wasd vs. esdf
Kæru samherjar,
Ég er nokkuð eldri en á mér sést. Reyndar svo, að mig rekur minni til þess að hafa spilað bæði Wolfenstein og Doom á 386um hér í den, og þótti gott. Þetta var á þeim árum þegar Microsoft hafði ekki gert sér fyllilega grein fyrir þeim kosum sem músin býr yfir, enda voru slíkir gripir sjaldséðir fylgihlutir hinnar almennu pc-tölvu.
Skömmu eftir að Doom kom út í endanlegri mynd tóku menn að velta fyrir sér þeim möguleika að spila leikinn á neti. Eftir mikið erfiði, sem snerist að mestu um að útvega IPX rekla fyrir netkerfi menntastofnunarinnar sem hýsti netleikina (í mikilli óþökk kerfisstjóra), var tekið til við netspilun af miklum móð. Baráttan var hörð og voru margir kallaðir en fáir útvaldir. Eftir nokkurra mánaða spilun tók ákveðinn hópur manna að skera sig úr hópnum sökum þess hve góðir þeir reyndust í leiknum. Flestir þeirra áttu það sameiginlegt að nota músina í stað lyklaborðsins. Ég trúði nú sosum ekki mikið á þetta enda gekk mér ágætlega með lyklaborðið eitt að vopni. Mýs í leikjum var bara húmbúkk sem myndi fljótt heyra sögunni til.
Víkur nú sögunni til ársins 1996 en þá kom út hinn eini sanni Quake. Nú fór málið að vandast fyrir hina gallhörðu lyklaborðsmenn því að allt í einu þurftu leikmenn að miða bæði upp og niður, því að Quake var og er jú þrívíddarleikur. Ég var nú samt ekki alveg að kaupa þetta með músina. Ein af ástæðunum var sú að mýs á þessum tíma gátu verið bölvaðir vandræðagripir. Önnur ástæðan var sú að margir leikir gerðu ekki ráð fyrir músarnotkun og var því stuðningur við mýsnar ansi misjafn. Ég lét mig hafa þetta og kláraði Quake single-player á lyklaborðinu og þóttist góður. Í jólafríinu þetta sama ár komst ég aftur á móti að hinu sanna. Þá var haldið ægilegt lan í musteri lærdómsins, þar sem ég var aldeilis tekinn í bakaríið af músarmönnum. Ég varð því að bíta í það súra epli að músin væri komin til að vera, slíkir voru yfirburðir músarmanna í leiknum.
Nú, eftir að hafa sætt mig við þessi örlög tók við næsta þraut, að velja lyklaborðsuppsetningu. Það er nefnilega stór munur á uppsetningu þess sem spilar eingöngu á lyklaborði og þess sem spilar með lyklaborð og mús. Ég tók þann pól í hæðina að gefa vinstri hendinni (ég er rétthentur) sem mest svigrúm og hámarka um leið þann fjölda lykla sem ég gæti notað með þeirri hendi. Með þetta að leiðarljósi valdi ég að nota :
e - áfram
d - aftur
s - strafe left
f - strafe rigth
.. eða svokallaða esdf uppsetningu. Þetta finnst mér ákaflega þægileg uppsetning. Ég hef greiðan aðgang að q,w og a lyklunum vinstramegin og r,t, og g hægramegin auk neðstu raðar lyklaborðsins að sjálfsögðu.
Eins vel og ég kann við þessa uppsetningu virðast leikjaframleiðendur verða á öndverðum meiði. Þeir ganga nánast undantekningalaust útfrá því að leikmenn noti litla bróður esdf, svo kallaða wasd uppsetningu. Litla bróður? Jú, litla bróður því með wasd er einungis einn takki nothæfur vinstra megin á borðinu, nefnilega q. Nothæfum tökkum vinstra megin hefur verið fækkað um 2 auk þess sem það þrengist um í neðstu röðinni. Furðuleg uppsetning, svo ekki sé meira sagt. Furðulegheitin koma einkum í ljós í leikjum þar sem boðið eru upp á aðrar aðgerðir en að skipta milli vopna t.d. opna hurð, planta sprengju, henda vopni svo ekki sé minnst á allt teamtalkið. Í slíkum tilfellum veldur wasd uppsetningin því að leikmenn þurfa að teygja sig yfir hálft lyklaborðið til að geta komið eh. í verk - sem stýrir líklega ekki góðri lukku.
Kæru samherjar, nú er windows installið búið og tími til að ljúka þessu. En svona undir lokin, hvaða uppsetningu er hinn almenni leikmaður að nota?
- Trini