Vegna umræðu um morfískeppni FB-BHS (sjálfsvíg)
keppnin var haldin, landlæknir fór í fýlu en hverjum er ekki sama. FB vann, stærra en búist var við. og já það var gerð heiðarleg tilraun til að troða málfrelsi framhaldsskólanema niður í skítinn.
Það er greinilega ekki hverjum sem er treyastandi til að tala um efni eins og sjálfsvíg á ábyrgan hátt. Þeir sem reyndu að koma í veg fyrir morfískeppnina á föstudaginn hljóta að gera sér grein fyrir að þeir hafa vakið meira umtal og umfjöllun um sjálfsvíg heldur en keppnin sjálf hefði nokkurn tíma gert. Hmmm….látum okkur sjá, sniðugt hjá þeim.
Ég leyfi mér að halda því fram að Allir sem vita hvað ræðukeppnir ganga út á gera sér grein fyrir því að umræðuefnið skiptir ekki máli. Aldrei er í fúlustu alvöru verið að reyna að finna einhverja niðurstöðu í keppninni. Allir sem komnir eru til aðp fylgjast með eru komnir til að sjá skemmtun þar sem tekist er á um misfáránleg rök fyrir oft á tíðum enn fáránlegri málstað. Svona til að hafa allt á hreinu skulum við setja upp gróft vikuplan yfir síðustu viku:
Föstudagur 7. feb: FB og Borgó semja um umræðuefnið sjálfsvíg. BHS stakk upp á því og okkur fannst það einfaldlega of gott fyrir okkur til að sleppa því.
Laugardagur 8. feb: Umræðuefnið tilkynnt á heimasíðu Morfís
Mánudagur 10. feb: fyrstu auglýsingarnar fyrir keppnina fara upp í FB. umræðuefnið skýrt tekið fram.
Þriðjudagur 11. feb: Auglýsingar settar upp út um allt í báðum skólum. stórar, áberandi og litríkar. ómögulegt að missa af þeim. Félagsmálafulltrúar látnir vita af keppninni og umræðuefninu.
Miðvikudagur 12. feb: Ljóst að skólastjórnaraðilar í báðum skólum vita af umræðuefninu. gera engar athugasemdir. Jafningjafræðslan ræðir við þjálfara Borgarholtsskóla. gerir ekki athugasemdir við að keppnin sé haldin með þessu umræðuefni en gerir tillögu um að tækifærið verði notað til að koma af stað ábyrgri fræðslu og forvarnarumræðu í skólunum vikuna eftir keppni. Ljóst að sjálfsvígsforvarnarfulltrúi landlæknisembættisins veit af keppninni og umræðuefninu en gerir engar athugasemdir.
Fimmtudagur 13. feb: Mikil umræða og spenna komin upp í skólunum með tilheyrandi klappliðsæfingum og hamagangi. Skólameistari Borgarholtsskóla fréttir hvert umræðuefnið sé en gerir engar athugasemdir
Keppnisdagur 14. feb: Landlæknisembættið sér ástæðu til að óska eftir því að keppnin verði ekki haldin af þeirri ástæðu að það sé óverjandi að bjóða óhörðnuðum unglingum upp á umræður þar sem færð eru rök með sjálfsvígum. Skólameistari BHS stekkur upp á svið í miðri klappliðsæfingu og aflýsir keppninni án samráðs við ræðulið skólans. Skólameistari FB fréttir af umræðuefninu í gegnum símtal við skólameistara BHS. Skólameistararnir sammælast um að keppnin verði ekki haldin innan veggja skólanna og ætlast til að fundið verði annað umræðuefni og keppninni frestað. Fulltrúar ræðuliðanna boðaðir á fundi með skólameisturum til að finna niðurstöðu í málinu. eftir langa fundi er komist að samkomulagi um að keppnin verði haldin á hlutlausum stað fyrir luktum dyrum með 50 manna stuðningsliði (18 ára og eldri) frá hvorum skóla skv. boðslista.
Enginn þeirra sem að keppninni stóðu var ánægður með þessa úrlausn. Þetta samkomulag var þrautalending til að keppnin færi ekki fram í óþökk skólayfirvalda og hefði þannig getað skapað eftirmál fyrir keppendur. MORFÍs er sjálfstæð keppni í mælsku og rökræðulist sem nemendur framhaldsskólanna standa að og morfís er að sjálfsögðu heimilt að halda keppnir um hvaða umræðuefni sem er. Hins vegar ber að líta á það að morfís gæti ekki starfað án samstarfs við skólana og það ber að virða upp að skynsamlegum mörkum.
Við skulum hafa það á hreinu að skólameistarar hafa einfaldlega ekki vald til að banna að keppnir innan morfís fari fram. Þeir geta vissulega bannað auglýsingar í skólanum og notkun á húsnæði skólans. aukinheldur hafa þeir vald til að banna nemendum að taka þátt í keppnum undir merkjum skólans og refsa þeim fyrir brot á slíku banni. Það lá fyrir að hvorugur skólameistarinn hafði í þessu tilfelli hugsað sér að beita slíkum úrræðum.
Við skulum líka hafa það á hreinu að með tilraunum sínum til að banna keppnina á keppnisdegi eftir að hafa haft vitneskju um umræðuefnið í þrjá til fjóra daga sýndu skólameistarar BHS og FB ræðuliðum sínum algera og fullkomna óvirðingu. Enginn skilningur var á því hve mikil vinna og undirbúningur fer í svona keppni og hve mikið nemendurnir leggja á sig til að halda nafni skólans á lofti. Gott dæmi um þetta skilningsleysi var tillagan “Getið þið ekki bara breytt umræðuefninu í þunglyndi ef þíð viljið endilega keppa í kvöld?” !!! Við svona löguðu getur maður ekki annað en gapað yfir heimskunni.
Landlæknir hefur vissulega eftirlitsskyldum að gegna og í raun ekkert út á það að setja þó embættið fylgist með því sem gerist í samfélaginu. Ég hef samt ýmislegt að athuga við starfshætti og málflutning embættisins í þessu máli og ég skora á fulltrúa þess að lesa þetta hér og svara því á málefnalegan hátt:
1. Það er ljóst að forvarnafulltrúi landlæknisembættisins, sá sami og að öllum líkindum gerði athugasemdina á keppnisdag, vissi af keppninni og umræðuefninu að minnsta kosti þrem dögum fyrr og kaus að gera engar athugasemdir. Þetta getur ekki flokkast undir neitt nema slæleg vinnubrögð og óvirðingu við nemendur skólanna tveggja. Þetta ber sterkan keim af snöggum geðþóttaákvörðunum hjá embætti sem maður hefði haldið að fari eftir skýrt mótuðum vinnureglum.
2. Landlæknisembættið gerði athugasemd sína á grundvelli þess að ekki væri við hæfi að bjóða “óhörðnuðum unglingum” upp á umræðu um sjálfsvíg. Samt sem áður þverneitaði aðstoðarlandlæknir því að embættið gæti sætt sig við keppni þar sem unglingum yngri en 18 ára væri bannaður aðgangur. Ég spyr: Hvernig getur landlæknisembættið varið þá afstöðu sína að engum framhaldsskólanema sé treystandi til að hlusta á umræðu um sjálfsvíg? Hvernig getur embættið varið þá afstöðu sína að fullorðið, lagalega sjálfráða fólk hafi ekki þroska til að hlusta á umræðu um ákveðin efni? Ég spyr: Hr. landlæknir, hvenær er fólk orðið nógu fullorðið til að mega hlusta á umræðu um sjálfsvíg? Hvar ætlar þú að draga mörkin? Og hvers vegna ósköpunum hefur þú rétt til þess að ákveða slíkt? Eftir því sem ég best veit ríkir enn málfrelsi og fundafrelsi í þessu blessaða landi og það á jafnt við um framhaldsskólanema og aðra landsmenn.
3. Fyrst landlæknisembættið sá ástæðu til að blanda sér í málið í þetta sinn, hvers vegna hefur það ekki gerst áður? Keppnir í Morfís hafa áður verið með og á móti umdeildum efnum. þó nokkrum sinnum hafa verið færð rök fyrir því að lögleiða skuli fíkniefni á Íslandi, nú síðast í keppni Verslunarskólans og FS í átta liða úrslitum fyrir nokkrum vikum. Ekki heyrðist bofs frá landlækni þá og þó er lögleiðing fíkniefna eitt þeirra málefna sem maður hefði haldið að embættið berðist hvað harðast gegn! Ekki hafði landlæknir heldur neitt við það að athuga að Flensborg mælti með sígarettum í 8 liða úrslitum morfís í fyrra. Aftur finn ég þef af geðþóttaákvörðunum hjá embætti sem ætti að vera samkvæmt sjálfu sér.
Að lokum vil ég segja þetta: Ef landlæknir vill eitthvað vera að skipta sér af umræðuefnum í Morfískeppnum í framtíðinni þá vona ég að embættið leggi að minnsta kosti virðingu sína í að gera það með almennilegum fyrirvara. Vinnuaðferðir eins og embættið viðhafði á föstudaginn eru gerræðislegar og hafa einungis þá afleiðingu að framhaldsskólanemar missa allt álit á því.
Ég vil aukinheldur beina því til skólameistara þessara tveggja skóla að rölta öðru hverju um ganga skólanna sem þeir stjórna og lesa auglýsingarnar sem hanga á veggjunum. Tala saman öðru hverju um það sem er að gerast í stofnuninni. Það gæti í framtíðinni orðið til þess að við sleppum öll við farsakennda föstudaga eins og 7. febrúar.
Og að lokum: Ræðulið FB mun í framtíðinni, eins og hingað til, semja um þau umræðuefni sem liðinu finnast vænleg til sigurs. Við vonum að skólayfirvöld muni sýna okkur þá virðingu að láta okkur vita ef þau hafa eitthvað við það að athuga.
Jóhannes Þ. Skúlason
þjálfari morfísliðs FB