Ég rakst á þetta bráðskemmtilega svar á Vísindavefnum, við spurningunni er hægt að deyja úr leiðindum í dönsku? Og datt í hug að fleiri vildu lesa það. Athygli skal vakin á því að í svarinu er sett fram mjög athyglisverð samsæriskenning, endilega komið með ykkar álit á henni.
Í skýrslum um dánarorsakir á Íslandi undanfarna fimm áratugi má meðal annars finna ýmiss konar slys og sjúkdóma. Hins vegar er hvergi getið um dánarorsökina “leiðindi í dönskutíma.” Í ljósi þess að á hverju ári sitja þúsundir Íslendinga í dönskutímum mörgum sinnum í viku má því draga þá ályktun að þessi dánarorsök sé sárasjaldgæf og tíðni hennar undir marktæknimörkum.
Eftir stendur reyndar sá möguleiki að dánarorsökin “leiðindi í dönskutíma” sé algeng, en að skólar og heilbrigðisyfirvöld hafi með sér samsæri um að leyna því. Ef um slíkt er að ræða getur vel verið að bæði nemendur og kennarar hrynji niður í dönskutímum og dönskukennsla sé stórhættuleg. Vísindavefurinn lýsir eftir vitnum sem geta gefið vísbendingar um slíkt samsæri og heitir þeim fullum trúnaði.
Ef við veltum fyrir okkur hvers vegna sumir kennarar eru leiðinlegir kemur sitthvað til álita. Sé um dönskukennara að ræða getur verið að hann sé að reyna að losa sig við nemendurna. Hann hefur heyrt af þeim möguleika að dönskutímar séu lífshættulegir og kannski finnst honum nemendurnir leiðinlegir og óttast um eigið líf. Leiðindi dönskukennarans eru því hrein sjálfsbjargarviðleitni: Hann er að reyna að verða fyrri til að koma nemendunum fyrir kattarnef áður en þeir gera honum slíkt hið sama.
Ýmislegt annað kemur líka til greina. Kannski er svo leiðinlegt að vera kennari að aðeins leiðinlegt fólk kærir sig um það starf. Eða þá að bráðskemmtilegt fólk verður hundleiðinlegt eftir nokkur ár í kennslu. Samkvæmt heimildum okkar er það að vera leiðinlegur ekki eitt af inntökuskilyrðum Kennaraháskóla Íslands. Ekki vitum við heldur til þess að þar sé kennt sérstakt námskeið í leiðinlegri hegðun.
Sum okkar í ritstjórn Vísindavefsins búum yfir þeirri reynslu að hafa fundist kennarar leiðinlegir þegar við vorum sjálf nemendur en höfum svo orðið kennarar sjálf. Eftir að við urðum kennarar hætti okkur að finnast kennararnir leiðinlegir. Vel getur verið að skýringin sé sú að við séum sjálf orðin svona hrútleiðinleg.
Allir sem hafa verið í skóla þekkja líka þá félagslegu kvöð sem virðist hvíla á nemendum á ákveðnum aldri að finnast kennarar leiðinlegir, eða í það minnsta láta eins og þeim finnist það. Eftir því sem við best vitum hefur það aldrei gerst að nemandi í einum af efri bekkjum grunnskóla á Íslandi hafi látið þau orð falla innan um félaga sína að allir kennarar væru skemmtilegir. Eigi slíkt eftir að gerast verður það vafalaust fyrsta frétt hjá öllum fjölmiðlum landsins.
Hér er rétt að benda á að nemendur hafa ákveðin forréttindi umfram kennara. Þeir geta pískrað sín á milli um það hvað kennarinn sé vitlaus, asnalegur og hallærislegur. Þetta vita allir kennarar, enda voru þeir sjálfir einu sinni nemendur, og má því ætla að kennarastéttin hljóti að vera full af fólki sem hefur lúmskt gaman af að vera kveikjan að svona umtali. Kennararnir reyna þá kannski að vera leiðinlegir til að nemendurnir hafi eitthvað til að tala um.
Kennurum leyfist hins vegar ekki að pískra sín á milli um nemendur á þennan hátt, hversu freistandi sem það kann að vera, þar sem þeim er skylt að bera hag nemenda fyrir brjósti framar eigin skopskyni. Kennarinn hefur þá skyldu að reyna að láta sér líka vel við alla nemendur sína, líka þá sem sofa í tímum, læra aldrei heima og svara kennaranum aldrei nema með eins atkvæðis orðum.
Vísindavefurinn stóð á dögunum fyrir rannsókn á leiðinlegum kennurum og nemendum. Fylgnin milli leiðinlegra kennara og leiðinlegra nemenda reyndist jákvæð. Þannig höfðu nemendur með leiðindastuðulinn 77 kennara með leiðindastuðul 82,3 að meðaltali meðan nemendur með leiðindastuðulinn 43 höfðu kennara með leiðindastuðul 38. Niðurstaðan er því skýr: Leiðinlegt fas kennara er í beinu samhengi við leiðinlegt fas nemenda. Ekki er þó ljóst hvoru megin orsökin liggur enda segja hreinar fylgnikannanir aldrei til um slíkt
Bestu kveðjur
habe.