Þá er mótið að verða hálfnað, dagur 4 er risinn. Hitinn er mjög hár og sólin að steikja alla. Við förum inn í ofurmarkaðinn hérna til þess að kæla okkur, það er 21 gráðu hiti þar inni. Í gær fórum við í City of Science og settum ógrynni af metum í öllum mögulegum þrautum.
Hitinn í tjaldinu er orðinn bærilegur, einn farinn og plássið orðið meira. Við erum 5 eftir og flíspokinn sem ég kom með er notaður sem lak, lakpoki sem ég tók einnig með mér kemur ekkert nálægt mér. Við sofum bara hálfberir og hitinn er samt við það að verða of mikill.
Verðið hér er alveg fáránlegt. Álagningin á mótssvæðinu er um 50% miðað við Bangkok en er samt meira en helmingi ódýrara en heima. Dæmi má nefna að 1.25L af kók kostar um 30 kr íslenskar. Svo er hægt að kaupa Thai buxur hérna á svæðinu á 150 kr.
Við fórum á ströndina í morgun. Mjög skrítið að upplifa gamlársdag á strönd í meira en 30 stiga hita. Við fórum í fótbolta á ströndinni og komumst að tvennu, við erum miklu betri en Tælendingar í fótbolta og sandurinn verður viðbjóðslega heitur hérna, við brenndum okkur allir á ilunum vegna þess að strandfótbolti er spilaður á tánum!
Í gærkvöldi fengum við svo óvænta heimsókn. Þetta var sporðdreki sem kom inn á svæðið okkar. Fyrr um daginn hafði einhver verið stunginn en ég veit ekki mikið um það mál. Við fönguðum hann, tókum endalaust af myndum af honum og afhendum svo Tælendingi hann. Hann drap hann ekki heldur fór með hann út í skóg þar sem samkvæmt Búddahdómi má ekki drepa neitt lifandi.
Nú eru landkynningar í gangi og fólk í góðum fíling. Við erum með íslenska Toro kjötsúpu og harðfisk.
Ég skemmti mér frábærlega hérna og efast ekki um að flestir samlandar mínir hérna geri það líka. Tælendingarnir eru mjög vinalegir og tilbúnir að hjálpa okkur í einu og öllu. Þeir eru það hjálpsamir að það er næstum of mikið.
Ég ætla ekki að lofa neinu um greinaskrif mín en þau munu koma eins oft og tækifæri gefst til.
Meðfylgjandi er mynd af forseta Tælands en hann er 75 ára gamall. Trikkið sem hann notar til að líta unglega út er að hann hefur bara myndir sem eru 20 ára gamlar af sér. Hann lítur víst allt öðruvísi út í alvörunni.
Annars bara gleðilegt nýtt ár kæru skátar og takk fyrir það gamla og vonandi verður áhugamálið virkt á komandi ári.
Kveðja
Arnar Ágústsson