Ég var einlægur stuðningsmaður sameiningu en nú er ég á báðum áttum.
Ég held að í heimshlutum þar sem samskipti kynjanna eru ekkert vesen, svo sem í okkar ástkæru Evrópu, þá yrði sameining til þess að auðvelda allt starf samtakanna og búa til aðgengilegri vettvang fyrir alla skáta til að stunda sitt starf. Flækjustigið yrði töluvert minna og tækifærin fleiri.
Hins vegar er tvennt sem styður það að samtökin haldist aðskilin, allavega í bili:
1)Þjóðfélög þar sem staða kvenna er bág, s.s. miðausturlönd og víða í Afríku. Í þeim heimshlutum eru WAGGGS mikilvæg samtök í baráttunni fyrir auknu kvenfrelsi. WOSM hafa svosem líka verið að vinna í þeim málum, en komast ekki með tærnar þar sem WAGGGS hefur hælana, enda segir í stefnu WAGGGS: “empower girls and young women worldwide.” Skátastarfið sem WOSM-bandalög í þessum löndum bjóða upp á er oft bara fyrir stráka og þá er WAGGGS mikilvægt til að halda uppi skátastarfi fyrir stelpur líka. Fulltrúi WAGGGS sem ég talaði við fyrr á árinu gerðist m.a.s. svo frökk að fullyrða að án WAGGGS myndu stelpur aldrei fá að vera skátar í sumum arabalöndum.
2) Single gendered space! Þetta er hugtak sem mér fannst fyrst skrítið en komst svo að því að er mjög mikilvægt. Gefum okkur að íslenskt skátafélag fari í vikulanga tjaldútilegu. Þegar tjaldbúðin er sett upp þarf að skipta verkum. Líklegt er að strákarnir fari að reisa trönubyggingar og stelpurnar fari að innrétta eldhústjaldið. Strákaforingjar eru oft flippararnir og stelpuforingjarnir eru oft mömmurnar. Ef við erum á leið í útilegu og dekkið springur á bílnum hlaupa strákarnir út og kippa því í lag, ekki stelpurnar. Auðvitað eru þessi dæmi ýkt og ekki algildur sannleikur, en þið hljótið að vera sammála því að kynin hafa tilhneiginu til ákveðinna verkaskiptinga í skátastarfi. EN… með single gendered space (eins-kyns-rými) má tryggja að verkaskipting verður ekki byggð á kynjum og bæði kyn fá því að upplifa öll hlutverk. Ef strákar eru einir í útilegu, þá verða þeir að læra að þvo þvottinn sinn, sem mamma gerir venjulega. Ef steplur eru einar í útilegu verða þær að læra að skipta á dekkinu á bílnum. Með einskynsrými læra bæði kyn á hlutverk sem tengjast staðalímyndum um hlutverk hins kynsins, og þannig má búa til ríkari jafnréttistilfinningu og víðsýni, sem og meiri fjölhæfni hvers einstaklings fyrir sig. Þetta er eitt af því sem WAGGGS beitir sér fyrir, og mér finnst það mjög jákvætt. WOSM er nokkuð sama um þetta.
Þegar öllu er á botninn hvolft væri hentugast að sameina þessi samtök ef jafnrétti kynjanna væri veruleiki og kynbundnar staðalimyndir væru á bak og brott. Ef til vill væri líka hentugt að sameina þau þó svo væri ekki. En sem stendur er ég dyggur stuðningsmaður tilvistar WAGGGS. Auðvitað vil ég þó að samtökin starfi saman á öllum sviðum sem þau geta.
Og engar áhyggjur Hallveig, jafnvel þó sameiningarsinnar berjist hatrammlega eru samtökin líklega ekki að fara að sameinast á þínu lífsskeiði.