Ég vil byrja með að segja að í sambandi við aldur þá segir hann ekki alla sögu því miður. Ég hef séð 17 ára sveitarforingja sem standa sig glimrandi vel (Bleh) á meðan ég hef séð mun eldri sveitarforingja taka við gamalgróinni sveit og klúðra henni á nokkrum vikum. Aldur skiptir því ekki öllu máli. Aldur er hinsvegar nauðsynleg mælistika til að koma í veg fyrir að óharðnaðir einstaklingar sem geta ekki valdið foringjastöðu lendi í þeirri aðstöðu. Þrátt fyrir frávik einstaklinga þá verður að vera til einhverskonar lína fyrir heildina.
Aðstoðarskátahöfðingi, Bragi Björnsson, hefur skoðað þessi mál nokkuð vel og hefur komið að reglugerð BÍS auk þess sem hann bjó til Drengskaparheit skátaforingja. Bragi kynnti mér og öðrum þátttakendum Gilwell þessi mál í eigin persónu fyrir nokkrum árum. Ég tel að stjórn BÍS hafi tekið nauðsynlega ákvörðun að vel athuguðu máli með að setja þessa reglugerð árið 2004. Í reglugerðinni kemur m.a.
Þann má skipa skátaforingja sem æskir þess og fullnægir þessum skilyrðum:
1. er vígður skáti.
2. er lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum skátaforingja.
3. hefur forræði á búi sínu og hefur ekki orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta s.l. 2 ár
4. er ekki á sakaskrá.
5. hefur lokið viðeigandi þjálfun til að gegna starfi sínu að mati skipunaraðila.
6. hefur unnið skriflegt heit að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin og hann tekur að sér sem skátaforingi og að hann hafi aldrei gerst brotlegur gegn börnum.
Þarna kemur skýrt fram að skátaforingi þarf að minnsta kosti að vera lögráða (18 ára). Einnig er athyglisvert að ákvæði um þjálfun er á valdi skipunaraðila, oftast félagsforingja. Þannig setur BÍS ekki kröfur um að ákveðnum námskeiðum sé lokið.
Ég ætlaði einnig að setja hingað inn Drengskaparheit foringja en fann það miður ekki. Vonandi linkar einhver góður maður það fyrir mig. En annars er nú tilgangurinn aðalega sá að skapa umræður;
Svo hvað finnst þér?