Jæja, úrslit Morfís eru í kvöld.
Ég held að þetta verði svakalega jöfn keppni, ef maður miðar við frammistöðu liðanna í undanúrslitum þá myndi Verzló vinna mjög örugglega en þeir unnu okkur í FB í hnífjafnri og spennandi keppni. MR ingar voru hinsvegar frekar lélegir á móti FG og unnu þá keppni með frekar litlum mun.
En það þýðir ekki að miða við það núna því lið MR hefur fengið inn aftur meðmælenda frá 8-liða úrslitum sem stóð sig mjög vel þá og hann kemur inn fyrir slakasta manninn þeirra á móti FG.
MR og VÍ mættust eins og venjulega á MR-VÍ deginum fyrr í ár og þá unnu MR-ingar með talsverðum mun. Nú eru Verzlingar með mun betra lið en þá en gott ef MR-ingar stilla ekki upp sama liði og þá þrátt fyrir að það hafi ekki verið eins í neinum tveimur Morfís keppnum hingað til.
Það er ljóst að MR-ingar þurfa að kunna ræðurnar sínar mun betur en þeir hafa gert hingað til og ég hef trú á að þeir muni gera það núna.
Ég ætla að bera liðin saman eftir mínu höfði, stöðu fyrir stöðu.
(afsakið ef liðskipanir eru ekki réttar, en þetta eru þær sem mér hafa borist)
Frummælendur, Björn Bragi (VÍ) - Einar (MR)
Björn Bragi hefur staðið sig vel hingað til, kunnað ræðurnar sínar vel og virkað öruggur og sannfærandi. Einar hefur staðið sig ágætlega en ekki kunnað ræðurnar sínar nógu vel og oft ekki verið mjög sannfærandi. Honum hefur hinsvegar ekki vantað mikið upp á og það gæti alveg verið komið í kvöld. Miðað við fyrri frammistöður yrði Björn hærri en það gæti alveg eins farið öfugt í kvöld.
Meðmælandi, Jónas (VÍ) - Árni (MR)
Jónas er svona ræðumaður sem maður fílar annaðhvort eða ekki, hann er ekki með þennan dæmigerða “Verzló” stíl heldur meira þennan nýaldar “stand up” Morfís stíl. Hann vakti lukku á móti okkur… annar helmingurinn hló dátt og dómararnir líka. Þá var hann dæmdur ofarlega. En hann gerir það sem hann gerir vel, virkar öruggur en var kannski ekkert með rök upp á marga fiska síðast. Árni er skemmtilegur ræðumaður, öruggur og kemur með skemmtileg rök. Þetta verður örugglega frekar jafnt… Mér finnst Árni örlítið betri en þetta fer mikið eftir dómurunum eins og alltaf.
Stuðningsmenn, Breki (VÍ) - Jóhann Alfreð (MR)
Þetta eru þeir tveir ræðumenn sem munu koma til með að berjast um ræðumann Íslands í kvöld. Báðir ræðumenn eru mjög góðir. Breki varð ræðumaður kvöldsins í tveimur fyrstu keppnunum en 1 stigi frá því í undanúrslitum. Jóhann Alfreð hefur verið ræðumaður kvöldsins í öllum keppnunum hingað til. Breki er sannfærandi ræðumaður með mikla reynslu, hann var í sigurliði Verzló árið 2000, 2.sætisliði Verzló 2001 eftir tap gegn MA og í 3-4 sæti í fyrra eftir tap gegn okkur í FB. Þetta er síðasta árið hans í Morfís og hann hefði örugglega ekkert á móti því að enda það sem sigurvegari og Ræðumaður Íslands. Jóhann Alfreð er frábær ræðumaður, mjög fyndinn og skemmtilegur en ef hann ætlar að vinna Breka þá þarf hann að kunna ræðurnar sínar betur en hann hefur gert hingað til.
Semsagt, úrslit Morfís í kvöld klukkan 8 í Austurbæjarbíói. Miðaverð er 800 krónur en keppnin er af einhverjum ástæðum ekki sýnd beint neins staðar. Umræðuefnið er “Eru karlmenn að standa sig illa” og eru MR með og VÍ á móti. Fyrirfram virkar aðeins auðveldara að mæla með en það kemur í ljós.
Þetta verður örugglega skemmtileg keppni sem allir ættu að sjá.
http://www.plazebo.blogspot.com