Sæll öll! Tilgangur þessarar greinar er tvíþættur:
1) Mig langar að hleypa lífi í þetta ágæta áhugamál.
2) Mig langar að mæla fyrir umdeildri breytingu á skátaheitinu, þ.e. að henda orðinu „guð“ út úr heitinu, og vonandi að vekja líflegar umræður í leiðinni

Byrjum á því að líta á íslenska skátaheitið eins og það er í dag:

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess:
-Að gera skyldu mína við guð og ættjörðina
-Að hjálpa öðrum, og
-Að halda skátalögin


Athugum aðeins hvaðan heitið er komið. Eins og skátaheiti allra landa er íslenska heitið þýðing og staðfæring á upprunalega heitinu sem Baden-Powell samdi árið 1907 og gaf út í Scouting for boys árið 1908. Það var svona:

On my honour I promise that—
I will do my duty to God and the King.
I will do my best to help others, whatever it costs me.
I know the scout law, and will obey it.


Árið 1912 kom síðan út þriðja útgáfa af Scouting for boys. Þegar hér er komið við sögu var skátahreyfingin búin að skjóta föstum rótum í Bretlandi, nokkrum löndum Evrópu, í ensku nýlendunum og víðar. Þegar Baden-Powell sá hve hreyfingin hafði stækkað mikið og unnið hug og hjörtu barna lengst utan Bretlands, ákvað hann að endurskoða skátaheitið til þess að hægt væri að aðlaga það mismunandi menningarheimum. Hann samdi því eitt heiti fyrir breska skáta og annað heiti fyrir skáta heimsins. Breska heitið var svohljóðandi:

On my honour I promise that I will do my best—
To do my duty to God and the King
To help other people at all times and
To obey the Scout Law.


Hitt heitið kallaði hann „The outlander scout promise“ og var það ætlað þeim þjóðum sem ekki heyrðu undir konung eða höfðu aðra trú ens kristni:

On my honour, I promise that I will do my best–
To render service to my country
To help other people at all times and
To obey the Scout Law.


Munurinn er augljós: í því breska er svarin hollusta við guð og konung, en í því útlenska er svarin hollusta við föðurlandið. Þegar WOSM var stofnað var það bundið í lög samtakanna að til þess að skátabandalag fengi inngöngu þyrfti það að notast við skátaheiti sem tók mið af annað hvort breska heitinu eða „outlander“ heitinu. Það er að sjálfsögðu gott og blessað.

Það var síðan á níunda áratug síðustu aldar að WOSM ákvað að breyta þessu þannig að nú er krafan sú að skátaheiti allra landa taki mið af breska heitinu, en ekki outlander-heitinu. Það má að vísu líta framhjá konungshollustunni en það að sverja hollustu við guð eða einhvern yfirnáttúrulegan mátt er skylda samkvæmt lögum WOSM.

Ástæðurnar fyrir því að B-P samdi outlander-heitið eru eftirfarandi:
I) Skáti getur verið frá landi sem ekki er konungsríki, t.d. Ísland
II) Skáti getur aðhyllst algyðistrú, t.d. búddistar og hindúar
III) Skáti getur aðhyllst fjölgyðistrú, t.d. forfeðrahyggja, zaraþústra og ásatrú
IV) Skáti getur aðhyllst eingyðistrú en tilheyrt söfnuði sem fordæmir notkun orðsins „guð“ í veraldlegum tilgangi, t.d. réttrúnaðarkirkjan og sumir söfnuðir gyðinga
V) Skáti getur verið trúlaus
VI) Skáti getur verið efins í trúmálum

Það ætti því að vera ykkur augljóst núna að guð í skátaheitinu er hrein og klár mismunun í garð þeirra hópa sem ég taldi upp. Af þeim ástæðum vil ég leggja til að orðið guð verði strokað út úr skátaheitinu. B-P fannst það allavega góð hugmynd.

Eflaust munu sumir hugsa: „Já, en þetta er guð með litlu g-i. Það þýðir að þetta getur verið hvaða guð sem þú vilt.“ Það verður þó að athuga að guð er ákaflega gildishlaðið orð, eflaust gildishlaðnasta orð í gjörvallri málsögunni. Mörgum hugnast ekki að sverja eið við guð einmitt af því að þeir trúa ekki á neinn guð, eða þer trúa á marga guði, eða þeir vilja hreinlega ekki blanda trúmálum og félagsstarfi saman. Þá skiptir engu máli hvort guð sé skrifað með litlu g-i eða ekki, gildi hugtaksins rýrnar ekki, og guð heldur áfram að þvælast fyrir.

Mín tillaga að breyttu heiti er:
Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess
-að gera skyldu mína við samfélagið og ættjörðina
-að hjálpa öðrum
-og að halda skátalögin


Ég geri mér samt grein fyrir því að trú er stórt álitamál í skátastarfi og því býð ég einnig tvær málamiðlanir. Þá fyrri kýs ég að kalla „leið hinnnar pólitísku rétthugsunar.“ Hún felst í því að núverandi skátaheiti haldist eins og það er, nema að orðin „guð og“ verði sett í sviga og hverjum og einum gert valfrjálst hvort hann eða hún fer með þau orð eða ekki.

Hin leiðin er „sænska leiðin.“ Svíar leystu þennan ágreining mjög vel. Heitið þeirra er stutt og laggott og einfaldar málin töluvert. Það hljómar svona: „Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að halda skátalögin.“ Skyldan við guð, ættjörð og m.a.s. hjálpsemi er tekin út úr heitinu og þess í stað koma tvær fyrstu greinar skátalaganna: 1) Skáti ræktar trú sína og virðir trú annarra. 2) Skáti er hjálpsamur. Einfalt ekki satt? Þar að auki er orðið trú mun þægilegra meðferðar heldur en guð, þar sem trú er mjög víðtækt hugtak.

En bíddu nú við? Má þetta? Gerir WOSM ekki kröfu um að heitið sé trúarlegs eðlis? Svarið við þessu er jú. Hins vegar eru reglurnar um þetta nokkuð loðnar. Þær eru jafnvel svo loðnar að mörg bandalög hafa alveg aðskilið trú frá skátaheitinu. Ég ákvað að rannsaka heiti annarra bandalaga til að athuga málið. Ég skoðaði 91 heiti af handahófi og komst að eftirfarandi tölum:

5 heiti minnast ekki orði á trúmál (Danmörk, tvö í Belgíu, Ísrael (!) og Svíþjóð)
14 gera trú valfrjálsa, líkt og í málamiðlun hinnar pólitísku rétthugsunar (t.d. Frakkland, Bretland, Sviss o.fl.)

Þróunin í heiminum er sú að æ fleiri bandalög íhuga svipaðar breytingar og ég legg til. Hví ættum við að vera eftirbátar í þeim efnum?

Þremur gagnrýnisröddum langar mig að svara fyrirfram:
a)Breyta skátaheitinu, það má ekki?! – jú það má bara víst. Íslendingar hafa gert það allavega einu sinni, bretar minnst þrisvar, svíar minnst tvisvar. Í raun er ekki til það bandalag sem ekki hefur hróflað við heitinu sínu. Svo lengi sem heitið byggir á upprunalegu heitinum (því breska og því útlenska) þá er það í fínasta lagi að „laga“ það.
b) Þegar maður vill breyta einhverju þarf eitthvað betra að koma í staðinn, hvað betra viltu að komi í staðinn fyrir guð? – Það sem mér finnst betra að kæmi í staðinn væri ekkert. „Ekkertið“ finnst mér betra en guðinn. Það mætti svosem líka setja samfélagið, mannlegan anda, góðmennsku eða hvað sem er í staðinn…
c) En skátarnir eru kristin hreyfing og því ættum við ekki að breyta þessu. Hví að vera í skátunum ef þú ert ósammála því? – Segðu þetta við skáta á Indlandi eða í Egyptalandi. Athugaðu hvort þeir eru sammála. Ef þér finnst svo mikilvægt að æskulýðsstarfið þitt sé kristilegt, gakktu þá í KFUMK í staðinn fyrir skátana.

Ég er skáti. Ég hugsa hvern einasta dag um hvernig ég get breytt betur í anda skátalaganna og starfað undir kjörorði okkar. Ég hef lært og upplifað meira en ég get talið í skátunum. Ég eyði fleiri klukkustundunum á viku í sjálfboðastörf fyrir skátana. Margir minna bestu vina eru skátar. Ég fann frið og skjól í skátunum þegar ég var viðkvæmur táningur. Ég reyni alltaf að skilja heiminn eftir betri en hann hann var. Ég lifi heilsusamlegu skátalíferni. Ég er góður foringi. Ég er allt sem góður skáti er. En í hvert einasta skipti sem ég fer með skátaheitið líður mér eins og heimsins mesta hræsnara, vegna þess að ég get ekki fyrir nokkurn mun gert skyldu mína við guð annars fólks. Ég fer með heitið formlegheitanna vegna, en ég þrái að geta einn daginn farið með það af heilum hug.

Með skátakveðju
-Arnó