjávarútvegsbraut (í fjarnámi), íþróttabraut og starfsnám í íþróttum.

Bygging Menntaskólans hófst um 1975 og var hann settur í fyrsta skiptið 14. október 1979. Fyrst um sinn var aðeins eitt skólahús, sem í dag er heimavist ME. Kennsluhús ME var vígt árið 1989 og verið er að ráðast í 2. áfanga þess.

Í dag stunda um 300 nemendur nám við skólann og starfa þar um 30 kennarar.
Á heimavistinni er pláss fyrir 120 nemendur og í Hótel Valaskjálf fyrir 30.
Mötuneyti er starfrækt alla virka daga.

Skólameistari: Helgi Ómar Bragason
Áfangastjóri: Þorbjörn Rúnarsson
Námsráðgjafi: Sigrún Harðardóttir

————————————–

Námsbrautir ME eru eingöngu bóklegs eðlis

Stúdentsbrautirnar eru þrjár (allar 140 einingar og skipulagðar sem 4 ára nám):

Félagsfræðibraut er námsbraut sem veitir góða undirstöðuþekkingu í bóklegu námi með áherslu á samfélagsgreinar.
Brautin býr nemendur undir nám á háskólastigi, einkum á sviði félagsvísinda.
Á brautinni kynnast nemendur þeim starfssviðum sem félagsvísindin tengjast svo sem störfum sálfræðinga, stjórnmálafræðinga, félagsfræðinga, félagsráðgjafa, uppeldisfræðinga, leikskólakennara, grunnskólakennara og þroskaþjálfa.
Kjörsvið brautarinnar í ME eru félagsfræði, íslenska, rekstrarhagfræði, saga, sálfræði, stærðfræði og þjóðhagfræði.
Kennslustjóri brautarinnar er Jón Ingi Sigurbjörnsson.

Náttúrufræðibraut er námsbraut sem veitir góða undirstöðuþekkingu í náttúrufræðum (efnafræði, eðlisfræði, jarðfræði og líffræði) og þjálfun í beitingu stærðfræði í náttúruvísindum.
Brautin er um leið heppilegur undirbúningur fyrir margvíslegt háskólanám svo sem verkfræði, raunvísindi og hagfræði.
Lögð er sérstök áhersla á umhverfismál við kennslu á brautinni.
Fjallað er sérstaklega um samskipti manns og náttúru í fyrirlestrum og verkefnavinnu.
Kjörsvið brautarinnar í ME eru eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, líffræði, stærðfræði og tölvufræði.
Kennslustjóri brautarinnar er Guðrún Tryggvadóttir.

Málabraut er námsbraut sem veitir kunnáttu og færni í íslensku og erlendum tungumálum og staðgóða undirstöðuþekkingu í öðrum bóklegum greinum.
Nemendum stendur til boða að læra íslensku og ensku í fjögur ár, dönsku í tvö ár og frönsku og þýsku í allt að þrjú ár.
Tungumálin eru bæði í kjarna og á kjörsviði brautarinnar en á kjörsviðinu eiga nemendur einnig kost á að bæta við sig stærðfræðiáföngum og greinum af kjörsviðum annarra brauta.
Að loknu námi ættu nemendur að vera færir um að takast á við margvíslegt nám á háskólastigi og ýmis störf í atvinnulífinu sem krefjast góðrar leikni í tungumálum.
Kjörsvið brautarinnar í ME eru danska, enska, franska, íslenska, spænska, stærðfræði og þýska.
Kennslustjóri brautarinnar er Sigrún Árnadóttir.

Styttri brautir eru:

Almenn braut er fyrir þá sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám í framhaldsskóla og nemendur sem lokið hafa grunnskólaprófi en uppfylla ekki almenn skilyrði til inngöngu á lengri námbrautir framhaldsskólans, geta innritast á almenna námsbraut.
Á brautinni eru strangar reglur um mætingu.
Almenna brautin skiptist í þrjá hluta, A11, A12 og A13.
Almenn braut 11 er fyrir þá sem hafa fallið á tveimur samræmdum prófum eða fleiri.
Almenn braut 12 er fyrir þá sem hafa fallið á einu samræmdu prófi.
Almenn braut 13 er fyrir þá sem hafa ekki gert upp huga sinn um hvert þeir stefna og einngi fyrir þá sem hafa ekki fallið á samræmdu prófi en ná ekki inn nógu góðri einkunn til að fara inn á stúdentsbrautir.
Kennslustjóri brautarinnar er Stefanía Ósk Sveinbjörnsdóttir.

Grunnbraut upplýsinga- og fjölmiðlagreina er sameiginlegur hluti á Upplýsinga- og fjölmiðlabraut og er ætlað að veita nemendum góða, almenna undirstöðuþekkingu á sviði upplýsinga- og fjöðmiðlagreina. Grunnnámið er 60 einingar, en hægt er að klára sérnám eftir 1 af 9 mögulegum sviðum (1 önn og 20 einingar) í öðrum skólum.
Að loknu sérnámi getur nemandi valið á milli þess að fara í starfsþjálfun í 12 mánuði eða ljúka námi til stúdentsprófs með tilliti til þess framhaldsnáms sem stefnt er á.
Kennslustjóri brautarinnar er Ólöf Björk “Lóa” Bragadóttir

Starfsnám í íþróttafræði og íþróttagreinum er 24-30 einingar, með það að markmiði að undirbúa nemendur fyrir þjálfun barna unglinga hjá félagasamtökum og skólum, jafnframt því að vera heppilegur undirbúningur fyrir háskólanám í íþróttafræðum, jafnt hérlendis og erlendis.
Nýtist sem val og hluti af kjörsviði stúdentsbrauta.
Kennslustjóri íþróttabrautar er Árni Ólason

Sjávarútvegsbraut er í rauninni ekki námsbraut við ME, heldur býðst nemendum að stunda nám á henni með öðru námi frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS).
Sjávarútvegsbraut er sjálfstæð braut sem lýkur með réttindum til skipstjórnar allt að 30 rúmlestum.
Brautin er einnig nauðsynlegur undirbúningur undir skipstjórnarnám og sömuleiðis góður undirbúningur fyrir ýmis störf á sjó eða í landi.
Fjöldi eininga er 70.
Meðalnámstími á brautinni er fjórar annir
Kennslustjóri brautarinnar í FAS er Helgi Georgsson.

Listnámsbraut er námsbraut þar sem að lagður er grunnur að frekara listnámi í sérskólum eða háskólum. Námið er 105 einingar og er skipulagt sem þriggja ára nám með möguleika á viðbótarnámi til stúdentsprófs.
Námið skiptist í kjarna, kjörsvið og frjálst val nemenda. Kjörsviðið felur í sér sérhæfingu í listgreinum.
Kjörsvið brautarinnar í ME eru tvö: hönnun og textíll annars vegar og hins vegar myndlist.
Kennslustjóri brautarinnar er Ólöf Björk Bragadóttir.

————————–

Um félagslíf ME mun ég fjalla um einhverntímann seinna.

Takk fyrir!!!